laugardagur, 26. apríl 2003

Stuttar skilgreiningar á flokkunum

Kosningarnar eru handan við hornið. Því er ekki úr vegi að skilgreina flokkana með stuttum skilgreiningum þar sem erfitt getur reynst að fara að lesa stærðarinnar stefnuskrár hjá öllum flokkum. Þetta hjálpar vonandi fólki sem veður í villu og svima og ætlar að kjósa vitlausan flokk að kjósa rétt. Skilgreiningarnar hljóma svona:
-Framsóknarflokkurinn-(xB): Flokkur sem er alveg búinn að missa það. Einhvern tímann var hann ágætur og barðist fyrir bændur og gætti hagsmuna landsmanna að einhverju leyti. En síðustu ár hefur hann helst hugsað um það að vera í stjórn. Það hefur honum tekist og hefur hann setið bæði í ríkisstjórn og borgarstjórn. Í ríkisstjórninni hefur flokkurinn látið Sjálfstæðisflokkinn draga sig á asnaeyrunum í mörgum málum. Fylgismenn mengandi iðnaðs upp um hóla og hæðir.
-Sjálfstæðisflokkurinn-(xD): Flokkur sem er líka gjörsamlega búinn að missa það. Einhvern tímann í fyrndinni hafði hann ágætis baráttumál og forgangsraðaði rétt. Síðan þá er mikið vatn runnið til sjávar og flokkurinn hefur skitið á sig á síðari árum. Flokkur sem vill helst einkavæða allt frá bönkum til heilbrigðisstofanana. Vilja skjótfenginn gróða og selja banka sem hafa þó skilað hagnaði. Þetta kallast að selja gullgæsina. Vilja hafa kvótakerfi þrátt fyrir óánægju mjög margra með það. Síðasta afrek þeirra var svo að styðja stríð í Írak eindregið þrátt fyrir andstöðu 80% þjóðarinnar.
-Frjálslyndi flokkurinn-(xF):Sá flokkur sem hefur komið sterkastur inn af öllum flokkunum og stóraukið fylgi sitt að undanförnu. Ekki að undra því flokksmenn hafa verið óvægnir í garð ríkisstjórnarinnar. Þeir hafa gagnrýnt kvótakerfið mest allra flokka og vilja koma á fót fiskveiðikerfi sem býður ekki upp á kvótakónga og færir auðlindina til þjóðarinnar á ný. Í flokknum er mikið af sjóurum og öðrum hörkutólum sem vita vel hvað þeir syngja. Vilja velferðarstjórn eins og Vinstri-grænir.
-Samfylkingin-(xS): Berst fyrir jafnrétti. Flokkur sem hefur líka stóraukið fylgi sitt og ógnar Sjálfstæðisflokknum verulega. Þeir vilja ganga í ESB. Vilja hækka skattleysismörk og lækka skattbyrði á einstaklinga. Náðu í Ingibjörgu Sólrúnu úr borgarstjórnni og dýrka hana mjög.Helst til of mikið. Hún á að vera bjargvættur flokksins. Spurnig hvort tími Jóhönnu Sig. er loksins kominn. Maður veit aldrei.
-Vinstrihreyfingin-grænt framboð-(xU: Besti kosturinn. Vilja efla velferðarkerfið til muna. Berjast fyrir jafnrétti. Umhverfisverndarsinnar. Hafa ekki verið með hjal um óraunhæfar lækkanir skatta en vilja efla velferðarkerfið þess meira og lækka kostnað við heilbrigðisþjónustu. Einnig vilja þeir ókeypis leikskóla. Vilja afnema kvótakerfið og færa auðlindina til fólksins á ný með bættu fiskveiðistjórnunarkerfi. Flokkur sem hefur mjög skýra stefnu og tekur afgerandi afstöðu í flestum málum.
Nýtt afl-(xN): Nýr flokkur sem hefur vakið athygli á ýmsu sem virðist hafa gleymst í umræðunni. Hafa ýmislegt gott fram að færa en koma frekar seint fram og hafa lítið fjármagn til að auglýsa og eiga því ekki mjög mikla möguleika í baráttunni. En aldrei að segja aldrei.
T-listi-(xT): Óánægjuframboð Kristjáns Pálssonar sjálfstæðismanns. Býður bara fram í einu kjördæmi. Ég held að þetta sé alveg dauðadæmt hjá kallgreyinu.

í stuttum skilgreiningum sem þessum er að sjálfsögðu bara stiklað á stóru en svona eru flokkarnir í stórum dráttum. Svo má alltaf deila um það hvort ég er hlutlaus í afstöðu minni.