fimmtudagur, 29. september 2005

Gagnrýni: Charlie and the Chocolate Factory

Eftir að hafa séð tvær lítt eftirminnilegar myndir í bíó nýlega (Land of the Dead og Dukes of Hazard) sá ég eina frábæra nú á dögunum. Þetta var myndin um unga fátæka drenginn sem bjó hjá fátæku foreldrum sínum og fátækum, kexrugluðum öfum og ömmum og kofaskrífli inni í bæ. Hann átti þann draum að sjá sælgætisverksmiðju Willie Wonka (Johnny Depp) sem var mikið ævintýraland. Nokkrir útvaldir krakkar fengu að sjá verksmiðjuna æðislegu. Ein persóna í myndinni stendur upp úr. Það er barn frá Dusseldorf í Þýskalandi. Reyndar er það ofdekraður, feitur og kámugur krakkagöltur sem unir glaður við súkkulaðíát allan daginn. Frábær karakter. Hinir krakkarnir sem komust í fyrirheitna landið voru ofdekraðir og leiðinlegir (að Charlie litla undanskildum). Foreldrar krakkanna eru snobbað leiðindapakk. Johnny Depp er ljómandi góður í hlutverki hins brenglaða Wonka. Boðskapur myndarinnar er tvíþættur, eitt atriði fyrir börn og eitt fyrir fullorðna:
1. Fyrir krakkana: Það er ekki gott að vera heimtufrekur og þrasgjarn.
2. Fyrir fullorðna: Snobbað leiðindapakk sem ofdekrar krakkana sína er lélegt.
Þetta er að mínu mati mjög holl áminning fyrir bæði foreldra og krakka. Þetta er stórskemmtilegt ævintýri sem kemur stöðugt á óvart. Flestar persónurnar getur maður tengt við persónur úr raunveruleikanum.


Augustus hinn þýski, að gæða sér á gúmelaði.

Einkunn: 9,98

Dómgæsla

Liverpool fengu ekki tvö víti sem þeir áttu augljóslega að fá í leiknum í gær. Annað var fyrir það þegar hinn ljóti og leiðinlegi Didier Drogba sparkaði niður Sami Hyypia rétt við Chelsea markið. Hitt var þegar einn hálfvitinn í Chelsea sló boltann með hendinni viljandi inni í eigin teig til að verjast því að hann bærist til Cissé. Ég lýsi frati á svona dómgæslu.

Á sunnudaginn mætir Liverpool aftur þessu skítapakki, leiðinlegasta liði Englands í dag með liðinlegustu stuðningsmenn dagsins í dag. Þá á ég ekki við alla, sumir eru örugglega ágætisgaurar en sem heild er þetta skítapakk. Mourinho er auk þess ótrúlegur asni.

þriðjudagur, 27. september 2005

Gerilveirur hjúpaðar hnausþykku súkkulaði

Nú er ég kominn á gott skrið í 6 bls. líffræðiritgeðinni sem ég á að skrifa um retróveirur. Ég á að vísu að vera búinn að skila henni en það eru þo nokkir sem eru í sama slugsinu og ég. Þetta er fáránlega flókið efni og heimildirnar flóknir textar á ensku svo þetta er seinlegt. Ég skil líka voða lítið í því sem ég er að skrifa. Af hverju valdi ég retróveirur sem ritgerðarefni? Vegna þess að mér þótti það töff nafn og svo hef ég líka heyrt um búð sem heitir Retro. En þar tók ég aldeilis köttinn í sekknum.

Áðan var ég að garfa í góðri enskri heimild og skrifaði eftirfarandi: Veirur eru smáar eindir sem sýkja frumur í lífverum. Þær eru nauðbundnir innanfrumusníklar. Þær geta eingöngu fjölgað sér með því að ráðast inn í frumur og hertaka þær. Þetta er vegna þess að veirur skortir frumueiginleikana til að fjölga sér. Þegar talað er um veirur er venjulega átt við eindir sem ráðast á heilkjörnunga. Gerilveirur ráðast hins vegar á dreifkjörnunga. Slíkar eindir bera gjarnan örlítið magn af kjarnsýru (DNA eða RNA) sem hjúpuð er hnausþykku súkkulaði.

Mig langar að halda mig við þetta "hnausþykku súkkulaði" en ég verð víst að setja leiðinlegu útgáfuna inn, þessa með "hlífðarskurn".

4 bls. komnar, áfram með smjörið.

mánudagur, 26. september 2005

Venslakort

Baggalútur hefur hannað prýðilegt venslakort um Baugsmálið.

Subbutexti

Fyrir 2-3 vikum sá ég smávegis af Megasartónleikum á Grand Rokk. Sumir textarnir hans eru sérdeilis subbulegir eins og textinn við lagið Ragnheiður biskupsdóttir. Sá texti vakti mikla reiði margra í samfélaginu enda fjallað um raunverulegt fólk. Mörgum þótti fullyrðingar um þetta fólk í textanum í meira lagi vafasamar. Þetta var á þeim árum þegar Megas var gjarnan með lepp fyrir öðru auganu og á bólakafi í brennivíninu. Textinn umdeildi er svona:

Ragnheiður biskupsdóttir brókar var með sótt
og beiddi þegar Daði mælti á latínu.
Hann kenndi henni sitthvað til gamans og til gagns
og gjörðist snemma þaulkunnugur gatinu.

Í skammdeginu vildi henda að villtust bestu menn
og var oft fyrir kvenlíkami í rúminu.
En milli draums og veru þeir vissu óglögg skil
og voru síst að pæla í þeim í húminu.

Og hún Ragnheiður hún fæddi einn dag hann Daðason,
menn dylgjuðu, menn báru hana út, menn hæddu hana.
En hlýðið góðir drengir, það er hlálegt en þó satt,
það var helvítið hann Brynjólfur sem sæddi hana.

sunnudagur, 25. september 2005

Misgóður bjór

Ég hef komist að því að bjór er misgóður. Um daginn fékk ég danskan Thor bjór í partýi og hann var þrælfínn þá. Síðan þegar ég drakk þessa sömu bjórtegund í gær var hún beinlínis vond. Kenningin er víst sú að þetta fari eftir því hvað menn borða á undan. Þegar Thor bjórinn var ógeðslegur þarna í gær hafði ég borðað fullt af gulrótum áður (hver kannast ekki við það að borða fullt af gulrótum og fara síðan í partý?).

En í kvöld ákvað ég að fá mér tvo litla Thor í dósum og viti menn, hann var svona fjári góður. Það sem ég borðaði á undan í þetta skiptið var glóðasteiktur Quiznos bátur. Bátinn fékk ég frían sökum þess að Bandýmannafélagið Viktor vann Íslandsmeistaramótið í bandý nú síðdegis. Verðlaunin voru sumsé máltíð á Quiznos, bikar, Powerade og verðlaunapeningar.

Óvéfengjanleg niðurstaða: Bjór og gulrætur eiga illa saman.

Eitthvað segir mér að ég eigi að vera að læra.

fimmtudagur, 22. september 2005

3 afar

Í dag lærði ég um þrjá afa í líffræði: Briss afa, Magas afa og auðvitað Þarmas afa. Þeir voru allir hressir karlar og kunnu ógrynni af sögum.

Ör

Nú ætla ég að hætta í kaffinu. Þetta er fjórða örfærslan í röð. Þessu verður að linna.

Kaffi

Ég var að drekka kaffi. Ég mæli ekki með kaffi vegna þess að það gerir mann stundum ofvirkan.

Dómur

Þegar lærdómurinn kallar hvað mest verður bloggun fyrir valinu. Einstakt.

Gríðarlegt

Já, ég má til með að minnast á þessa síðu. Ólgandi, blússandi og bullandi, allt í senn. Ferskleiki.

miðvikudagur, 21. september 2005

Sirkus

Já, það mætti kannski nefna:
-Guðmundur Steingrímsson er leiðinlegur þáttarstjórnandi.
-Öndlit í sama þætti er frábært.
-Sigurjón Bjarnason fréttamaður er leiðinlegur.
-Seinfeld þættirnir eru blússandi.
-Jessica Simpson er leiðinleg. Hún gæti ekki fittað inn í Simpson-fjölskylduna í Springfield.

Fleira var það ekki.

þriðjudagur, 20. september 2005

Gagnvirkt uppeldi

Þrátt fyrir að ég sé eigin herra fæ ég uppeldi þegar það hentar. Gagnvirkt uppeldi er það sem koma skal.

mánudagur, 19. september 2005

Ég spyr, þú svarar

Lögin sem eru efst á baugi eru greinilega:
The Clash - Rock the Casbah
Davíð Þór - Strákur að nafni Stína
At The Drive In - One Armed Scissor
White Stripes - Red Rain
Gorillaz - Dirty Harry
Raggi Bjarna - Tequila
Raggi Bjarna - Með hangandi hendi
Bubbi Morthens - Allur lurkum laminn
Blur - Country House
Queens of the Stone Age - Medication
Belle & Sebastian - Stay Loose
Síðast en ekki síst lagið sem ég og nafni sungum hástöfum í flugvélinni á leið til Portúgal:
Þokkabót - Litlir kassar


Gefið.

sunnudagur, 18. september 2005

Göngur

Göngurnar í þetta skiptið urðu að hálfgerðum ógöngum. Rollur létu illa að stjórn og hlupu gjarnan til austurs eða vesturs í stað þess að fara í norður. Tvö lömb fóru reyndar norður og niður þegar þau stukku ofan í gjár og enduðu þar með líf sitt. Jörðin gleypti þau og ekki tókst að hífa þau upp aftur þar sem þau láu dauð á 20 m dýpi. Þess ber að geta að svæðið er jarðskjálftasvæði svo gjár eru út um allt. Ég var nokkrum sinnum nálægt því að falla niður í gjá en það slapp fyrir horn. Hvassviðri var mikið og hefur það sjálfsagt ruglað sauðina í ríminu. Komið var að réttinni á Fjöllum kl. rúmlega fjögur en við kjöraðstæður hefði það verið tveimur klukkustundum fyrr.

Ekki nennti ég í réttir og svaf þess í stað í sófa í Lóni.

fimmtudagur, 15. september 2005

Villuráfandi sauðir

Viðfangsefni mitt um helgina verður að beina villuráfandi sauðum á réttan kjöl og í heimahagana. Einu sinni þegar ég var lítill og vesæll stangaði stór og mikill hrútur mig niður en ég læt það ekki koma fyrir aftur. Í þetta sinn mun ég ráðast beint að forystukindunum og taka af þeim völdin.
Þarna komstu þér í klandur. Djöfulsins sauður.

miðvikudagur, 14. september 2005

Konfektmarkaðurinn

Um jól og áramót er íslenski konfektmarkaðurinn í algleymi. Eins og alþjóð veit hefur Nói Síríus sterkust ítök á markaðnum. Bragðið ku vera himneskt. Hver kannast ekki við súkkulaði með mintufyllingu sem bráðnar í munninum? Að ekki sé talað um molana með karamellu,jarðarberja og banana-fyllingu? Svo er hægt að fá svona fullorðins, með brennivínsfyllingu. "Nammi namm" segja sjálfsagt margir.

En nú hef ég undir höndum leyniuppskrift og hef í hyggju að ryðjast inn á konfektmarkaðinn af offorsi og skjóta Nóa gamla ref fyrir rass. Konfekt með lífsfyllingu verður það nýjasta. Mannkyn þarf ekki lengur að ráfa um stræti og torg í leit að lífsfyllingu, lífsfyllingin verður falin inni í súkkulaðimolum sem fást úti í búð. Svo sitja menn sem fastast heima hjá sér í stól eða úti á akri og maula konfektið góða. Þeir munu ekki þurfa að vinna, paufa og vesenast í leit að einhverju sem þeir vita ekki einu sinni hvað er. Þarna verður þetta komið á sínu einfaldasta formi, laust við allt vesen.


Þessi stúlka hefur bersýnilega komist yfir mola úr nýju leyniuppskriftinni sem ekki er enn komin á markað.

mánudagur, 12. september 2005

Hægðaraukandi regla

Stærðfræðikennarinn sagði í tíma í dag:
"Næst skulum við líta á reglu sem er mjög hægðaraukandi"

Þetta þótti okkur "boys in the back" frekar subbulegt. Þessi er greinilega nýbúinn að lesa hægðaraukandi reglu.

sunnudagur, 11. september 2005

Fjölmiðill sem ég get lært af

Sígildur liður í Gallup könnunum er að spyrja "Hvaða fjölmiðill
er þér mest að skapi?" og "Hvaða fjölmiðli getur þú lært af?". Ég hef alltaf átt erfitt með að átta mig á síðarnefndu spurningunni. Hvernig lærir maður af fjölmiðlum? Hvað lærir maður af fjölmiðlum?
Dæmisaga 1:
Dísa og Jónas sitja að snæðingi á heimili Jónasar.
Dísa: "Rosalega ertu settlegur hérna við matborðið"
Jónas: "Já, ég þakka Morgunblaðinu og engu öðru fyrir það. Í Morgunblaðinu lærði ég góða borðsiði."

Dæmisaga 2:
Fjóla sér Daníel, þriggja ára son sinn, með blað og blýant á eldhúsgólfinu að skrifa ritgerð.
Fjóla: "Daníel minn, hvar lærðir þú að draga til stafs?"
Daníel: "Nú...í Fréttablaðinu auðvitað"

Það var fyrst í morgun sem ég áttaði mig á að hægt væri að læra af fjölmiðlum. Ég las nefnilega í Fréttablaðinu að maður sem kallar sig Gilzenegger hefði gaman að því að fara í bíó á sunnudögum. Þetta vissi ég ekki fyrir. Svona lærir maður eitthvað nýtt á hverjum degi með Fréttablaðinu.

Ég vænti þess að lesendur hafi lært margt um sjálfa sig við lestur þessarar færslu og auðvitað að þeir hafi lært sitthvað um gang himintungla.

laugardagur, 10. september 2005

Menn í hvítu

Þá er busavígslunni lokið. Gaman var að tollera. Við piltarnir í mínu tolleringarholli tókum þá stefnu í upphafi að tollera aðallega litlar og nettar stúlkur. Ástæðan fyrir því var sú að við gátum kastað þeim mun hærra upp í loftið en hinum. Margar þeirra voru dauðskelkaðar áður en þeim var fleygt upp í heiðloftin blá. Þegar þær voru komnar niður aftur sáu þær að þetta var ekkert voðalegt. Hæðirnar voru ekki mældar en fróðir menn sögðu að ein stelpan hafi flogið góða 15 metra upp í loftið. Einn lítill og visinn drengur sem við tolleruðum flaug einhverra hluta vegna ekki beint upp í loftið eins og hinir heldur skáhallt upp. Þá urðum við að sýna hröð viðbrögð sem við og gerðum og stukkum á eftir og náðum að grípa pilt.

Eftir tolleringar fórum við Seppi og Stuðmundur Gríndal niður í bæ á kaffihús. Vegfarendur gáfu okkur margir illt auga, aðrir litu okkur hornauga og svo voru nokkrir sem litu okkur hýru auga. Segja má að við höfum vakið verðskuldaða athygli fyrir klæðaburð. Útlendingur fékk að taka mynd af okkur til þess að konan hans heima í útlöndum tryði að hann hefði séð menn í hvítum lökum (tóga eins og snobbarar kalla það) á Íslandi.

Um kvöldið var partý hjá Helgu fyrir okkur og nýnemabekk. Mál manna var að vel hefði tekist til. Krakkarnir voru reyndar mjög duglegir að betla áfengi af okkur 6.bekkingum þegar bolla hússins var búin. Þeir héldu sjálfsagt að við ættum skítnóg af peningum og að auðvitað eyddum við þeim öllum í brennivín. Eðlilega þyrftum við því að gefa vel með okkur af víninu. Þau eiga margt eftir ólært. Um helmingur nýnemanna í partýinu stundaði engin viðskipti við Bakkus og er það vel. Ballið á Broadway var ekkert spes, Broadway er ómögulegt húsnæði til að halda böll.

miðvikudagur, 7. september 2005

Spjallað við meistara

Bekkjarbróðir minn hitti meistara Megas í dag. Hafði Megas nokkrar athugasemdir fram að færa. Gallinn var sá að bekkjarbróðir minn skildi lítið af spjalli meistarans. Það breytti ekki því að hann samsinnti athugasemdunum öllum. Vart þarf að taka fram að ein af óskrifuðum reglum alheimsins er sú að meistari Megas hefur ávallt rétt fyrir sér.

mánudagur, 5. september 2005

Fögur tala

Það gekk nú svo langt að áðan þegar ég leit inn á blessadurkarlinn.blogspot.com hélt ég ekki vatni af hrifningu. Ástæðan var óvenju fögur tala á teljaranum neðst á síðunni.

Þetta var talan 41414 sem vakti gríðarlega hrifningu mína og hef ég nú tekið ástfóstri við hana. Symmetría og útgeislun tölunnar eru með ólíkindum. Fyrir fróðleiksfúsa má geta þess að þversumma tölunnar er 14, sem er að vísu þó nokkuð síðri tala.

Gagnrýni: Land of the Dead

Fékk frímiða á myndina Land of the Dead. Förum yfir helstu atriði á skalanum 1-10:
Söguþráður: 1
Leikur: 5
Skemmtanagildi: 2
Persónusköpun: 2
Útlit myndar: 4
Búningar: 5
Myndataka: 7
Hryllingur: 3

Atriðum var raðað saman í handahófskennda röð. Myndin fjallaði um látið fólk sem borðaði lifandi fólk. "Góðu karlarnir" reyndu að drepa dauða fólkið (Söguþráður?). Punktarnir tveir fyrir persónusköpun fara alfarið á súmókappann. Þættirnir vega misþungt í heildareinkunn.

Einkunn: 3,13.

sunnudagur, 4. september 2005

Mexíkanar

Fjölmiðlamenn eru duglegir að koma vitleysum inn í málið. Ég held að Bjarni Fel hafi verið fyrstur manna til að segja ?Mexíkóar?. Það er mjög vafasamt og þetta er orðskrípi og ekkert annað. Þetta orð yfir Mexíkana hefur þó náð að grafa sig inn í málið. Máttur fjölmiðla er of mikill. Ef orðunum tveimur er flett upp á Google fást 100 niðurstöður fyrir ?Mexíkóar? en bara 61 fyrir Mexíkanar.

laugardagur, 3. september 2005

Útrás fyrir heimsku

Oft er talað um það að fólk fái útrás eftir að hafa byrgt inni reiði eða sorg lengi. Sjaldnar hef ég heyrt fólk tala um að fá útrás fyrir heimsku. Við ákveðnar aðstæður virðist fólk fá útrás og losa jafnvel um heimsku sem það hefur byrgt inni í heila viku. Ég veit ekkert hvort slíku fólki líður betur á eftir eða ekki enda kemur það málinu ekki við.

Áðan ætlaði ég í Kringluna til að kaupa buxur og peysu. Ég hitti greinilega á álagstíma og tímapunkt þar sem margt fólk kom saman til að fá útrás fyrir alla heimskuna sem hafði safnast upp í þeim í liðinni viku. Fjölmargir virðast telja bílastæðin við Kringluna ákjósanlegan stað til sleppa út heimskunni. Heimskusprengjur eru látnar falla. Margir verða svo stressaðir og ruglaðir þegar þeir sjá alla bílana og fólkið á bílastæðinu að þeir fara að gera einhverja "random" hluti (hluti af handahófi á fagurri íslensku). Einn bakkar á fullu út úr stæðinu sínu og nennir ekki að líta í speglana. Annar stoppar á miðju stæði, með bílaröð fyrir aftan sig, ákveður síðan allt í einu að bakka. Það mætti halda að sá hafi skyndilega misst jarðsamband og vissi ekkert hvar hann væri og gerir þá bara eitthvað "Nú ætla ég að stöðva...svo bakka ég!". Þriðji þarf að rexa og pexa í krakkaskrílnum í aftursætinu og ætlar sko ekki að horfa fram fyrir sig! Margir eru ekki að hugsa um umferðina heldur: "Mmm, franskar" eða "Díses, Gudda svilkona kemur í mat í kvöld og ég gleymdi að kaupa saltkjötið!". Í óðagotinu losnar heimskan úr læðingi og rýkur upp eins og eiturgufa út úr eyrum fólksins, smýgur síðan út um bílrúðurnar og læðir sér fyrir vit saklausra borgara og fer langt með að kæfa þá.

Eftir raunir mínar á bílastæðinu nennti ég ekki inn í Kringluna svo ég fór.

Köttur, klukka, hreindýr, svín og endur...fyrir löngu

Hver kannast ekki við lagið? Frábært lag. Í gær var ólgandi partý og síðan kaupstaðarferð. Kaupstaðarlykt lá í loftinu. Óvanalega hressandi kaupstaðarferð enda hittu menn marga meistara. Romm og kók var sötrað vegna þess að bjór er vondur og það sama má segja um hvítvín. Banna skyldi bjór líkt og forðum. Einnig mætti banna reykingar.

En þetta var ekki það sem ég ætlaði að nefna. Ég ætlaði að nefna pottaplöntur. Ég man aldrei eftir að vökva pottaplönturnar nema þegar ég sé að þær eru komnar með hangandi haus og farnar að gulna mikið. Að vísu er þetta með vilja gert. Það verður að herða þær. Ef þær geta ekki látið rakann í andrúmsloftinu og moldina nægja sem næringu, þá drepast þær. Ég er að reyna að koma inn hjá þeim þeirri augljósu staðreynd að þeir hæfustu komast af. Þær munu skilja það áður en yfir lýkur. Aumingi.

föstudagur, 2. september 2005

Jæja krakkar!

Næsta mánudag förum við í fjallgöngu. Það verður rosalega kalt svo þið verðið að hafa með ykkur hlý föt (húfu, vettlinga og úlpu). Svo þurfið þið nesti af því að við ætlum að grilla:) Svo þurfið þið sundföt af því að við ætlum að fara í sund. Þið þurfið líka blöð og liti til að teikna fjallið.

Ekki gleyma góða skapinu!

"Sýnið pabba og mömmu þennan miða"

Svo segja sumir að ekki megi stytta grunnskólann.

fimmtudagur, 1. september 2005

Þjónustulund

Í Portimao var þjónustulund ekki gríðarleg. Einn daginn héldum ég, nafni og Móa á bar í aðalgötunni fyrir kvöldmat. Barinn var tómur og það var ekki að ástæðulausu. Pantaðir voru þrír kokteilar. Barþjóninn lagaði þá og kom síðan með þá á borðið. Smökkuðum við á kokteilunum og nema hvað, þetta voru ekki kokteilar, bragðaðist frekar eins og hreinn vodki. Þá gerðum við athugasemd: "Sorry, this is way too strong" Barþjónn: "That's how we make it here". Við vorum ekki alveg tilbúin að samþykkja slíka skýringu en þá varð barþjóninn öskureiður, hrifsaði drykkina til sín og sagði: "FUCK OFF! You people from France, yeah, I know you people. Don't ever come again and don´t tell your friends about this place!FUCK YOU!" Við höfðum nú reyndar ákveðið að fara ekki oftar á þennan stað en það var hugulsamt af manninum að nefna það við okkur líka. Hann var líka mikill mannþekkjari að halda að við værum Frakkar. Hann var líka klókur bisnissmaður að segja okkur að láta vini okkar ekki vita af staðnum.

Það var þá ástæða fyrir því að þetta var tómasti barinn í aðalgötunni.

Gagnrýni: Johnny Cash - "Hello, I'm Johnny Cash"

Á þessari plötu eru lögin: Rosanna's Going Wild, Daddy Sang Bass, Don't Take Your Guns To Town, The Ballad Of Ira Hayes, Th Long Black Veil, Five Feet High And Rising, The One On The Right Is On The Left, Orange Blossom Special, What Do I Care, Man In Black, Don´t Think Twice It´s All Right, See Ruby Fall, Blistered og Happy To Be With You. Öll þessi lög eru frábær í flutningi þessa meistara. Textarnir eru flestir litlar sögur og stórskemmtilegir. Uppáhalds lag mitt er líklega Don´t Take Your Guns To Town en þar er fjallað um kúreka sem ekki fer að ráðum móður sinnar sem segir honum að hafa byssurnar ekki með í bæinn. Hann hlustar ekki og drepst þess vegna í kaupstaðarferðinni. Meistarastykki.

Einkunn: 10