sunnudagur, 20. apríl 2003

Hugmynd

Ég var að fá ansi smellna hugmynd fyrir kosningabaráttu Sjálfstæðisflokksins. Einhverjir hafa kannski tekið eftir því að Sjálfstæðisflokkurinn þykist allt í einu vera voðalegur fjölskylduflokkur og auglýsa sig sem slíkan. Í auglýsingum þeirra er xD merkið skyndilega í öllum regnbogans litum og svo má ekki gleyma skemmtilega slagorðinu þeirra: "Áfram Ísland". Já, nú bera þeir hag fjölskyldna fyrir brjósti. Þeir gorta líka af því að hafa komið á fæðingarorlofi fyrir karla og það er gott og blessað. Nú eru þeir ekki flokkurinn sem mokar peningum í jarðgöng úti á landi fyrir örfáar hræður og loka deildum í heilbrigðiskerfinu. Sjálfstæðisflokkurinn er orðinn vinur fólksins í landinu. Vinur öryrkja, ellilífeyrisþega og fjölskyldufólks. Og nú ætla þeir að lækka skatta, allt fyrir fólkið í landinu. Allt í einu er hægt að bæta verulega við þorskkvótann, Davíð hefur talað. Loforðin streyma frá hinum fjölskylduvæna Sjálfstæðisflokki. ÞAÐ ER GÓÐÆRI Í LANDINU, Davíð hefur talað.

Ég er með hugmynd fyrir kosningabaráttuna hjá þessum yndislega flokki. Hún ætti að geta skilað þeim slatta af atkvæðum. Björn Bjarnason er kominn í borgarstjórnina og hefur ekki látið að sér kveða í kosningabaráttunni. En þar liggur einmitt tækifærið. Við erum að tala um það að mála Björn Bjarnason með stríðsmálningu í öllum regnbogans litum (svipað og Afrískir ættbálkahöfðingjar) og líma á hann litskrúðugar páfuglsfjaðrir. Hann gæti þá orðið nokkurskonar lukkudýr flokksins. Þeir gætu svo sent hann niður í bæ þar sem hann gæti barið á drumbur, sungið eitthvað fallegt og svo öskrað xD! inn á milli. Hann gæti sprangað um Ingólfstorg og gefið börnum blöðrur merktar flokknum. Og svo gæfi hann öllum ís. Ooo, þetta er allt svo fallegt.

Ég vona að fólk láti ekki blekkjast af loforðaflaumi Sjálfstæðisflokksins og kjósi eitthvað af viti: xU.