sunnudagur, 28. desember 2008

Leikhús

Fór í leikhús í gærkvöldi á Sumarljós, sem fjallar um líf í þorpi úti á landi. Þetta er óttalegt rugl en þó er einhver söguþráður. Of mikið er af uppfyllingaratriðum sem gera ekkert fyrir söguna, einnig er mikið af misheppnuðu gríni.

En það var líka slatti af góðu gríni, einkum frá Eggerti Þorleifssyni, sem stal senunni og var óumdeilanlega bestur í sýningunni, sérstaklega sem elliær fyrrum stjórnmálamaður sem virtist vera blanda af Halldóri Ásgrímssyni, Ólafi F, Guðna Ágústssyni og Steingrími Hermannsyni.

Tvær og hálf stjarna af fimm fyrir þetta. Nett klént.

þriðjudagur, 23. desember 2008

Jólabækurnar

Jólabækurnar eru auglýstar grimmt í sjónvarpinu. Auglýsingar eru yfirleitt ætlaðar til þess að segja fólki hvers vegna það eigi að kaupa vöruna. Fólk spyr: "Hvers vegna ætti ég að kaupa þessa vöru?" og auglýsingin svarar því. Í bókaauglýsingum í sjónvarpi er rökstuðningurinn fyrir kaupum gjörsamlega skotheldur.

Svo spyr maður sig...
Hvers vegna ætti ég að kaupa þessa vöru?
Svar: "Ég skal vera grýla. Margrét Þrastardóttir hefur ósjaldan migið í saltan sjó og hún hefur aldrei verið hrædd við að vera grýla" [kjánalegt stef er leikið undir]

...Já, þú skalt vera grýla en ég kaupi ekki bókina.

mánudagur, 8. desember 2008

Losun

Fór í fyrsta próf í morgun. Gekk svona sæmilega held ég, en ég var reyndar mjög þreyttur og mátti berjast við að halda mér vakandi á köflum. Of lítill svefn gæti verið ein ástæða. Önnur ástæða gæti verið að ég fékk úthlutað sæti fremst, borðið var beint á móti borði annarrar yfirsetukonunnar, sem er ekki það sem maður hefði valið ef maður hefði fengið að ráða. Nema hvað, ég hef þessa yfirsetukonu grunaða um að hafa nýtt vannýttar losunarheimilidir á meðan á prófi stóð. Að minnsta kosti gossaði tvisvar upp hrikaleg fýla svo lá við eitrun og yfirliði, að ekki sé minnst á truflun á einbeitingu. Losunin var hljóðlaus eins og gefur að skilja, svo þetta var eins glæpsamlegt og hægt var.

sunnudagur, 23. nóvember 2008

Menning og lífsstíll

Á Edduverðlaununum um daginn voru veit verðlaun fyrir "Menningar - eða lífsstílsþátt" ársins. Tilnefndir voru bókmenntaþátturinn Kiljan, Káta maskínan (?) og Ítalíuævintýri Jóa Fel. Af þessum þáttum hef ég bara séð eitthvað af þættinum Kiljan. Hvort ætli hann sé menningar - eða lífstílsþáttur?

Er annar eða báðir hinna þáttanna lífstílsþáttur? Jói Fel fer til Ítalíu og eitthvað...það gæti flokkast sem lífsstíll. Lífskúnstnerinn Jói kynnir áhorfendum nýjan lífsstíl.

Hvenær verða veitt verðlaun fyrir menningar- eða lífstílsstrokleður ársins? Þá væru Boxy strokleður án efa tilnefnd, enda stendur á umbúðunum "The basic concept of Boxy always aims at a simple lifestyle"

Eða er orðið "lífsstíll" ofnotað bullorð?

mánudagur, 10. nóvember 2008

Framandi veitingar

Í veislunni var boðið upp á köku með svokölluðu nachos ofan á. Gamalt fólk bragðaði á kökunni og skeggræddi síðan og reyndi að bera kennsl á þetta torkennilega nasl.
Nr.1: "Bíðið nú við, hvað er þetta eiginlega ofan á kökunni? Þetta er ekki kornflex...?"
Nr.2: "Na, jú þetta er svona..."
...
Ég beið eftir að heyra einhvern segja að þetta væri svona kornflex með feiti og torkennilegu kryddi.

fimmtudagur, 6. nóvember 2008

Viðtekin sannindi

Ýmsu er fleygt fram sem viðteknum staðreyndum þessa dagana.


  1. Verð að taka undir með Má hér. Það eru stórmerkileg tíðindi að "karllæg áhættufíkn" hafi steypt okkur inn í kreppu, en þetta mun víst bara vera raunin. Karlar verða bara að bíta í það súra epli. "Kvenlæga varfærni" hefur skort í viðskiptum.

  2. Nokkrir stjórnmálamenn hafa látið þessi orð falla í tilefni kreppu: "Íslendingar eru fljótir að laga sig að breyttum aðstæðum og hafa alltaf verið"

  3. Það er stórkostleg tíðindi að blökkumaður hafi verið kosinn forseti Bandaríkjanna. Mörgum virðist skítsama hvaða stefnu hann hefur. Mér finnst kolrangt að einblína á það - frekar að líta á að hann hefur betri stefnumál en mótframbóðandinn hafði og virðist einfaldlega klárari, þótt það sé auðvitað matsatriði. Eða hvað? Kannski hef ég rangt fyrir mér. Kannski hefðu það verið stórkostleg tíðindi að blökkumaður skyldi vera kosinn, sama hver hann væri...Dömur mínar og herrar, nýr forseti Bandaríkjanna...

...50 cent. Stórkostleg tíðindi fyrir blökkumenn um allan heim.

Vissulega virðist kosning Obama hafa verið viss sigur í baráttunni gegn kynþáttafordómum, en það er engin ástæða til að einblína á húðlitinn eins og mjög margir virðast gera.

Ofantaldar staðreyndir hljóma fyrir mér álíka gáfulegar og staðreyndin að "Íslendingar eru svo klárir í viðskiptum - þeir kaupa bara heiminn - útrásarvíkingarnir - nú ætla Íslendingar bara að eignast Danmörku ha? Hjálendan eignast herraþjóðina. Rosalega eru Danir öfundsjúkir..." o.s.frv.

miðvikudagur, 29. október 2008

Víkverji skrifar...

Víkverji fór í sund í gærkvöldi. Heyrði hann á tal pottverja:
Pottverji 1 (yfirgnæfði aðra pottverja): "Svo er það Ögmundur, hann er kommúnisti!"
Pottverjar töluðu síðan allir í einu, uppi varð fótur og fit og menn fóru mikinn og tróðu marvaðann í lausnum í efnahagsmálum.
Pottverji 2 (hátt og snjallt yfir hópinn): "Heyrðu, hvað var hann Hörður Torfa að rífa sig í sjónvarpinu í gær?"
Aftur varð uppi fótur og fit meðal pottverja, sem töluðu hver í kapp við annan og vörpuðu fram fleiri gráupplögðum lausnum á slíkri kreppu.

Lausnin gæti verið sú að skipa pottverja sem seðlabankastjóra og skipta út núverandi ríkisstjórn fyrir ríkisstjórn pottverja. Enn fremur má hugsa sér pottverja í útrás á komandi árum.

föstudagur, 17. október 2008

Höfðingleg boð

Fyrirsögn á bankafrétt hjá mbl.is : "Boðin launalækkun". Þessi orð fara illa saman, hljómar óeðlilega. Hvernig fer þett fram?

"Nú ætla ég að gera þér tilboð sem þú getur ekki hafnað!"
"Ok, lát heyra"
"Launalækkun upp á 20%"
...

sunnudagur, 12. október 2008

"Fuckin' Icelanders"

Ég hef vissar áhyggjur af því að ímynd Íslands hafi beðið skipbrot eins og frjálshyggjan upp á síðkastið. Fyrst var æsingur í Bretlandi, síðan Hollandi og vísast er að óhróður Íslands eigi eftir að berast um gjörvalla heimsbyggðina. Börn í Malí gætu verið farin að tala um "Fuckin' Icelanders" áður en langt um líður. En titill færslunnar er reyndar vísun í hollenskan dópmangara í nýju bíómyndinni Reykjavík - Rotterdam, mæli hiklaust með þeirri mynd.

Að þessu sögðu virðist rökrétt að skipta um nafn á landinu. Helst þarf nafnið að vera sem ólíkast núverandi nafni, svo erfitt sé að tengja við það. Tillaga að nýju nafni fyrir Ísland er...

...Zanubia

Það eru tveir augljósir kostir við það nafn, í fyrsta lagi hljómar það eins og nafn á Afríkuríki og mjög erfitt er að tengja það við Ísland. Í öðru lagi er viðeigandi að taka upp nafn sem gæti verið á þróunarlandi vegna þess að hér stefnir allt í að verða rjúkandi rústir og þá þarf að hefja uppbyggingu frá grunni.

Síðan mætti auglýsa verslunarferðir og ódýran bjór, til þess að fiska túrista til landsins.

fimmtudagur, 9. október 2008

Ljósir punktar

  • Fátt er svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott. Ég féll naumlega á TOEFL enskuprófinu í desember, en það er ein forsenda þess að komast í flesta enskumælandi háskóla. Ef ég hefði náð prófinu, væri ég að líkindum í skiptinámi í Kanada núna, en eins og flestir vita eru íslenskir námsmenn erlendis í vondum málum þessa dagana.
  • Valkostum fyrir ungt fólk fækkar á komandi misserum, með gjaldþrotum fyrirtækja o.fl. Færri valkostir þýða auðveldara val.
  • Ég þurfti að afskrifa hlutabréf í íslenskum banka í vikunni eins og þúsundir annarra Íslendinga og auðjöfur frá Mið-Austurlöndum. Finn reyndar ekkert sérstaklega jákvætt við það. En mér yfirsést eflaust eitthvað.

föstudagur, 12. september 2008

Stjúpbræður

Kvikmyndin Step Brothers fjallar um tvo menn um fertugt sem búa enn í foreldrahúsum. Annar býr hjá pabba sínum, hinn hjá móður sinni, eða þar til einstæðu foreldrarnir tveir byrja saman og flytja inn saman. Það er ekki næg hvatning til þess að vitleysingarnir tveir finni sér eigin íbúðir, heldur búa þeir hjá turtildúfunum og verða þar með stjúpbræður. Synirnir tveir eru leiknir af John C. Reilly, sem ég man ekki eftir í neinni annarri mynd, og Will Ferrell. Ferrell hef ég hins vegar séð í nokkrum myndum og sá maður er einn sá færasti í sínu fagi, að leika algjöra hálfvita. Það er ekki alveg sama hvernig það er gert og virðist vera ákveðin list. Ferrell er meistari í þessu, ólíkt t.d. Rob Schneider, sem leikur oftast hálfvita, en gerir það á tilgerðarlegan, leiðinlegan hátt. Ferrell er reyndar líka bara fyndinn í framan.

Þetta er ekki mynd með einhverju rosalegu plotti og tvisti, eins og sumir gagnrýnendur virðast gera kröfu um, jafnvel í gamanmyndum. Söguþráðurinn er mjög einfaldur eins og aðalpersónurnar tvær, en myndin heldur samt dampi út í gegn og er í hóflegri lengd en teygir ekki lopann óþarflega eins og er orðið allt of algengt í kvikmyndum. Lærdómurinn sem draga má af myndinni er að fólk ætti að hafa það að markmiði að daga ekki uppi í foreldrahúsum og vera farið þaðan löngu fyrir fertugt, 25 ætti að vera viðmiðunarmörkin. Það vill enginn enda eins og aðalpersónurnar í myndinni.

Einkunn: 8,0.

sunnudagur, 31. ágúst 2008

Heilbrigði?



Mynd af mbl.is

Svona var víst um að litast á sýningu á myndinni Mama mia! með ABBA lögunum í aðalhlutverki. Fólkið á myndinni getur varla talist heilbrigt, eitthvað hlýtur að hafa farið úrskeiðis i höfðinu á því, en það söng með lögunum og skemmti sér konunglega eins og sjá má. Ég er ólýsanlega feginn að hafa ekki verið viðstaddur.

Frétt Mbl.is

laugardagur, 23. ágúst 2008

Ekki lítið land

"Ísland ekki lítið land, Ísland stórasta land í heimi!" sagði forsetafrúin við RÚV eftir að forsetinn hafði talað um smæð Íslands í nokkra stund eftir sigurinn á Spánverjum.

Þetta er nú þegar orðið frasi og ætti að fara sem áletrun á boli til stuðnings liðinu.

mánudagur, 18. ágúst 2008

Það kemur ekki fyrir mig

Að fara niður í bæ á skrall og týna yfirhöfn og síma er nokkuð sem kemur ekki fyrir mig. Ég passa upp á hlutina. Ég legg ekki símann frá mér einhvers staðar í reiðileysi og skil hann eftir. Ég hef skipulag á þessu, símann alltaf í sama vasa og tékka nokkuð reglulega á því hvort hann er á sínum stað eins og veski og lyklar.

Það var samt nákvæmlega þetta sem kom fyrir um helgina hjá mér, ég týndi farsíma og jakka niðri í bæ. Fattaði það ekki einu sinni fyrr en daginn eftir. Þá var ekkert annað að gera en að hringja á þá staði sem ég fór á. Enginn staðanna þriggja sagðist hafa hlutina tvo. Fór til öryggis á staðina líka og spurðist fyrir, en án árangurs. Ég rifjaði upp hvar ég hefði tekið upp símann síðast og mundi að þar hafði ég líka lagt hann frá mér á borðið. Svo hafði ég staðið upp frá borðinu og vinur minn líka til þess að fara á barinn, líklega hef ég þá skilið símann eftir á borðinu. Fólk á næsta borði sýndi af sér nokkuð undarlega hegðun eftir á að hyggja, sem ég setti samt ekki í samhengi þá, enda hugsaði ég ekkert út í hvort ég væri með símann eða ekki. Það fólk liggur því undir vissum grun en ég get líklega afskrifað símann. Ætla samt að gera aðeins meiri leit að honum, ef hann verður ekki fundinn í vikulok fæ ég mér nýjan.

Fyrsta verk í leitinni var að sjálfsögðu að hringja í símann. Þá komst ég að því að enn var kveikt á honum en enginn svaraði. Það þýðir að ekki var búið að skipta um kort í honum. Nú tveimur dögum seinna kemur hins vegar strax talhólf, sem þýðir að hann er rafmagnslaus eða að búið er að skipta um kort. Ég geri mér samt veika von um að góma einhvern talandi í símann minn og í jakkanum mínum úti á götu, það væri skemmtilegast.

Þetta þýðir semsagt að það næst ekki í mig í farsíma sem stendur. Fólk sem á erindi við mig verður að gera það eftir öðrum leiðum. Ég er feginn að hafa þó ekki týnt veski og lyklum líka. Svo verð eg bara að vona að ég hafi ekki gleymt vitinu líka í miðborginni á aðfararnótt sunnudags.

föstudagur, 15. ágúst 2008

Spádómskúlan

Blaðamannafundur 1.des. 2008

"Komiði sæl og velkomin. Ég hef boðað ykkur hingað til fundar til þess að tilkynna um fimmta meirihlutann í Reykjavík á kjörtímabilinu. Ég var eini maðurinn sem var eftir sem var nógu geðveikur til þess að ganga meirihlutasamstarfs við Sjálfstæðisflokkinn í borgarstjórn. Nýji meirihlutinn mun hafa sömu einkunnarorð og sá fráfarandi: "Höldum áfram (ruglinu)!". Eins og fram kemur í glæsilegum málefnasamningi okkar munum við halda áfram óráðsíu, spillingu og innri slag sem við munum láta bitna á kjósendum. Átjándu aldar götumynd Laugavegar* kemur við sögu og flugvöllur. En fyrst og fremst munum við kappkosta að láta ekki nægja að gefa skít í kjósendur, heldur munum við moka skít yfir þá. Þetta munum við gera bara af því að við getum leyft okkur það, bara af því að þið, kæru kjósendur, getið ekki losnað við okkur fyrr en eftir tvö ár. Það má gera margan óskundann á þeim tíma"

Jókerinn glottir síðan nánast djöfullega, svipað og Hanna Birna gerði við kynningu nýs meirihluta í gær.

*"Átjándu aldar götumynd" hljómar jafnvel enn betur en nítjándu aldar og verður því notað hjá þessum verðandi meirihluta.

mánudagur, 11. ágúst 2008

Gott veganesti út í helgina

Þegar ég keyrði út úr bænum á föstudag fyrir verslunarmannahelgi varð mér litið á steypuveginn neðan við Esjurætur sem hefur frá því að ég man eftir mér lengst af haft áletrunina:

FLATUS LIFIR! (síðar "Flatus lifir enn!")

en sú áletrun hafði einmitt verið hulin með risauglýsingu frá sparisjóði þegar ég fór í veiðiferð með hóp af góðum drengjum fyrstu helgina í júlí. Þá vorum við allir í bílnum sammála um að þetta væri svívirða og kom til tals að fara einhverja nóttina og smella áletruninni góðu á veginn aftur, þótt enginn okkar eigi feril að baki í veggjakroti. Þó vissi enginn okkar hver eða hvað Flatus væri. Ég ákvað að gúgla "Flatus lifir" og fann umræður um hvað þetta þýddi. Fljótt á litið virtist það umdeilt og talsvert á reiki þótt ýmsir hafi þóst vita hið sanna í málinu. Það er líka betra þannig, ef enginn veit með vissu hið sanna um söguna að baki eða merkinguna.

Þegar ég fór út úr bænum um verslunarmannahelgi sá ég ekki áletrunina, en hún var komin á sinn stað þegar ég ók framhjá á sunnudagskvöld, sem var talsverður léttir, enda veitir hún öryggiskennd. Óvissuástand ríkir í þjóðfélaginu ,efnahagsástand fer versnandi, stór gjaldþrot, uppsagnir og svo framvegis. Við slíkar aðstæður er smá huggun harmi gegn að vita þó að Flatusinn lifir hvað sem á dynur. Flatusinn lætur ekki banka eða aðrar kapítalískar gróðamaskínur drepa sig.

Nú básúna sumir þá skoðun sína að "varðveita beri 19.aldar götumynd Laugavegarins", ekki síst borgarstjórinn sjálfur. Margir hafa bent á tvískinnunginn í þeim hugmyndum, þar sem sárafá hús á Laugavegi séu frá 19.öld. Málið er líklega það að "20.aldar götumynd" hljómar ekki nógu tilkomumikið, það er of stutt síðan tuttugasta öldin var. Þessar verndunarhugmyndir ná ekki síður til bölvaðra hjalla (sem tilheyra meintri 19.aldar götumynd), en flottra húsa. Þetta er því allt hið undarlegasta mál.

Spurningin er sú hvort ekki væri nær að byrja á að friða áletrunina "FLATUS LIFIR!" á steypuveggnum en að standa í þessu rándýra brölti í miðbænum. Hvað segir borgarstjórn við því? Ólafur? Hanna Birna? Gísli Marteinn? Hvaða siðferði hafið þið? - svo ég noti orð Árna Johnsen frá því um árið.

laugardagur, 9. ágúst 2008

"Sveittur göltur reyndi að pranga inn á mig láni"

Ég hjóla til vinnu í sumar. Leiðin er 6,5 km og meðfram Sæbrautinni. Reglan er sú að setja upp gleraugun og fara í endurskinsgulan vinnustakk áður en lagt er í hann, ásamt því að setja upp býsna aulalegan hjálm. Fyrstu vinnudagana reyndi ég að taka strætó en það reyndist vera algjör vitleysa því þá þurfti ég helst að vera lagður af stað 50 mín. áður en ég átti að mæta. Að jafnaði tekur 25 mínútur að hjóla, auk þess sem ég þarf ekki að bruna um einhverja óþarfa ranghala, eins og með strætó, hledur get farið beina leið.

Í dagblöðunum eru oftast nokkrar síður helgaðar "Heilsu og lífsstíl" eða álíka. Það eru undantekningalaust með lélegustu síðum blaðanna. Eina sem ég man eftir að sé lélegra eru öftustu síðurnar sem greina frá því hvort Britney snoðaði sig, var full eða dópuð um helgina eða allt þrennt, eða frá áhyggjum af yngri systur Lindsey Lohan - það stefnir víst bara í óefni með hana. Gæti gengið lengra en eldri systirin í ruglinu...Á "Heilsa og lífsstíll" síðunum má einkum finna örstutta og innihaldslausa texta. Dæmigerð klausa hljómar einhvernveginn svona:
Gaman í berjamó

Nú er berjatíminn genginn í garð. Þá getur öll fjölskyldan farið í bíltúr út fyrir borgina í berjamó. Að tína ber gefur góða og holla hreyfingu og blessuð börnin hafa líka svo gaman að því. Berin má nota í sultur, saft eða bara ein sér, með smá rjóma!

Á þessum sömu síðum er oft rekinn áróður fyrir hjólreiðum og textinn yfirleitt settur í það ljós að hjól sé einhvers konar allsherjar lausn sem fararskjóti. "Krökkunum finnst gaman að hjóla" - "Öll fjölskyldan getur farið saman út að hjóla" - "Hjólreiðar eru hollar og svo þarf ekkert að borga fyrir dýran bensíndropann!" - "Sparnaðurinn finnst fljótt á buddunni!" og svipaðar setningar má finna í slíkri umfjöllun.

Hjól eru langt frá því að vera einhver allsherjar lausn. Foreldri sem þarf að skutla krökkum og dóti hingað og þangað gerir það ekki á hjóli. Bankastarfsmaðurinn sem býr í Grafarvogi hjólar ekki í vinnuna niðri í bæ í jakkafötunum. Það virkar varla mjög vel að vera löðursveittur í því starfi, eða hvað? "Heyrðu, það var einhver löðursveittur göltur í bankanum að kynna fyrir mér það sem hann kallaði lán á afar hagstæðum kjörum""
"Og ætlarðu að taka lánið?"
"Nei, maður tekur nú ekki mark á sveittum göltum"

En flest er hægt með skipulagi, skv. þessu.

sunnudagur, 27. júlí 2008

$$$ -How to be rich? -$$$

Regla 1: Skrifaðu bók um efnið "Hvernig á að verða ríkur?" og seldu vitleysingum í bílförmum. Settu mynd af sjálfum þér á forsíðu með besta spekingssvip sem þú getur dregið fram og vertu helst með gleraugu og helst gráhærður. Þú getur líka bara sett mynd af einhverjum gráhærðum miðaldra karli með gleraugu og órætt lúmskt (jafnvel djöfullegt) glott og sagt að það sért þú.

Regla 2: Ekki eyða ógeðslega miklu í vitleysu. Eyddu sem minnstu í vitleysu og hugsaðu um hverja krónu.

Regla 3: Hugsaðu þig um áður en þú ákveður að taka 90 % húsnæðislán, sem voru rosa fyndin og skemmtileg í kosningaloforðaauglýsingum exbé um árið.

Regla 4: Ef þú átt ekki pening, ekki kaupa stóran jeppa á bullandi óhagstæðu bílaláni. Oft þarf að borga lán til baka, þótt ótrúlegt megi virðast.

Þetta var útdráttur úr bókinni $$$How to be rich?$$$, sem ég ætla að gefa út einn daginn, til þess að verða ÓGEÐSLEGA ríkur. Bókin verður seld á afar hagstæðum kjörum og í mjög haganlegum neytendaumbúðum. Ef ráðunum verður fylgt ætti árangurinn að fara að sjást á undraskömmum tíma og viðkomandi lesendur vita ekki fyrr en þeir eru farnir að raka inn seðlunum.

Svartur riddari

"Svarthvíta hetjan mín" eins og Dúkkulísurnar sungu í sífellu?

Nei, hér verður fjallað um Svarta riddarann, nýju Batman-myndina. Eins og fram kemur í myndinni er Batman ekki hetja, heldur svartur riddari. Helsti galli myndarinnar er kannski að nútímatækni er aðeins of mikið nýtt af sögupersónum. Maður sér fyrir sér að ef sú þróun heldur áfram verði Batman í framtíðinni spikfeitur og fari í tölvuna til þess að góma Jókerinn - "SYSTEM LOADING...JOKER CAUGHT" - síðan komi mynd af Jókernum í búri þessu til staðfestingar. Batman fengi sér síðan bjór og snakk til að fagna hetjudáð sinni.

Kostir myndarinnar eru fleiri. Sá sem stelur senunni er Jókerinn, gamansamur með afbrigðum eins og nafnið gefur til kynna. Það sem hann hefur fram yfir flesta aðra vonda karla í sögum er að það er ekkert hægt að semja við hann eða leika á hann, hann er bara snúllandi geðveikur og enginn veit hverju hann sækist eftir eða hvað hann gerir næst. Eina sem fólk veit er að hann sýnir sig ekki opinberlega nema farðaður og hefur gaman að Batman, en þær upplýsingar hrökkva skammt þegar þarf að ná honum. Mig grunar samt að aðsókn á myndina sé þó nokkuð meiri en ella vegna þess að hún skartar látnum manni í aðalhlutverki. Heath Ledger skýtur hinum leikurunum ref fyrir rass í þessarri mynd.

Ég held að það sé ómögulegt að sofna yfir myndinni, því spennan er mikil nánast frá fyrstu mínútu og út í gegn. Christian Bale, sem leikur Batman, er ekkert spes í sínu hlutverki, skilar bara sínu en ekkert meira. Morgan Freeman virðist alltaf leika nokkurn veginn sömu týpuna í myndum, gerir það vel í þessarri eins og oftast áður. Almennt er ekkert hægt að kvarta undan leikurum í myndinni. Flest annað sem máli skiptir er til fyrirmyndar í þessarri mynd.

Einkunn: 9,0.

þriðjudagur, 1. júlí 2008

DJ Bjarni Fel

EM í fótbolta er lokið. Allt tal um "fima listamenn" Ítala missti marks. Allt tal um "þýska stálið" missti marks. Spánverjar unnu eins og ég spáði fyrir mót. Spáin gekk reyndar betur eftir en meirihluti spáa fyrir mótið.

Páll Óskar er frekar umdeildur maður. Sumir nánast hata manninn á meðan aðrir virðast dýrka hann. Ég tel mig vera nokkuð hlutlausan. Hins vegar fannst mér hann allt of oft vera fenginn sem DJ á böll í MR í þau fimm ár sem ég eyddi sem nemandi þar. Hann var nánast í áskrift virtist vera. Ég hef aldrei skilið almennilega hvers vegna. Er hann eitthvað betri plötusnúður en hver annar Þorlákur úti í bæ? Spilar hann skemmtilegri lög? Heldur hann uppi betri stemmingu? Stundum sagði hann eitthvað á milli laga, oftast eitthvað eins og "KOMA SVO EMM ERR!". Páll Óskar virðist vera frekar eftirsóttur sem DJ, hvort sem er í MR eða á öðrum vígstöðvum.

Margir söknuðu Bjarna Fel úr lýsingum á EM. Bjarni hefur gott lag á að lýsa, ekki síst vegna góðra frasa sem hann halar út úr erminni í lýsingum. Dæmi:

  • "...og hann bara með skot!" (oft sagt óháð því hvort leikmaður skýtur úr dauðafæri eða á ævintýralegt skot lengst utan af velli)
  • "BYLMINGSSKOT!"
  • "BANG OG MARK!"
  • "Já, hann er enginn aukvisi [t.d. "í markinu"] hann..."
  • "Hann fór illa að ráði sínu þarna, hann..."
Ég held að Bjarni væri ekki síðri sem DJ. Þar gæti hann notað sömu frasana og í fótboltalýsingum, slengt þeim fram milli laga og haldið uppi dýrvitlausri stemmingu allan tímann. Stundum gæti hann breytt frösunum smávegis, t.d. sagt "BANG OG LAG!" og skellt næsta lagi á fóninn. Eftir að hafa spilað lag með Jamiroquai við góðar undirtektir gæti hann sagt: "Já, hann er enginn aukvisi í taktinum, hann Jamiroquai". Svo gæti orðið mjög vinsælt partýtrix hjá honum að stoppa lag skyndilega og segja "og hann bara með skot!" (sem viðstaddir vissu vel hvað þýddi - að þeir ættu að panta sér skot á barnum). Síðan gæti hann sett lagið aftur á, á meðan viðstaddir biðu spenntir eftir næsta frasa Bjarna - "BYLMINGSSKOT!" sem að sjálfsögðu þýddi að fólk ætti að skella skotunum í sig. Í gríni gæti Bjarni líka stundum sett á grútléleg lög og tekið þau af eftir skamma stund, t.d. með orðunum: "Hann fór illa að ráði sínu þarna, hann Justin Timberlake" og síðan sett á betra lag með betri tónlistarmanni.

Bjarni í diskóbúrinu?

fimmtudagur, 26. júní 2008

Jafnréttisverðlaunin

Ég varði því miður ekki titilinn í jafréttisverðlaunum trausti.blogspot.com. Hún vann.

Þetta þýðir ekkert annað en að ég þarf að girða mig í brók. Hún hún hún hún hún hún, þetta ætti að hækka stuðulinn fram að næstu verðlaunum. Óíþróttamannsleg framkoma, en nú verður að beita öllum meðulum til þess að endurheimta titilinn að ári. Vona að ég verði ekki dæmdur úr keppni fyrir þetta.

Fótbolti

Ágætt að sjá að einhver Englendingur er með fullu viti þegar kemur að umfjöllun um enska landsliðið og gæði þess. Hér er pistill ensks blaðamanns um málið í ísl. þýðingu.

Annars voru Tyrkir ekki langt frá því að fara í úrslit EM. Tippaði á þá fyrir 200 kr. en fékk ekki sexföldunina sem ég vonaðist eftir. Pabbi sagðist ætla að leggja mikið undir á Þjóðverja, taldi að þeir ynnu örugglega. Þeir unnu, en ekki beinlínis örugglega. Spánverjar/Rússar vinna þá í úrslitum, vonandi Spánverjar, því þá verður spá mín fyrir mót um meistara rétt. Rússar eru hins vegar nautsterkir og Spánverjar munu ekki vanmeta þá þótt þeir hafi malað þá í riðlinum.

fimmtudagur, 19. júní 2008

Um EM og umfjöllun RÚV

Jæja, enn einn rosalegur leikur að baki á EM í fótbolta. Sennilega er þetta besta keppni sem ég hef séð. Fyrsta umferðin var ekkert spes á heildina, fyrir utan stórsigur Hollendinga á Ítölum. Það er aldrei leiðinlegt að sjá Ítali jarðaða á velli, að ekki sé talað um þegar það er gert með slíkum töktum.

RÚV hefur haldið ágætlega utan um keppnina en þó eru vissir menn að lýsa leikjum sem ættu bara að vera heima. Hlutdrægnin er á köflum gjörsamlega óþolandi. Lýsarnir í kvöld voru of hliðhollir Þjóðverjum og það var dómarinn líka. Sambærileg brot liðanna fengu ólíka meðferð, Þjóðverjar komust upp með meira. Það versta var hins vegar þegar Ballack kom Þjóðverjum í 3-1 með kolólöglegu marki, þar sem hann hrinti Ferreira mjög greinilega svo hinn síðarnefndi missti jafnvægið. Gummi Torfa (sem er einn sem ætti að vera heima en ekki að lýsa) talaði um að hann hefði "stuggað aðeins við honum", enda á bandi Þjóðverja. Portúgalir urðu ráðvilltir í kjölfarið og fóru að skjóta á markið allt of snemma í stað þess að spila sig í gegnum vörn Þjóðverja eins og þeir voru búnir að gera nokkrum sinnum í leiknum.

Versta dæmið um hlutdrægni lýsenda er samt ekki þessi leikur, þegar Adolf Ingi og Willum lýstu leik Ítala og Rúmena lýstu þeir eingöngu út frá sjónarhorni Ítala, sögðu hvað Ítalirnir þyrftu að gera, ættu að gera, og veltu síðan framhaldinu fyrir sér hjá þeim. Rúmenar virtust ekki vera til í orðabók þeirra félaga. Adolf hrópaði líka "VÍTI!" eða VÍTASPYRNA!" þrisvar að mig minnir undir lok leiksins þegar Ítalir köstuðu sér niður til að fiska. Ekki sérstaklega fagmannlegt. Nokkuð er um að menn ákveði fyrir fram hverjir séu bestir, Ítalir eru "frábærir" af því að þeir eiga stærri sögu á stórmótum en Rúmenar, það sama má segja um Frakka, sem í raun voru sendir heim með skottið á milli lappanna í þessarri keppni. Þó vinna lið ekki leiki á fornri frægð og forn frægð er ekki ávísun á góðan bolta. Svo virðist líka oft gilda lögmálið fleiri þekktir leikmenn í liði = betra liðið. Þetta sást t.d. í upphitunarþætti Þorsteins J. kvöldið fyrir keppni, þegar talað var um Englendinga stóran hluta af þættinum þrátt fyrir að þeir séu ekki einu sinni með.

Ég hef horft á tvo leiki á BBC, í stað þess að hlusta á Snorra eða Adolf lýsa. Þar má yfirleitt treysta á fagmannlega umfjöllun, kempur að lýsa og slíkt og hlutleysi í hávegum haft með sárafáum undantekningum.

Einn maður hefur borið af í lýsingum á RÚV, hann heitir Valtýr Björn. Sérstaklega fannst mér hann fara á kostum í besta leik keppninnar hingað til, Holland - Frakkland. En umfram allt, frábær keppni og ég vona að Spánverjar jarði Ítali á sunnudagskvöld, því fyrr sem þeir fara heim, því betra. Held mig við spána um sigur Spánverja í keppninni. Annars græt ég ekki ef Hollendingar hampa titlinum, sérstaklega ef þeir halda áfram að sína sömu meistaratakta og hingað til. Svo hef ég reyndar oftast haldið með þeim á stórmótum.

þriðjudagur, 17. júní 2008

Bjarndýr

Aðalfrétt flestra íslenskra fjölmiðla snýst um annan ísbjörninn sem villst hefur til Íslands á skömmum tíma. Ísbjörninn sem kom um daginn var plaffaður niður stuttu eftir að hans varð vart. Margir urðu hryggir, reiðir, sárir og mig minnir að ég hafi heyrt fleiri lýsingarorð um aðferðina. Talsmaður Greenpeace lýsti strax undrun og fordæmingu á þessari einföldu leið til að koma í veg fyrir áframhaldandi hættu af birninum. Nokkrir fjölmiðlar utan lands fjölluðu víst einnig um málið og lýstu á neikvæðan hátt. Ísbirnir væru friðaðir og algjörlega ólýðandi að skjóta þá.

Mér fannst og finnst þessar fordæmingar frekar fáránlegar. Það má vel vera að ísbirnir séu friðaðir en flestir geta þó viðurkennt að þeir séu hættuleg rándýr. Það hefði verið dýrt spaug og mun tímafrekara að freista þess að deyfa björninn og veiða í búr. Neikvæða umfjöllunin hafði hins vegar þau áhrif að ákveðið var nú í kjölfar komu annars bjarnarins að hafa samband við NATO - bandamenn okkar, Dani, en sérfræðingar þaðan ætla að koma og góma bjarndýrið lifandi og flytja aftur til heimkynna þess. Fréttir af málinu hafa borið léttan keim af æsifréttamennsku, fjölmiðlar gera sér aldeilis mat úr því þegar eitthvað gerist nú í árlegri gúrkutíð sumars. Kannski er þessir fyrstu tveir ísbirnir bara forsmekkurinn af því sem koma skal, kannski verður það ísbjarnaher næst, þá verður eins gott að bandamenn Íslands verði til taks.

Seinni ísbjörninn virðist vita vel að hann er stjarnan og sýnir af sér frekar handahófskennda hegðun. Hann fær sér að éta úr einu hreiðri og leggur sig síðan í smástund með ístruna út í loftið. Eftir smá blund gæðir hann sér á innihaldi næsta hreiðurs og leggur sig aftur og svo koll af kolli. Ef marka má fréttir Ríkisútvarpsins í morgun er vindátt mjög hagstæð að því leyti að björninn finnur ekki mannaþef í lofti. Á meðan svo er heldur hann örugglega bara áfram að fara milli hreiðra og leggja sig.

Jarðskjálftinn um daginn

Jarðskjálftann á suðurlandi um daginn skítnýttu margir fjölmiðlar til umfjöllunar, það hefði varla verið hægt að fjalla meira um hann. Aukafréttatími var hjá Sjónvarpinu, Bogi Ágústsson mætti í myndver og fjallaði um skjálftann og talaði við nokkra valinkunna viðmælendur, sem reyndar sögðu allir nokkurn veginn það sama, "Talsvert eignatjón en ekkert tjón á fólki", svo var fimm sekúndna myndskeið (eða fyrstu myndir) af skjálftanum spilað aftur og aftur og aftur, örugglega minnst 20 sinnum. Ég hafði á tilfinningunni að Bogi nennti alls ekki að vera þarna, enda leit hann mikið í kringum sig og það virtist vera fararsnið á honum, sem er ekki skrýtið því þarna sat hann og þurfti að þylja upp það sama aftur og aftur og heyra í viðmælendum sem sögðu ekkert nýtt. Svo sást að hann var að slá eitthvað inn í tölvu inn á milli, flestir hafa eflaust haldið að hann væri að skoða eitthvað tengt skjálftanum en ég gæti alveg eins trúað að hann hafi bara verið í Minesweeper eða að leggja kapal, lái honum hver sem vill. Þetta er sennilega það sem fólk vill, þegar suðurlandsskjálftinn reið yfir á þjóðhátíðardaginn fyrir nokkrum árum voru margir mjög æstir og stór orð látin falla um að Sjónvarpið hefði "brugðist almannavarnahlutverki sínu" með því að rjúfa ekki beina útsendingu frá íþróttaleik um leið og fyrstu fréttir komu af skjálftanum. Þó gat væntanlega allt þetta fólk kveikt á útvarpi til þess að fá upplýsingar um skjálftann eða kíkt á netið, þótt netið sé orðið útbreiddara nú en það var þá.

Nú hins vegar brást Sjónvarpið þessu sama fólki ekki, aukafréttatíminn var á sínum stað í tæka tíð. Fólk fær sennilega öryggistilfinningu af því að sjá Boga í myndveri fjalla um jarðskjálfta, sem er þannig að vönduðustu dömubindi blikna í samanburði.

Gleðilega þjóðhátíð.

sunnudagur, 8. júní 2008

Silvester time

Ég hef sagt nokkrum lesendum frá einum samstarfsmanni mínum í álverinu síðasta sumar. Hann var pólskur og talaði ensku við okkur með áberandi hreim. Hann hafði búið á Íslandi í fáeina mánuði ef ég man rétt. Sennilega er leitun að öðrum eins meistara.

Hann ávarpaði mig oftast "Hey, Gúmmí", en nöfn starfsmanna eru alltaf framan á hjálmunum og á fötunum. Eitt af því fyrsta sem hann tilkynnti mér var: "Hey Gúmmí, Friday...I get the money" (sagt í hálfgerðum mafíósatón). Ég áttaði mig ekki strax á hvað hann ætti við og spurði "Ok...what money?" og þá svaraði hann "paycheck", sem var rétt - útborgunardagur í álverinu var næsti föstudagur.

Skömmu eftir útborgunardaginn mikla kom hann frekar vonsvikinn og sagði okkur að hann hefði bara fengið í kringum 150.000 kr. útborgaðar, sem hljómaði óeðlilega lítið sem mánaðarlaun, enda höfðum við hinir fengið mun hærra. Svo talaði hann við fólk á skrifstofunni til þess að fá skýringar og þá kom í ljós að hann hafði ekki skilað inn skattkorti, sem var kannski ekkert skrýtið, því enginn hafði sagt honum neitt um það. Eftir það kom hann til mín og sagði: "Hey Gúmmí, they tell me I have to get this skatkort...this is true?!" og ég gat staðfest að það væri rétt.

Einn daginn sagði annar samstarfsmaður honum frá áramótunum á Íslandi, að þau væru mögnuð og lýsti flugeldasprengingum og partýhaldi með miklum tilþrifum fyrir honum. Eftir smáskammt af fjálglegum lýsingunum greip sá pólski inn í og sagði "aaa, you mean silvester time?" og hinn samstarfsmaðurinn hló bara og sagði "silvester time, what the fuck is that?". Þá reyndi sá pólski að útskýra það fyrir honum að hann ætti við áramótafögnuð eða áramót og hinn skildi um leið. Síðan skrapp hinn samstarfsmaðurinn frá. Sá pólski virtist ekki viss um að það hefði alveg komist til skila hvað "silvester time" væri og tók upp krítina sína og skrifaði á gráa steynsteypuna inni í kerskála "2006 -> 2007", benti á það og sagði við mig "you know Gúmmí, when there is maybe 2006, an then there comes 2007...that is silvester time".

Þetta er það helsta sem ég man eftir en það var fleira gull sem kom frá þessum ágæta manni.

Er Sylvester Stallone forsenda góðra áramóta í Póllandi?

laugardagur, 7. júní 2008

Tónleikar Super Mama Djombo á Nasa

Hljómsveitin Super Mama Djombo hélt tónleika á Nasa síðasta laugardagskvöld. Fyrir tónleikana vissi ég lítið um hljómsveitina, annað en að hún kæmi frá Gíneu-Bissá. Hljómsveitin spilar Afríkutónlist "með kúbönsku ívafi" stóð einhversstaðar.

Þetta voru frekar góðir tónleikar, hressandi taktur, spilamennska og söngur. Sviðsframkoman var líka fín. Þegar seig á sinni hluta tónleikanna var eldri söngkona sveitarinnar í aðalhlutverki, hún virðist vera leynivopnið sem er geymt þar til í seinni hlutanum. Svaðaleg rödd þar á bæ. Reyndar gæti ég trúað að hún héti Super Mama og að allir hinir meðlimir sveitarinnar væru afkomendur hennar, með ættarnafnið Djombo. En það eru nú bara getgátur.

Eitt var hins vegar til að spilla stemmingunni, það var þegar Egill Ólafsson Stuðmaður birtist á sviðinu eins og skrattinn úr sauðarleggnum. Egill virðist líta frekar stórt á sig og virtist telja sjálfan sig aðalnúmerið þegar hann var á sviðinu. Blaður hans á milli laga var misheppnað. Ég leit yfir salinn þegar Egill birtist og sá grettur á nokkrum andlitum. En svo sá ég líka einhverja sem virtust kunna að meta þennan aukamann. Hann söng á íslensku og passaði alls ekki þarna inn í. En sem betur fer var hann ekki með í nema þremur lögum eða svo.

En á heildina voru þetta sem sagt góðir tónleikar og ég mun fjárfesta í plötu með Super Mama Djombo til þess að fá Gíneu-Bissá beint í æð heima í stofu.

Einkunn (ef Egill er undanskilinn): 8,5.
Einkunn (að Agli meðtöldum): 8,0.

föstudagur, 6. júní 2008

EM í fótbolta - spá

EM hefst á morgun með tveimur leikjum. Eftirfarandi er spá mín um framgang mótsins og úrslit.

Riðlakeppni (lið sem fara áfram í 8-liða úrslit feitletruð):
A-riðill
Sviss
Tékkland
Portúgal
Tyrkland

B-riðill
Austurríki
Króatía
Þýskaland
Pólland

C-riðill
Holland
Ítalía
Rúmenía
Frakkland

D-riðill
Grikkland
Svíþjóð
Spánn
Rússland

Meistarar:
Spánverjar.
Markakóngur:
Ruud van Nistelrooy.

"Spánverjum gengur alltaf illa á stórmótum" er tugga sem hefur margoft heyrst. Þeir hafa samt orðið Evrópumeistarar, það er bara mjög langt síðan. Það sem ég held að sé Spánverjum til tekna nú, frekar en áður er að talsvert fleiri leikmenn spila utan Spánar en á undanförnum stórmótum.

Ég ætla að halda með Spánverjum í þetta skiptið, kannski aðallega vegna þess að Liverpool á flesta fulltrúa þar. Spáin er því blönduð óskhyggju, eins og oft gildir um slíkar spár.

laugardagur, 31. maí 2008

Hvít húfa

Systir mín útskrifaðist sem stúdent úr MH um síðustu helgi. Hún er rétt rúmum fjórum árum yngri en ég, en útskrifaðist sem stúdent núna tveimur árum á eftir. Ef þetta heldur svona áfram tekur hún fram úr mér áður en langt um líður. Ég get þá huggað mig við það að kannski verður hún komin langt fram úr mér á gamals aldri og fer á undan á elliheimilið.

Þessi mynd náðist í veislunni.

Frá vinstri: Ég, amma, Nína, afi.

Hefur aðstoðarlandlæknir tapað áttum?

Móðir mín sendi mér tölvupóst á dögunum með yfirskriftinni Hefur aðstoðarlandlæknir tapað áttum? Inni í tölvupóstinum stóð síðan ekkert nema "Hefur aðstoðarlandlæknir tapað áttum?".

Þetta hefði verið frekar skemmtilegt ef samhengið hefði verið ekkert, en hún hafði áður beðið mig að senda sér grein úr greinasafni Moggans með þessum titli, sem hún greinilega ásælist, en hefur ekki aðgang sjálf. Ég mundi reyndar ekki strax eftir þessu þegar ég sá póstinn, þannig að þetta virtist frekar skrýtið.

Eitt og sér hefði þetta samt verið best, knýjandi spurning sem ég ætti síðan að svara að vel athuguðu máli. Auðvitað ætti maður að fara að stunda þetta, að senda fólki sem maður þekkir undarlegar spurningar í tölvupósti, eða bara á póstkorti, það er eiginlega betra.

sunnudagur, 25. maí 2008

Eurovision

Eurovision virðist vera að færast frá því að vera fyrst og fremst vondulagakeppni, yfir í að vera strippkeppni. Sigurlagið í ár var klárlega ekki gott lag, en söngvarinn tók nett stripp sem hefur væntanlega reddað slurk af atkvæðum kvenna. Konur eru sennilega 60-70% þeirra sem kjósa í símakosningunni, og þar með var sigur Rússa tryggður. Það var einmitt þetta sem kvenstripparar kepninnar, sem voru meirihluti keppenda, klikkaði á, þ.e. að kvenatkvæði eru líkast til fleiri og sá markhópur þar með stærri. Svo spilaði inn í að þar var samkeppnin meiri, þær voru svo margar. Og Grikkland, hvað var það? Hvergi var til sparað í samfarasveiflunum á sviðinu. Lélegt lagið var algjört aukaatriði.

Annars fannst mér finnska lagið bera af í keppninni. Fínt rokklag, betra en sigurlag Lordi, en engir rosalegir búningar, sem hefur sennilega spillt fyrir þeim. Hvaða álit sem fólk kann að hafa á íslenska laginu eða flytjendum þess, er ekki hægt að gagnrýna flutninginn, því hann var 100% og það er meira en segja má um suma hinna kependanna.

laugardagur, 17. maí 2008

F. Magnússon

Tómas gaukaði að mér góðri hugmynd á dögunum. Hann spurði hvort ég væri kominn með djobb hjá borginni, verandi F. Magnússon. Þetta er klárlega borðleggjandi dæmi, nú þarf ég bara að fara á fund Ólafs F. og nefna þetta við hann. Það hlýtur að vera hægt að hliðra aðeins til fyrir mig þarna hjá borginni, búa jafnvel til nýja stöðu og svo fæ ég launatékka upp á tæpa milljón á mánuði. Úthverfastjóri, hvernig hljómar það?

Svo kemur máltakið "allt er þá er þrennt er" við sögu og við félagarnir þrír deilum og drottnum yfir borginni.




Heilög þrenning?

laugardagur, 3. maí 2008

Munaður

Í dag átti sérkennilegt atvik sér stað í enska boltanum. Í stöðunni 3-1 fyrir Man.Utd. gegn West Ham tók Luis Nani (Man. Utd.) sig til og skallaði Lucas Neill (West Ham) og fékk rautt spjald að launum. Þetta þótti nokkuð sérstakt, einkum í ljósi góðrar stöðu Man. Utd. í leiknum og þar með í baráttunni um meistaratitilinn.

En svo má líta á þetta öðruvísi, hvenær átti Nani að leyfa sér þann munað að skalla Neill, ef ekki í þessarri stöðu? Þetta var a.m.k. betra tækifæri til sérkennilegrar framkomu heldur en þegar Riise skoraði fáránlegt sjálfsmark um daginn og jafnaði fyrir Chelsea eftir að uppbótartíma var lokið í mikilvægasta leik tímabilsins til þessa hjá Liverpool. Þetta var líka betra tækifæri en þegar Zidane tók sig til og skallaði Materazzi niður í úrslitum HM. Þar var staðan ekki jafn góð, fórnarkostnaðurinn var meiri, alveg eins og hjá Riise. Þannig að kannski var þetta ekkert svo slæm hugmynd hjá Nani.

fimmtudagur, 24. apríl 2008

Rödd alþýðunnar?

Eins og flestir vita náði yfirgangur og heimska manna sem kalla sig fulltrúa vörubílstjóra, jafnvel fulltrúa almennings, nýjum hæðum í gær, þegar þeir lokuðu Suðurlandsvegi. Þeir hundsuðu ítrekað tilmæli lögreglu og sýndu af sér dólgslæti. Sá maður sem oftast hefur talað við fjölmiðla sem fulltrúi hópsins sagði lögregluna hafa átt upptökin að óeirðunum sem fylgdu í kjölfarið, hún hefði hindrað mann sem ætlaði að komast að kyrrstæðum vörubíl sínum þegar hann loksins ætlaði að færa hann. Orsök og afleiðing vefjast greinilega ekki fyrir þeim manni. Forsætisráðherra sagði í viðtali við kvöldfréttir Ríkissjónvarpsins eitthvað á þá leið að margir teldu sig þurfa að koma málum inn á borð ríkisstjórnarinnar, en þeir hefðu ekki allir stóra trukka til þess. Ég veit ekki hvernig ástandið væri ef þeir allir hefðu trukka og væru allir nógu vitlausir til þess að nota þá á sama hátt og umræddir menn.

Langt er síðan ég hef hlustað á Útvarp sögu. Hins vegar ákvað ég að stilla inn á hana í morgun, bjóst við að heyra í hvumsa hlustendum um atburði gærdagsins og kostulegar túlkanir og tilþrifamiklar lýsingar. Þegar ég kveikti hringdi kona inn, sem var greinilega "fastakúnni", því umsjónarkonan Arnþrúður heilsaði henni með nafni. Hún talaði ekki um óeirðir í gær heldur sagði kampakát frá "húsráði sínu til ungra kvenna" eins og hún orðaði það, "sem færu nú að raka á sér lappirnar af kappi í tilefni sumars", "til þess að losna við broddana", en það var að "kveikja bara í þeim!" sagði hún og hló dátt og upplýsti að hún hefði beitt þessu eitraða bragði allt frá 1986.

Ég hélt að óeirðir gærdagsins væru efnið sem brynni á hlustendum, en þetta var næsti bær við.

laugardagur, 19. apríl 2008

Blaðamannafundur

Ég mæli með blaðamannafundi með Avram Grant, knattspyrnustjóra Chelsea eftir leik þeirra gegn Everton á fimmtudagskvöld. Forsaga málsins er sú að þegar örfáir leikir eru eftir í ensku úrvalsdeildinni stendur baráttan um meistaratitilinn á milli Manchester United og Chelsea. Fjöldi fjölmiðla hefur afskrifað Chelsea í baráttunni fyrir löngu og gefið sér að Manchester verði meistarar. Menn víla jafnvel ekki fyrir sér að slá upp stríðsfyrirsögnum um hversu öruggt það sé.
Ágætt er að hafa í huga að fyrir rúmum tveimur mánuðum eða svo sló fjöldi fjölmiðla því föstu að Arsenal yrðu Englandsmeistarar, ekkert gat komið í veg fyrir það. Þeir spiluðu stórbrotinn sóknarbolta sem enginn gat stoppað og allt það. Í dag er staðan önnur, Arsenal er fallið úr Meistaradeildinni og tap þeirra gegn Man. Utd. um daginn rak síðasta naglann í líkkistuna í deildinni, svo að allar titilvonirnar eru fyrir bý á þeim bæ.

Ofan á það að ýmsir ónefndir fjölmiðlar hafi hampað Man. Utd. og um leið gert lítið úr möguleikum Chelsea bætist að erfiður leikur þeirra gegn Everton, sem átti að fara fram í dag (laugardag), var færður og leikinn sl. fimmtudag nánast fyrirvaralaust, til þess að Sky sjónvarpsstöðin gæti sýnt leikinn beint. Það þýddi að Chelsea spilaði bæði á mánudag og fimmtudag í vikunni sem leið. Tilfærsla leiksins þýddi að sumir miðaeigendur misstu af leiknum o.fl. Samsæriskenningar hafa verið búnar til af minna tilefni.

Af þessu ætti að vera ljóst að Avram Grant var ekki pirraður að ástæðulausu á fréttamannafundinum eftir leikinn. Hér eru nokkrar spurningar og svör af fundinum:

Áttuð þið skilið að vinna, Avram?
A: "já"

Hvað varstu ánægðastur með í frammistöðu liðsins í kvöld?
A: "Ég er ánægður"

Hvað varstu sérstaklega ánægður með?
A: "Ég veit það ekki"

Hefurðu einhver skilaboð til stuðningsmanna Chelsea?
A: "Eruð þið fulltrúar stuðningsmanna Chelsea?"

Þeir hljóta að trúa að þið eigið enn möguleika á titlinum, hefurðu einhver skilaboð til þeirra?
A: "Engin skilaboð"

Þú virðist ekki eins málglaður og venjulega, Avram. Er það vegna þess að Sky sjónvarpsstöðin lét færa leikinn yfir á fimmtudag?
A: "Kannski er það vegna ykkar. Ég veit það ekki. Það er í lagi með mig."

Tveimur spurningum síðar...
Er þetta vegna Sky?
A: "Nei. Sky er ágæt stöð. Mér finnst gaman að horfa á hana."

Viðtalið í heild má nálgast hér.

Spennan er töluverð í fótboltanum þessa dagana, bæði í Meistaradeild og ensku deildinni. Man. Utd. á möguleika á sigri í þeim báðum. Hins vegar er líka möguleiki að þeir vinni hvorugt, sem mér þætti alls ekki leiðinlegt.

sunnudagur, 13. apríl 2008

Sveina Múladóttir

  • Svalbarði, þáttur Þorsteins Guðmundssonar og Ágústu Evu Erlendsdóttur fer afar vel af stað. Nú eru fyrstu tveir þættirnir búnir og báðir voru afbragðsgóðir. Sketsarnir hafa verið eins og best verður á kosið. Hvað á þetta að þýða? - horn Sveinu Múladóttur í þættinum er frekar óborganlegt, ég hló a.m.k. mjög mikið að því. Það má varla á milli sjá, hvort er betra gervið og grettan á henni eða óstöðvandi stólpanöldurkjafturinn.
  • Grínþættirnir Klovn hafa verið á dagskrá RÚV á fimmtudagskvöldum síðan fyrir jól ef ég man rétt. Þeir þættir eru einir bestu grínþættir sem sést hafa á skjánum. Samtöl félaganna eru mjög góð og þeirra sjónarhorn á málin. Ég veit ekki hvaðan þeir fá hugmyndirnar, en í byrjun er þess alltaf getið að þættirnir séu byggðir á raunverulegum atburðum. Alltaf þegar maður heldur að aðstæður í þáttunum geti ekki orðið vandræðalegri, þá verða þær það. Samt vill aðalpersónan voða vel.
  • Spaugstofuna í kvöld. Hló ekki svo mikið sem einu sinni.

föstudagur, 14. mars 2008

Lok vinnuviku

Oftast reyni ég að forðast að fara út að keyra í föstudagstraffíkinni, sé þess kostur. En í dag þurfti að versla í matinn, ískápurinn var gapandi tómur. Þegar ég keyrði inn á litla bílastæðið við búðina var það frekar pakkað. Einn bíll var að bakka á móti akstursstefnu þeirra sem komu inn á stæðið, ég bakkaði þá smávegis, hélt að hann væri að bíða eftir stæði sem var að losna rétt fyrir framan. Hann bakkaði aðeins meira, ég bakkaði aðeins meira. Síðan ætlaði hann að bakka enn meira, þá bakkaði ég ekki. Þá stökk hann öskuillur út úr bílnum og baðaði út höndunum, settist síðan aftur inn. Fleiri bílar voru komnir aftan við mig sem ætluðu inn á stæðið. Maðurinn stökk aftur út úr bílnum og öskraði "FARÐU FRAMHJÁ!" og virtist vera endanlega að missa vitið. Ég fór framhjá og fann laust stæði, en "nota bene" bílar sem voru að fara höfðu verið að keyra þeim megin eins og venjan er á svona bílastæðum. Var að velta fyrir mér hvort ég ætti að svara honum einhverju en ákvað að sleppa því, nógu brjálaður var hann fyrir. Næsti bíll á eftir mér var núna aftan við tryllta gaurinn, sem trylltist enn meira og öskraði á fólkið í þeim bíl að fara framhjá. Það fór framhjá og hló að manninum sem varð ekkert minna trylltur við það. Veit ekki hvað gerðist næst því ég fór inn að versla.

Hann var á sjö manna bíl og kona og þrír eða fjórir krakkar voru með í bílnum. Eflaust hefur hann verið að farast úr stressi nýkominn úr vinnu og eitthvað. Svo gæti ég ímyndað mér að krakkarnir hafi sagt aftur í: "Pabbi, kanntu ekki að keyra? Af hverju förum við ekki heim?" o.s.frv.

laugardagur, 1. mars 2008

Gleðibankinn

Vaknaði í morgun með lagið Gleðibankann á heilanum mér til mikillar furðu. Reyndar hálfvaknaði ég og fannst jafnvel eins og ICY-söngflokkurinn væri inni hjá mér allur með tölu að syngja lagið á fullu blasti. Ég bjó mig undir að hreyta einhverjum skammaryrðum í þau og henda þeim út og spyrja þau "Vitiði hvað klukkan er!?!" og eitthvað álíka gáfulegt.

Svo vaknaði ég almennilega, sneri mér við og leit upp til þess að fullvissa mig um að þetta lið væri ekki í herberginu. Þau voru hvergi sjáanleg svo að ég gat farið aftur að sofa og geymt skammarpistilinn til betri tíma.

föstudagur, 29. febrúar 2008

Hlaupár

Ég veit ekki hvort ég nenni ad blogga lengur. Kannski blogga ég hédan í frá bara 29.febrúar.

miðvikudagur, 20. febrúar 2008

Fletcher? Kuyt?

Í gær vann Liverpool Inter Milan 2-0 á Anfield í Meistaradeild. Inter Milan sótti ekkert í leiknum fyrir utan aðeins pressu í tvær mínútur eða svo í seinni hálfleik. Dirk Kuyt af öllum mönnum skoraði fyrra mark Liverpool, fínt mark. Í síðustu færslu lýsti ég einmitt frati á þann mann.

Svipað var uppi á teningnum um helgina þegar Man. U. keppti við Arsenal í Ensku bikarkeppninni og jarðaði þá. Þá sá ég byrjunarliðin fyrir leik, Rooney einn frammi og Fletcher í liðinu sem mér fannst benda til að Ferguson legði litla áherslu á sigur. Síðast þegar ég sá Fletcher spila svo ég muni var hann algjör grínari. En nei, nei, maðurinn skoraði tvö mörk og var einn bestu manna í leiknum sem United burstaði 4-0.

Reyndar er furðualgengt að íþróttaspekingar, t.d. þeir sem lýsa leikjum, séu úti á þekju. Því ótrúlega oft virðist gerast nákvæmlega það sem þeir töldu útilokað og það lið skorar sem þeir töldu að gæti aldrei skorað o.s.frv. Það er frekar fyndið þegar þeir láta fúkyrðin fossa út um einhvern leikmann og hann skorar síðan glæsilegt sigurmark og þaggar allrækilega niður í þeim.

sunnudagur, 17. febrúar 2008

Dagar Benitez taldir hjá Liverpool

Í dag er Liverpool, sigursælasta lið Englands frá upphafi, orðið aðhlátursefni um heim allan. Knattspyrnustjórinn Rafael Benitez tekur ótrúlega handahófskenndar ákvarðanir við byrjunarliðsval hvað eftir annað og það sama má segja um innáskiptingar. Menn nenna varla að vera að standa sig vel í leikjum þegar þeir vita ekkert hvort það þýði fleiri byrjunarliðsleiki í kjölfarið. Dirk Kuyt og John Arne Riise hafa t.d. verið eins og beljur á svelli svo til allt tímabilið, en það hindrar ekki að þeir fái hvern leikinn á fætur öðrum í byrjunarliðinu og geta leyft sér að vera drulluslakir hvað eftir annað.

Benitez er að verða eins og villti Villi borgarfulltrúi. Gerir síendurtekin "klaufaleg mistök" en einn og einn reynir samt ennþá að verja þá. "Benitez vann nú Meistaradeildina með liðið 2005!" segja menn til marks um ágæti hans sem þjálfara. Vissulega mjög mikið afrek með þá leikmenn sem hann hafði þá. En málið er að það er ekki hægt að lifa endalaust á fornri frægð. Það þýðir ekkert að ætla að vinna Meistaradeild 2005 og skemma síðan liðið.

laugardagur, 16. febrúar 2008

Rafmagnsbannið

  • Í gær var vísindaferð á stærsta skemmtistað í heimi, allt vitlaust auðvitað.
  • Lentum síðan allt í einu inni í samkvæmi Frjálslynda flokksins á Kaffi Reykjavík eftir slappa stemmingu á Glaumbar. Veit ekki hver átti hugmyndina að því en þangað fórum við. Jóhannes eftirherma fór mikinn.
  • Galandi stemming var á Kaffi Cultura, minni á Vegamótum.
  • Rafmagnslaust var í miðbænum í klukkutíma í nótt. Að sitja inni á bar í rafmagnsleysi er mjög spes. Engin tónlist og bara tekið við reiðufé á barnum.

Ég held að það gæti verið áhugavert að prófa næst að setja rafmagnsbann, nú þegar reykingabannið hefur verið við lýði síðan í sumar. Fleiri bönn sem mætti prófa á skemmtistöðum:
  • Áfengisbann.
  • Stólabann.
  • Borðabann.
  • Fólksbann.
Svo gæti nefnd skilað áliti um árangur af hverju banni.

fimmtudagur, 14. febrúar 2008

Sóðalegur verðmunur

Var að fá skólabók sem var pöntuð af Amazon.com. Þetta er nýtt eintak og kostar með öllum gjöldum rétt tæpum 3000 kr. minna en í Bóksölu stúdenta. Fyrir tveimur vikum fékk ég aðra bók senda, frá Amazon í Bretlandi, og þar var munurinn rúmur þúsund kall á nýju eintaki, miðað við verð Bóksölu stúdenta.

Niðurstaða: Að kaupa erlendar bækur í Bóksölu stúdenta er eins og að pissa í skóinn sinn.

mánudagur, 11. febrúar 2008

Ekki fréttir

Boðað var til blaðamannafundar í dag. Þar tilkynnti Vilhjálmur fyrrverandi og hugsanlega verðandi borgarstjóri að hann segði ekki af sér. Hvað á skrípaleikurinn að ganga langt? Hvað ætlar maðurinn að draga flokkinn langt niður í svaðið með sér?

föstudagur, 8. febrúar 2008

Kosningar

Kosningum til stúdentaráds er lokid. Mitt atkvaedi dugdi ekki til ad fella meirihlutann. Thá er spurning hvort einhver úr borgarstjórn Reykjavikur getur ekki maett til ad fella slikan meirihluta stúdentaráds, med einhvers konar eitrudu politisku trixi eins og tidkast á theim baenum.

Ég var buinn ad ákveda ad kjósa Obama sem forseta Bandaríkjanna. Ég hafdi svosum ekki hugmynd um fyrir hvad hann stód, en hann er alltaf í fréttum og svona, virdist vera ágaetis gaur. Sídan tók ég netpróf sem maeldi mig med hvorki meira né minna en 65% studning vid Hillary Clinton, en ekki nema 53% vid Obama. En thetta skiptir ekki ollu, adalatridid er ad repúblíkani komist ekki í stólinn. Hef enga trú á thessum John McCain eftir ad hafa kikt á hans áherslur. Hann yrdi án efa bara beint framhald af Bush, hinum alraemda.
----
Ég er ekki í útlondum, heldur ad blogga ur eigin tolvu, minni fyrstu. Hun er gaedd theim skemmtilega fitus ad vanta séríslenska stafi, sem gefur textanum framandi blae.

mánudagur, 4. febrúar 2008

Super Bowl

Í gær var bein útsending frá úrslitum í Bandaríska fótboltanum. Til þess að vera maður með mönnum stillti ég inn rétt fyrir leik og beið iðandi eftir þessum heimsviðburði. New York Giants og New England Patriots mættust. Spekingarnir voru mættir inn í stúdíó og ræddu málin með kaffi og kleinur undir dynjandi rappmúsík. Giants voru "underdogs" að sögn spekinganna, svo ég ákvað að halda með þeim.

Leikar hófust, gríðarleg spenna, svo var allt stopp eftir nokkrar sekúndur. Auglýsingahlé voru gerð hvað eftir annað og spekingarnir gripu inn í þess á milli inni í stúdíó. Leikurinn virtist aldrei vera í gangi nema svona eina mínutu í senn, svo var stoppað. Hvers konar sjónvarpsefni er þetta?

Leikmenn virtust sumir vera feitir, sem sjaldgæft er að sjá i keppnisíþróttum. Síðan voru þeir margir málaðir í framan með stríðsmálningu, sem var nokkuð kjánalegt. Ég gafst upp á að horfa þegar annar leikfjórðungur var nýhafinn, engu nær um það fyrir hvað þessi viðburður er svona vinsæll.

sunnudagur, 27. janúar 2008

Meint ósmekkleg Spaugstofa

Stundum sér maður skrif virkustu moggabloggara, enda er þeim er nánast troðið í andlitið á lesendum Mbl.is. í dálkinum heitar umræður og við hliðina á fréttum. Nú virðast ýmsir vera snarbrjálaðir yfir síðasta Spaugstofuþætti, ein kona kallar þátinn "Saurstofuna" o.s.frv. Ég horfði á þáttinn og það er ofar mínum skilningi að hægt sé að hneykslast svona mikið á honum. Meint siðleysið sá ég ekki, þvert á móti var þetta mjög eðlilegt grín að farsakenndu rugli í borgarstjórn Reykjavíkur, þótt litlu hafi verið við að bæta.

Þátturinn var talsvert yfir meðallagi, Spaugstofan er oft hundleiðinleg en hún var bara nokkuð fin í þetta skiptið. En margir virðast finna sig knúna til að setja upp vandlætingarsvip og kunna sennilega betur einhverskonar ofurkurteislegt (og leiðinlegt?) grín að þessu gegndarlausa kjaftæði í borgarmálum. Mótmæli í ráðhúsinu voru líka illa séð, sennilega hjá sama fólki. Jú, þetta eru forkastanleg vinnubrögð en það má ekki mótmæla, bara tauta yfir þessu heima í stofu og það má ekki gera grín nema mjög saklaust.

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson er búinn að sitja sem borgarstjóri og hann skeit upp á bak eins og flestir vita í kringum svokallað REI-mál. Hann sá ekki sóma sinn í að segja af sér þótt hann hefði verið meiri maður á eftir heldur ætlar hann að verða borgarstjóri aftur. Enginn í borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins virðist hafa andmælt nýjum meirihluta og sama fólk og reyndi að bola Vilhjálmi út vill nú leyfa honum að setjast í stólinn aftur til þess að fá annað tækifæri eða nánar tiltekið fá völdin aftur. Ólafur F. hefur margtönnlast á fylgistölum sínum og sagt að hann njóti stuðnings 10% Reykvíkinga og komi nú flestum sínum málum í gegn. Er eðlilegt að hann komi flestum málum sínum í gegn með slíkar fylgistölur? Er eðlilegt að Sjálfstæðisflokkurinn sem fékk flest atkvæði í borgarstjórnarkosningum lúffi með sín mál fyrir manninum sem fékk 10%, bara fyrir völd?

Nei, þetta er allt saman fullkomlega óeðlilegt og Spaugstofuþátturinn á laugardaginn var eins og blásaklaust lítið barn við hliðina á skrípaleiknum í borgarstjórn Reykjavíkur.

föstudagur, 25. janúar 2008

Yfir getu

Um daginn sagði einhver, minnir að það hafi verið einn íþróttafréttamanna Sjónvarpsins ,að handboltalandsliðið hefði spilað yfir getu á móti Frökkum á HM í fyrra þegar þeir jörðuðu þá. Ég hef heyrt fleiri nota þetta orðalag áður.

Hvernig er hægt að spila eða standa sig yfir getu? Það sem menn gera er væntanlega það sem þeir geta.

Hvernig hljómar þetta...

  • Bílasalinn: "Hér er ég með eldgamla handónýta bíldruslu, en stundum skilar vélin afköstum yfir getu og þá er þetta þvílíkur eðalvagn!"
  • Námsmaðurinn fer ólesinn í próf, kann ekkert en stendur sig síðan yfir getu og fær 10.
...?

þriðjudagur, 22. janúar 2008

Borgarstjórnarleikhúsið

Í ljósi nýjasta útspils í borgarstjórn Reykjavíkur er ljóst hvaða aðferð er rökkréttast að nota við næstu borgarstjórnarkosningar. Kjósandi mætir á kjörstað, þar er bundið fyrir augun á honum og kjörkassinn dreginn fram. Í kjörkassanum eru miðar með ólíkum möguleikum stjórnarsamstarfs. Kjósandi dregur síðan úr kassanum. Eftir þetta er kjósandi leiddur að "lukkuhjólinu" svokallaða, en þar gefur að líta alla mögulega og jafnvel ómögulega borgarstjóra. Kjósandi snýr hjólinu og getur ekki beðið eftir niðurstöðunni...

"Til hamingju! Þú hefur hlotið Vilhjálm sem borgarstjóra! Gangi þér vel, takk fyrir þátttökuna og sjáumst fljótt aftur!"

laugardagur, 19. janúar 2008

Sóðalegir spítalar

Sá á teljari.is að einhver hafði gúglað sóðalegir spítalar án gæsalappa og komið inn á þessa síðu. Kannski vegna þess að skoðun viðkomandi er að spítalar séu sóðalegir. Kannski var hann að rífast við vin sinn um hvort þeir væru sóðalegir eða ekki og staðfesti mál sitt með því að Google gæfi 10 niðurstöður.

Einn kennarinn í skólanum notar frasann "gúgglið þetta bara!" frekar oft, sérstaklega ef hann heldur að nemendur efist eitthvað um það sem hann segir.

fimmtudagur, 17. janúar 2008

Framsóknarárin

Ég glaðvaknaði núna rétt fyrir fimm í morgun og líður eins og ég sé fáránlega vel útsofinn. Mjög einkennilegt, því síðustu tvo daga hef ég sofið yfir mig og misst af fyrstu tímum í tveimur áföngum í skólanum. Hef stillt mig inn á að vakna svona um ellefu í jólafríinu og það reynist nokkuð erfitt að laga svefntímann aftur að skólanum. Jólafríið hefur líka verið svo langt að maður er búin að festa svefnvenjurnar kirfilega inn í kerfið.

Er að lesa blöðin og ég tók eftir tilvitnun í heimasíðu Valgerðar Sverrisdóttur í 24 stundum:

Stöðugleiki framsóknaráranna er horfinn og af lygnum sjá hefur þjóðarskútan nú siglt inn í ólgusjó og veðurspáin er vond. Ólgan sem ríkir meðal landsmanna stafar fyrst og fremst af pólitískum stöðuveitingum sem fóru fram í desembermyrkrinu á meðan jólahlé alþingismanna stóð yfir og annir almennings vegna jólaundirbúnings voru miklar. Sjálfsagt hefur tíminn verið valinn með tilliti til þessa. Sjálfstæðisflokkurinn hefur oft leikið þennan skollaleik með dómskerfið...


Mjög dramtísk lýsing - "stöðugleiki framsóknaráranna", "ólgusjó", "ólgan sem ríkir" "skollaleik". Mér finnst eins og hún sé að lýsa veruleika sem ég kannast ekki við, eins og hún sé í stjórnarandstöðu í Simbabve, ekki á íslandi. Þá gæti hún talað um stöðugleika framsóknaráranna, þarna þegar allt var æðislegt í Simbabve, áður en hin illa þokkaða stjórn Mugabe tók við völdum. Reyndar er stjórnarandstaða ekki leyfð í Simbabve og Framsóknarflokkurinn hefur aldrei haft völd þar, en að öðru leyti er þetta svipað.

Framsóknarflokkurinn datt út úr ríkisstjórn síðasta vor. Átakanlegar lýsingar margra flokksmanna á því hvernig nýrri stjórn hefur tekist að glutra flestu niður sem fyrri stjórn náði fram eru frekar fyndnar.

sunnudagur, 6. janúar 2008

Reyfarakaup

Nýtt samlokugrill var keypt inn á heimilið um daginn. Reyndar var það kallað heilsugrill og á að vera til að grilla kjöt og svoleiðið jukk en hugmyndin er að nota það sem samlokugrill.

Í dag setti ég tvær samlokur í grillið, fór síðan í tölvuna og gleymdi samlokunum. Tíu mínútum seinna mundi ég eftir þeim, bjóst við þeim skaðbrenndum en neinei, þær voru fullkomnar, léttristaðar og osturinn bráðnaður. Grillið er sem sagt gætt þeim eiginleikum að maður getur gleymt brauðinu í án þess að það brennist.

Þetta hljómar næstum of gott til að vera satt, gæti verið vara í Vörutorgi. Hver kannst ekki við að henda brauði í grillið og fara síðan í vinnuna, koma heim og þá er íbúðin brunnin til grunna? Nú er þetta vandamál úr sögunni með nýja NO-FIRE 3000 - grillinu!