laugardagur, 5. apríl 2003

Súrt

Gærkvöldið var frekar súrt. MR tapaði úrslitum MORFÍs fyrir Versló og eins og gefur að skilja er það ekki vinsælt. Sigur verslinga var þó naumur og MR-liðið átti ræðumann kvöldsins, Jóa. Verslingar voru betri en oft áður. En þó fannst mér MR vera heldur rökfastara og betra liðið. Síðasta ræða Breka Logasonar var alls ekki góð þótt ágætis punktar væru í henni. Síðasta ræða Jóa var hins vegar stórgóð. Verslingar þrástöguðust á því að MR "þyrftu að ferðast yfir hálfan hnöttinn til að finna eitthvað máli sínu til stuðnings". Já, umræðuefnið var: Eru karlmenn að standa sig illa? MR var með, versló á móti.

Eftir keppnina voru úrslit skólakosninganna kynnt. Ég komst ekki inn í Framtíðina og var lægstur með níu prósent atkvæða. Þetta var samt nokkuð jafnt og Tótla fékk ellefu prósent, Steindór tólf. Þar fyrir ofan voru þeir sem komust inn. Doddi fékk langflest atkvæði, 22%. Björk og Lovísa voru að mig minnir með 14 og 17% eða þar um bil. Þannig að stjórn Framtíðarinnar á næsta ári verður skipuð Dodda, Björk og Lovísu. Ég óska þeim og öðrum sigurvegurum kosninganna til hamingju og vona að þau standi sig vel. Ég var ósáttur við kosningu í hestafélagið, Frikki tapaði fyrir Hörpu með 2% mun. Ég hélt fyrirfram að kosningin í Scribu yrði tvísýnust en það varð ekki raunin. Elín Lóa vann með 50% atkvæða. Grjóni og Ásgeir voru með samtals 40% sem þeir skiptu nokkuð jafnt sín á milli. Það var hins vegar kosning í Le Pré sem var langmest spennandi. Þar munaði einu prósenti á sigurvegaranum, Ágústi sem fékk 33% og keppinautunum tveimur: Fífu og Sveinbirni sem fengu bæði 32%. Í heildina var ég nokkuð sáttur við mína útkomu og það var ótrúlegasta fólk sem sagðist hafa kosið mig. Ég reiknaði ekki með að ná kosningu en það sem kom mest á óvart var að Steindór skyldi ekki komast inn. Hann var með mjög öfluga baráttu. Sælgætisherferð Lovísu hefur hins vegar líklega skilað henni slatta af atkvæðum.

Eftir ræðukeppnina og kosningakveldið var ætlunin að fara á ærlegt skrall. Ég skellti mér í eitthvað partý sem var frekar dauft. Svo átti að fara á hressandi tebó. Þar var engin stemning og eiginlega var enginn þar, örfáar hræður. Þannig að við fórum strax og fórum nokkrar ferðir upp og niður Laugarveginn. Þar hittum við að sjálfsögðu slatta af fólki sem við þekktum, m.a. verslinga sem sögðu að MR hefðu átt að vinna ræðukeppnina. Hressandi.

Ég sem hafði ætlað að skemmta mér ærlega núna. Það misheppnaðist algjörlega.

Q.E.D.