Hver samdi handritið að þessum draumi?
Mig dreymdi verulega súran draum um daginn. Ég sagði Haraldi frá honum og þótti honum draumurinn ansi forvitnilegur og hvatti mig til að birta hann á veraladarvefnum. Ég birti því þennan draum þrátt fyrir að hann hafi verið absúrd:"Draumurinn"/martröðin byrjaði þannig að ég var staddur í Bláa sal Verzlunarskóla Íslands og var að keppa í MORFÍS á móti MH held ég. Það var komið vel fram í miðja keppni og einn ræðumanna MH var næstur í pontu. Ég tók eftir því að um leið og hún steig í pontu steig einhver gaur úti í sal upp. Svo hófst ræðan. Ræðan var flutt á táknmáli og gaurinn úti í sal var túlkurinn. Þessi túlkur leit út alveg eins og Herbert Guðmundsson. Ég vissi ekki neitt hvert umræðuefnið var og var engu nær um það eftir að hafa hlustað á gervi-Herbert Guðmundsson túlka ræðu heyrnarlausu stelpunnar úr MH. Liðsfélagar mínir voru bara tveir, það vantaði liðsstjóra í liðið. Ég hafði aldrei séð þessa blessuðu liðsfélaga (strák og stelpu) áður. Strákurinn boraði stanslaust í nefið og ruggaði stólnum sínum til hliðanna ótt og títt. Svo datt hann á gólfið. Stelpan virtist líka vera snarbrengluð í hausnum. En þetta var ekki allt því allt í einu kom Steindór Grétar Jónsson og afhenti mér blað fullt af staðreyndum um Halldór Laxness. Hann sagði mér að nota það í ræðuna og bæta einhverju inn í hér og þar. "Hvaða andskotans bull er þetta?" sagði ég og svo endaði draumurinn.
Já, ef þetta var ekki súr draumur í meira lagi skal ég hundur heita. Ég veit ekki hver semur handritið að svona vitleysu. Það þarf að fara að finna manninn sem semur handritið að þessum súru draumum og martröðum fólks. Hann verður aldeilis buffaður þegar hann finnst. Ég hvet fólk til að reyna að ráða þennan draum.
|