fimmtudagur, 29. september 2005

Gagnrýni: Charlie and the Chocolate Factory

Eftir að hafa séð tvær lítt eftirminnilegar myndir í bíó nýlega (Land of the Dead og Dukes of Hazard) sá ég eina frábæra nú á dögunum. Þetta var myndin um unga fátæka drenginn sem bjó hjá fátæku foreldrum sínum og fátækum, kexrugluðum öfum og ömmum og kofaskrífli inni í bæ. Hann átti þann draum að sjá sælgætisverksmiðju Willie Wonka (Johnny Depp) sem var mikið ævintýraland. Nokkrir útvaldir krakkar fengu að sjá verksmiðjuna æðislegu. Ein persóna í myndinni stendur upp úr. Það er barn frá Dusseldorf í Þýskalandi. Reyndar er það ofdekraður, feitur og kámugur krakkagöltur sem unir glaður við súkkulaðíát allan daginn. Frábær karakter. Hinir krakkarnir sem komust í fyrirheitna landið voru ofdekraðir og leiðinlegir (að Charlie litla undanskildum). Foreldrar krakkanna eru snobbað leiðindapakk. Johnny Depp er ljómandi góður í hlutverki hins brenglaða Wonka. Boðskapur myndarinnar er tvíþættur, eitt atriði fyrir börn og eitt fyrir fullorðna:
1. Fyrir krakkana: Það er ekki gott að vera heimtufrekur og þrasgjarn.
2. Fyrir fullorðna: Snobbað leiðindapakk sem ofdekrar krakkana sína er lélegt.
Þetta er að mínu mati mjög holl áminning fyrir bæði foreldra og krakka. Þetta er stórskemmtilegt ævintýri sem kemur stöðugt á óvart. Flestar persónurnar getur maður tengt við persónur úr raunveruleikanum.


Augustus hinn þýski, að gæða sér á gúmelaði.

Einkunn: 9,98