Krakkinn fermdur
Jæja, nú er búið að ferma krakkann. Það var gert í dag í Seljakirkju. Spurning hvort ég á þá að hætta að kalla hana krakkann þar sem hún er komin í "fullorðinna manna tölu". En ég held ekki. Ég gekk til altaris í kirkjunni og læti. Fékk ógeðfellda oblátu vætta í ógeðfelldu víni og þetta er kallað blóð og líkami Jesú krists. Þegar altarisgöngu var lokið slurkaði presturinn í sig afganginum af messuvíninu úr kaleiknum. En það er reyndar reglan hjá honum.
Eftir messuna var svo fermingarveislan. Hún stendur reyndar ennþá yfir en gestunum hefur fækkað töluvert. Ég man ekki eftir að hafa farið í skemmtilega fermingarveislu. Þessi er engin undantekning. Krakkinn hefur fengið slatta af gjöfum en minni pening en ég fékk þegar ég fermdist enda fékk ég 150 þúsund kall sem er mjög gott. Ég fékk fáar gjafir en þess meiri pening. Þessu er öfugt farið hjá Krakkanum. Ég veit ekkert hvað hún hefur fengið mikinn pening en mundi giska á að það væri undir 50 þús. En nóg um þetta.
Nú er búið að birta úrslit kosninganna sundurliðuð á Framtíðarvefnum. Það er óneitanlega hressandi að velta sér upp úr þessu. Það er ljóst að markaðssetningin á Guðmundinum (mér) hefur farið alveg úrskeiðis í 3.bekk. Þar fékk ég langfæst atkvæði af öllum frambjóðendum eða 38 af 221 sem er rosalega lélegt. Einnig er magnað að auðir og ógildir í þriðja bekk eru 121. Það sem kemur ennfremur á óvart er að í fjórða bekk fékk ég fleiri atkvæði en Steindór en það munaði þó bara fjórum stykkjum. Þar fékk ég líka fleiri en Björk. Í fimmta bekk þar sem ég bjóst fyrirfram við fæstum atkvæðum fékk ég líka fleiri en Steindór. Þar fékk ég einu færra en Tótla. Þetta er allt saman afar merkilegt og vert að skoða. Ég og Steindór komum væntanlega öflugir inn á næsta ári og burstum kosningarnar. Það er alveg gefið. Þá klikka ég ekki á þriðja bekknum.
sunnudagur, 6. apríl 2003
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
|