laugardagur, 22. nóvember 2003

Kýpur eða Króatía

Menn eru ekki á eitt sammála um hvert skuli fara í útskriftarferð 5. bekkinga næsta sumar. Það er búið að kjósa. Kýpur hafði betur en Króatía. Mikilla fordóma gætir hjá sumu fólki varðandi Króatíuhugmyndina og er það í flestum tilfellum vegna fáfræði. Mörgum finnst hallærislegt að fara í útskriftarferð til Króatíu. Þó eru ótvíræðir kostir við það, t.d. hagstæðara verðlag og minni hiti (25 stig að meðaltali) auk þess sem ferðin þangað kostar 80 þúsund en Kýpurferðin 105 þúsund og munar um minna. Hins vegar hef ég heyrt frá fylgismönnum Kýpur að í smábænum sem stendur til boða í Króatíu þurfi allt að vera með kyrrum kjörum eftir miðnætti, annars grípi lögreglan inn í. Ef það er rétt er það verulegur galli á Króatíuferðinni. Í Kýpurferðinni fylgir ferð til Egyptalands sem hljómar afar spennandi.

Ég mætti ekki á fund um ferðina en er svona á báðum áttum. Eitt er þó alveg á hreinu, það eru voðalegir fordómar um Króatíuferðina sem ég efast um að eigi rétt á sér. Annars fer ég, fallisitinn, væntanlega aftur í útskriftarferð að ári, kannski verður þá farið til Króatíu.