mánudagur, 14. apríl 2003

Freisting páskaeggsins

Áðan sat ég við borðið og ætlaði að fara að læra. Það veitir ekki af að læra svolítið nú í páskafríinu því vorprófin eru ískyggilega skammt undan. En ég lærði ekki. Á þessu sama borði hafði ég geymt páskaegg númer 6 frá Nóa Síríus sem ég vann í bingói í skólanum um daginn. Nú vill svo til að þetta páskaegg var mjög girnilegt. Ég hafði hugsað mér að geyma það fram á páskadag eins og venja er. Eins og íslenskir sælkerar vita er alltaf eitthvað nammi límt utan á páskaeggin frá Nóa. Ég ákvað að klippa smá gat á plastið utan á páskaegginu og næla mér í þetta nammi sem var utan á. Þetta nammi var rjómasúkkulaði (eins og er í páskaeggjunum sjálfum) pakkað inn í álpappír. Það var ansi ljúffengt. Þegar ég var búinn að taka þennan súkkulaðimola af páskaegginu var ljótt far eftir. Svoleiðis gengur augljóslega ekki. Ég sá að páskaeggið var orðið mjög ljótt. Ég ákvað því að brjóta eggið. Ég mölbraut það á borðinu. Eins og þið getið ímyndað ykkur er mjög ljótt að eiga mölbrotið páskaegg í plasti. Því var ekki annað að gera en að rífa plastið alveg af og byrja að éta eggið og það gerði ég. Ég hámaði í mig súkkulaði og annað nammi sem hafði verið inni í egginu (það er reyndar næstum því helmingurinn eftir). Af þessu uppskar ég svo vænsta magaverk. Ég mæli með að fólk fari varlega í páskaeggin. Þau eru varasöm. Nú hef ég ákveðið að borða ekki nammi eða snakk út þetta ár. Það verður fróðlegt að sjá hvort mér tekst að standa við það.