Amma og afi alltaf í glensinu
Ég heimsótti ömmu og afa í dag. Það væri ekki í frásögur færandi nema vegna þess að amma sagði einhverja gargandi snilld sem ég ætlaði að skrifa hérna, en nú man ég ekkert hvað það var. Þetta var eitthvað geysilega hnyttið. Amma á það til að segja ýmislegt snilldarlegt. Reyndar eiga báðar ömmur mínar það til, og afarnir líka. Reyndar finnst mér mjög skemmtilegt hvað amma segir mér oft að ég sé svo horaður: "Það eru nú meiri ósköpin hvað þú ert horaður, Guðmundur minn, ekkert nema skinn og bein." Svo fóðrar hún mig á alls konar kræsingum. Svo spyr hún oft hvernig þetta sé, hvort ég fái nú ekkert að borða heima hjá mér. Ég svara því oftast til að ég fái nú stundum eitthvað að borða heima. "Já, fáðu þér nú eina jólakökusneið, þér veitir ekkert af því". Svo háma ég í mig bakkelsi sem amma hefur bakað.
Þetta minnir svolítið á söguna um Hans og Grétu þar sem galdranornin var alltaf að fita þau áður en hún hugðist éta þau. Nei. Þetta var ljót líking. Amma minnir ekkert á nornina í Hans og Grétu. Mér bara datt þetta í hug. Ég kann mjög vel að meta þegar fólk segir það sem því finnst og er ekkert að reyna að fegra hlutina eða skafa af því. Ég þoli ekki yfirborðsmennsku og tilgerð eins og er algeng hjá t.d. Bandaríkjamönnum. Það verður seint sagt um afa mína og ömmur að þau segi ekki hvað þeim finnst. Fólk á bara að segja það sem því finnst og engar refjar.
sunnudagur, 20. apríl 2003
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
|