mánudagur, 17. nóvember 2003

Jólaafurðir og listsköpun Árna Johnsen

Það er strax búið að skreyta miðbæinn, Kringluna, Smáralind og fleiri staði með jólaskreytingum. Ótímabær jólaasi er óþolandi. Engin ástæða að huga að jólum fyrr en í fyrsta lagi í byrjun desember. Réttast væri að safna liði og rífa þetta allt saman niður. En nóg um það. Um hver jól fer Mjólkursamsalan í jólaskapið. Þá er hægt að kaupa Jólajógúrt, Jóla-Engjaþykkni, Jólaskyr og annan varning af sama tagi. Þá er hins vegar ekki hægt að kaupa bara venjulega Engjaþykknið og skyrið. Það sem þessar jólavörur eiga sameiginlegt er að það er búið að bæta sykri í þær. Namm! Venjulegt skyr sem búið er að bæta sykri, sultu og karamellubragði við. Hver fúlsar við því? Eða Engjaþykkni með súkkulaðihrískúlum og hnausæþykkri marsípanbráð. Þið getið ekki sagt nei. Mamma keypti mjólk áðan, léttmGLEÐILEGjólk. Það stóð í alvöru utan á mjólkinni. Ég vona að það sé ekki búið að hræra sultu og flórsykri út í léttmjólkina mína út af jólunum. SKO! Það eru jól, þá verður allt að vera "jóla" og með viðbótarskammti af sætindum. En það eru fleiri sem fylgja fordæmi Mjólkursamsölunnar og hafa vörur sínar sykurbættar í tilefni jólanna, jólakex með auka súkkulaðimolum og svona hitt og þetta. Ég bíð spenntur eftir stökkum frískandi jólasveppum, húðuðum með karamellu og kókosmjöli og hunangsfylltum jólapaprikum skreyttum með glassúr og marengs í verslunum. Mamma mia! Ég fæ vatn í munninn við tilhugsunina. Eða þannig. Þótt jólin séu að ganga í garð þurfa matvælaframleiðendur ekki að sleppa sér alveg í sykurbættum jólavörum. Ég vil bara mitt venjulega skyr og daglega brauð.
***
Árni Johnsen er bara kominn út af Kvíabryggju og farinn að afhjúpa listaverk. Það sem er svo skemmtilegt við þetta er að fólk kaupir eflaust listaverk eftir Árna dýrum dómum bara af því að þau eru eftir hann, frægan manninn. Það er alveg stórmerkilegt að hann sé strax kominn út, eftir eitt ár í fangelsi, miðað við brot hans. En hann fer reyndar á eitthvað áfangaheimili til að byrja með.