laugardagur, 3. september 2005

Útrás fyrir heimsku

Oft er talað um það að fólk fái útrás eftir að hafa byrgt inni reiði eða sorg lengi. Sjaldnar hef ég heyrt fólk tala um að fá útrás fyrir heimsku. Við ákveðnar aðstæður virðist fólk fá útrás og losa jafnvel um heimsku sem það hefur byrgt inni í heila viku. Ég veit ekkert hvort slíku fólki líður betur á eftir eða ekki enda kemur það málinu ekki við.

Áðan ætlaði ég í Kringluna til að kaupa buxur og peysu. Ég hitti greinilega á álagstíma og tímapunkt þar sem margt fólk kom saman til að fá útrás fyrir alla heimskuna sem hafði safnast upp í þeim í liðinni viku. Fjölmargir virðast telja bílastæðin við Kringluna ákjósanlegan stað til sleppa út heimskunni. Heimskusprengjur eru látnar falla. Margir verða svo stressaðir og ruglaðir þegar þeir sjá alla bílana og fólkið á bílastæðinu að þeir fara að gera einhverja "random" hluti (hluti af handahófi á fagurri íslensku). Einn bakkar á fullu út úr stæðinu sínu og nennir ekki að líta í speglana. Annar stoppar á miðju stæði, með bílaröð fyrir aftan sig, ákveður síðan allt í einu að bakka. Það mætti halda að sá hafi skyndilega misst jarðsamband og vissi ekkert hvar hann væri og gerir þá bara eitthvað "Nú ætla ég að stöðva...svo bakka ég!". Þriðji þarf að rexa og pexa í krakkaskrílnum í aftursætinu og ætlar sko ekki að horfa fram fyrir sig! Margir eru ekki að hugsa um umferðina heldur: "Mmm, franskar" eða "Díses, Gudda svilkona kemur í mat í kvöld og ég gleymdi að kaupa saltkjötið!". Í óðagotinu losnar heimskan úr læðingi og rýkur upp eins og eiturgufa út úr eyrum fólksins, smýgur síðan út um bílrúðurnar og læðir sér fyrir vit saklausra borgara og fer langt með að kæfa þá.

Eftir raunir mínar á bílastæðinu nennti ég ekki inn í Kringluna svo ég fór.