mánudagur, 14. apríl 2003

Dabbi dúskur og félagar

Alþingiskosningarnar eru á næstu grösum. Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin lofa stórfelldum skattalækkunum. Frjálslyndir vilja betra fiskveiðistjórnunarkerfi. Framsókn er úti í skurði eins og venjulega. Það er alveg magnað hvað stjórnarflokkarnir geta lofað miklu núna. Þeir hafa setið í stjórn og hafa tekið því nokkuð rólega enda voru þeir líka í stjórn kjörtímabilið þar á undan og þurftu ekki að breyta miklu. En núna allt í einu rétt fyrir kosningar lofar Davíð að skattar verði lækkaðir verulega. Forystusauðir flokkanna tókust á í Kastljósinu í gær. Mér fannst mjög athyglisvert að fylgjast með Halldóri Ásgrímssyni. Fylgi Framsóknarflokksins hefur lækkað um helming skv. skoðanakönnunum síðan í síðustu kosningum. Ingibjörg Sólrún skaut eitthvað á Framsókn og þá sagði Halldór: "þetta er ekki rétt" í mjög aumingjalegum tón. En hann útskýrði það ekkert nánar. Framkoma Halldórs í þættinum var öll á þann veg að honum væri nú vorkunn. Það var eins og hann vildi að kjósendur vorkenndu honum og kysu hann þess vegna. Vonandi kemst Halldór ekki inn á þing núna. Aðrir stóðu sig sæmilega í þættinum. Davíð hefur reyndar vitlausar skoðanir á mjög mörgum málum en hann var þó ekki að biðja um neina vorkunn. Sjálfstæðisflokkurinn hefur jú líka dalað í könnunum. Það er deginum ljósara að það þarf að koma ríkisstjórninni frá. Þriggja flokka stjórn VG, Samfylkingar og Frjálslyndra er líklega besti kosturinn eins og staðan er í dag.

Svo er alltaf gaman þegar nýir flokkar skjóta upp kollinum. Ég held að það séu tveir nýir flokkar að bjóða fram núna. Einn heitir Nýtt afl og ég heyrði í forystumanni þess flokks í útvarpinu. Hann var óvitlaus. Það er því vert að fylgjast með þeim flokki. Ætli húmanistar bjóði fram núna? Það er alltaf fyndið að heyra baráttumál þeirra. Methúsalem kemur líklega öflugur inn.