fimmtudagur, 20. nóvember 2003

Uppistand á Nasa

Fór á Nasa í gær á uppistand. 6 menn héldu uppistand og voru þeir misgóðir eins og augljóst má vera:
Fyrsti, minnir að hann hafi heitið Guðjón var ágætur, átti góða spretti en datt líka niður í rugl.
Einkunn:þrjár og hálf stjarna af fimm.

Annar var Haukur í horni eða Haukur Sig. sem var á Skjá einum. Ég bjóst alls ekki við miklu af þeim manni. Hann stóð sig hins vegar svona þokkalega, en datt niður í óttalega meðalmennsku á köflum.
Einkunn:þrjár stjörnur.

Þriðji var Böðvar Bergsson. Ég hafði aldrei heyrt um hann áður og vissi því ekkert við hverju skyldi búast. Hann kom virkilega ferskur inn, var góð eftirherma og var hnyttinn. Hann var hins vegar með slappt lokaatriði.
Einkunn:fjórar stjörnur.

Fjórði var Bjarni töframaður. Hann var bara alveg helvíti þéttur og kom mjög sterkur inn. Sýndi töfrabrögð og náði bullandi stemningu í salinn þegar hann dró upp gítarinn og spilaði ýmis lög. Ég sprakk úr hlátri þegar hann dró upp pirrandi ýluflautu sem hann líkti við fyrrum konu sína og drekkti síðan flautunni í vatnskönnu. Hljómar kannski kvikindislegt en þetta var drepfyndið.
Einkunn:fjórar og hálf stjarna af fimm.

Fimmti var Sveinn Waage. Hann er á rangri hillu, það er ljóst. Ekki var hann beinlínis frumlegur þegar hann hóf að leika norðmenn og svía og síðan skota. Alltaf þessi smáborgaraháttur íslendinga að gera grín að tungumálum annara þjóða, hafandi ekkert efni á því. Það er pottþétt skellihlegið að íslensku í Japan, vinsælt að leika íslending á uppistöndum þar í landi. Svo tók hann Árna Johnsen fyrir og lýsti öllum hörmungum sem höfðu dunið yfir Vestmannaeyjar í gegnum tíðina. Eins og ég segi, maðurinn er á rangri hillu, ætti að fara að syngja í einhverri hnakkahljómsveit eða eitthvað.
Einkunn:Tvær stjörnur.

Uppistandarinn 2003, Steinn Ármann Magnússon, olli vonbrigðum. Tók gamlan mann úti í sal fyrir sem var ekkert fyndið. Átti þó góðar rispur. Gerði grín að Sveini Waage og Bjarna töframanni. Sveinn átti það alveg skilið en ekki töframaðurinn.
Einkunn:þrjár og hálf stjarna af fimm.