þriðjudagur, 15. apríl 2003

Góður draumur, maður!

Eða nei, ég veit ekki hvort þetta var góður draumur sem mig dreymdi í nótt. Oftast dreymir mig ekkert. Í nótt dreymdi mig hins vegar ansi sýrðan draum. Það var þannig að ég hafði eignast systkin. Ég veit ekki hvort þetta var systir eða bróðir. Það sem var undarlegt var að þetta barn var ekki nema tíu sentímetrar á hæð og fölgrænt að lit. Það leit eiginlega út eins og fóstur. Svo var barnið látið sofa í ullarsokki sem hékk í spotta niður af borði í húsinu. Barnið var sem sagt sofandi hangandi í spotta í ullarsokki. Allt í einu vaknaði það og flaug upp úr ullarsokknum. Það hafði greinilega vængi líka. Gluggar voru opnir í húsinu og nú þurfti ég að ná barninu svo það flygi ekki út um glugga. Það flaug inn í eitt herbergið í húsinu. Ég hljóp á eftir og lokaði hurðinni. Svo náði ég að grípa barnið í lófana. Þegar ég ætlaði að opna dyrnar á herberginu aftur slapp barnið. Pabbi og mamma voru að elda og pabbi hafði opnað útidyrnar til að lofta út. Það skipti því engum togum að fölgræna tíu sentímetra barnið með vængina flaug út um útidyrnar. Við fórum út til að reyna að leita að því en það þýddi auðvitað ekkert. Það var á bak og burt. Ég var mjög dapur yfir því. Og þar með endaði draumurinn. Ég skil ekki alveg afhverju ég var dapur yfir því að barnið flaug á braut. Ég hefði bara átt að loka dyrunum og segja: "farið hefur fé betra".

Mig hefur ekkert dreymt langalengi. Svo loksins þegar mig dreymir eitthvað er það svona rugl. Ef einhver getur ráðið þennan draum má sá hinn sami endilega senda póst á gummifm@hotmail.com