laugardagur, 10. september 2005

Menn í hvítu

Þá er busavígslunni lokið. Gaman var að tollera. Við piltarnir í mínu tolleringarholli tókum þá stefnu í upphafi að tollera aðallega litlar og nettar stúlkur. Ástæðan fyrir því var sú að við gátum kastað þeim mun hærra upp í loftið en hinum. Margar þeirra voru dauðskelkaðar áður en þeim var fleygt upp í heiðloftin blá. Þegar þær voru komnar niður aftur sáu þær að þetta var ekkert voðalegt. Hæðirnar voru ekki mældar en fróðir menn sögðu að ein stelpan hafi flogið góða 15 metra upp í loftið. Einn lítill og visinn drengur sem við tolleruðum flaug einhverra hluta vegna ekki beint upp í loftið eins og hinir heldur skáhallt upp. Þá urðum við að sýna hröð viðbrögð sem við og gerðum og stukkum á eftir og náðum að grípa pilt.

Eftir tolleringar fórum við Seppi og Stuðmundur Gríndal niður í bæ á kaffihús. Vegfarendur gáfu okkur margir illt auga, aðrir litu okkur hornauga og svo voru nokkrir sem litu okkur hýru auga. Segja má að við höfum vakið verðskuldaða athygli fyrir klæðaburð. Útlendingur fékk að taka mynd af okkur til þess að konan hans heima í útlöndum tryði að hann hefði séð menn í hvítum lökum (tóga eins og snobbarar kalla það) á Íslandi.

Um kvöldið var partý hjá Helgu fyrir okkur og nýnemabekk. Mál manna var að vel hefði tekist til. Krakkarnir voru reyndar mjög duglegir að betla áfengi af okkur 6.bekkingum þegar bolla hússins var búin. Þeir héldu sjálfsagt að við ættum skítnóg af peningum og að auðvitað eyddum við þeim öllum í brennivín. Eðlilega þyrftum við því að gefa vel með okkur af víninu. Þau eiga margt eftir ólært. Um helmingur nýnemanna í partýinu stundaði engin viðskipti við Bakkus og er það vel. Ballið á Broadway var ekkert spes, Broadway er ómögulegt húsnæði til að halda böll.