miðvikudagur, 23. apríl 2003

Bruðl

Fáránlegt, þetta bruðl flokkanna í kosningabaráttunni. Gott dæmi um það er kosningamiðstöð Samfylkingarinnar í Lækjargötu. Það er voðalegur glamúr við lýði þar. Ég kvarta svosum ekki því ég gat nælt mér í ýmislegt góðgæti þarna eins og kex og appelsínusafa. Þeir vita ekkert að ég er ekki með kosningarétt, og þótt svo væri myndi ég ekki kjósa þá, ekki einu sinni þó að ég hafi fengið veitingar hjá þeim. Þeir reikna sennilega með því að ég fari þá og segi mömmu að kjósa Samfylkinguna: "Mamma, Samfylkingin gaf mér kex, kjóstu þá" en ég er ekki fífl þannig að ég ætla ekki að gera það. Flestir flokkarnir eru svoleiðis að sólunda í kosningabaráttuna að mér verður óglatt. En sumir eru svo miklir þursar að þeir láta kaupa atkvæðin sín: "Hei, Samfylkingin gaf mér kex, ég ætla að kjósa þá" en svo lenda þeir kannski í vandræðum þegar Sólveig Pétursdóttir og Sigurður Kári grilla handa þeim pylsu með öllu, rækilega merkta xD: "Úff, Samfylkingin gaf mér kex og Sjálfstæðisflokkurinn pulsu, nú veit ég ekkert hvað ég á að kjósa. Aaa..mér finnst pylsur betri en kex, ég kýs Sjálfstæðisflokkinn". Já, sumir eru hálfvitar og hugsa ekkert um fyrir hvað þessir flokkar standa. Þeir hugsa bara: "Æ, er þetta ekki allt sama tóbakið?". Það er vitleya og ráðlegg ég öllum að kynna sér baráttuefni flokkanna.

Eitt er þó á kristaltæru: Enginn er svo vitlaus að hugsa: "Hei, Halldór Ásgrímsson syngur vel, ég kýs Framsóknarflokkinn" því að maðurinn syngur eins og stunginn grís (Hann söng í þætti Gísla Marteins). Ef fólk kýs Framsóknarflokkinn hljóta að vera einhverjar aðrar ástæður fyrir því sem eru mér allsendis óljósar.

Ég tel að það væri vel til fundið að Vala Matt og Gísli Mart byrjuðu saman með sjónvarpsþátt sem gæti heitið Tilgerðarþátturinn Matt/Mart. Hljómar óneitanlega vel.