þriðjudagur, 23. desember 2003

Láki karlinn, lakkrístoppar og undarlegir draumar

Í dag fögnum við Láka, Þorláki biskupi eða eitthvað svoleiðis. Ég vaknaði við það í morgun að mamma bankaði á dyrnar og lamdi mig síðan með kústi og sagði "Farðu nú að baka, letinginn þinn!". Nei, ég er að plata. Mamma var samt búinn að segja mér að baka og nú á ég semsagt að fara að baka nýjustu sérgrein mína, lakkrístoppa. Það var eins og við manninn mælt og ég sit hérna við tölvuna með skræpótta svuntu sem saumaði einhvern tímann í handmenntatíma í Heiðarskóla. Mamma er bara í vinnunni en ég á að baka.

Um daginn dreymdi mig að sá hluti skólans sem nú er Fjósið væri orðinn að risastórri höll og í sama draumi datt ég um snjóskafl sem Hannes portner hafði gleymt að moka. Gaman að því. Í nótt dreymdi mig svo að ég var að labba í skólann. Hljómskálagarðurinn hafði teygst yfir mun stærra svæði en hann er á í raun. Ég labbaði inn í nýjan hluta Hljómskálagarðsins og þar var allt vaðandi eiturslöngum sem reyndu að glefsa í mig. Ég vona að mig dreymi skólann ekki næst.

Ég ætla að hætta skrifum hér út janúar 2004. Kannski skrifa gestaritarar á meðan.

Gleðileg jól.

sunnudagur, 21. desember 2003

Jól hjá Lalla Johns og klapp í bíó

Finlandia pela faldi ég niðri í bæ áður en ég fór á jólaballið. Hann var horfinn þegar ég ætlaði að sækja hann tveimur dögum síðar. Það mætti segja mér að Lalli Johns hafi verið fljótur að finna gripinn. Hann getur þá haldið jól, karlinn.

Ég fór á Return of the King í gærkvöldi, Versló/MR- forsýningu. Mikil eftirvænting var í lofti og heppni að enginn tróðst undir í atgangnum. Það fer í taugarnar á mér þegar fólk klappar í bíó. Til hvers að klappa? Það er allt annað að klappa í leikhúsi, þannig eru leikararnir látnir vita að áhorfendur kunnu að meta sýninguna. Allar myndir sem ekki er klappað fyrir verða teknar úr bíó. "Þetta er greinilega ekkert vinsæl mynd, það klappaði enginn. Það þýðir ekkert að sýna hana lengur.". Kannski hringdu starfsmenn Laugarásbíós í leikstjórann, Peter Jackson: "Hi Peter, I'm calling from Laugarásbíó in Iceland. We just wanted to let you know that the people here who saw your film clapped their hands. Yes, your film is obviously popular here in Iceland. I think you should make more films."

"If you're happy and you know it, clap your hands!" eins og segir í söngnum. Ég held að þessi lína hljóti að vera mottó þessara vitleysinga, sem klappa í bíó.

Myndin var góð hvað sem öðru líður en ég leyfði mér ekki þann munað að klappa fyrir henni, þrátt fyrir það.

miðvikudagur, 17. desember 2003

Vantar miða á jólaball

Ég fékk ekki miða á jólaballið. Það hefur aldrei verið nein voðaleg stemning fyrir þessum jólaböllum fyrr en allt í einu núna. Það seldist upp. Einn Skólafélagsstjórnenda sagði mér í fyrradag að nóg af miðum yrði eftir daginn eftir, þ.e. í gær. En þegar ég ætlaði að kaupa var uppselt. Uppselt á jólaball MR . Ég hef sjaldan heyrt annað eins rugl.

Ef einhver getur reddað mér miða má hann endilega láta mig vita.

mánudagur, 15. desember 2003

Enn eitt drottningarviðtalið við Davíð

Af hverju í ósköpunum getur Davíð Oddsson aldrei mætt andstæðingum sínum í stjórnmálum í umræðuþáttum? Það er vægast sagt óþolandi. Hann var í Kastljósinu í kvöld. Þar talaði hann í landsföðurlegum umvöndunartón. Í þessum drottningarviðtölum hljómar alltaf eins og einhvers konar dáleiðsla fari fram. Viti menn, það virkar, Davíð hefur dáleitt þjóðina ár eftir ár.

Þar sem forsætisráðherra virðist ekki vilja mæta andstæðingum sínum í svona viðtölum er rosalega mikilvægt að umsjónarmenn þáttanna séu beinskeyttir og láti hann ekki komast upp með neitt múður. Hvað það varðar eru umsjónarmennirnir sem sáu um Kastljósið í kvöld andstæður. Kristján Kristjánsson klappaði Davíð á kollinn ef svo má að orði komast en Sigmar Guðmundsson lét karlinn svara fyrir sig og var langt um beinskeyttari en sá fyrrnefndi.

Davíð stóðst ekki mátið að skamma Sigmar fyrir að túlka sín orð. Þó virtist túlkun Sigmars vera nákvæmlega það sem fólst í orðum Davíðs en það vildi hann ekki viðurkenna. Davíð talaði um að honum þætti ósanngjarnt að hann mætti ekki lýsa sínum skoðunum (sbr. þegar hann lokaði reikningi sínum í Búnaðarbanka á dögunum og lét alþjóð vita og hvatti hana til að gera slíkt hið sama) eins og aðrir. Davíð virðist halda að hann geti flakkað milli þess eins og hann lystir að vera forsætisráðherrann Davíð og þess að vera hinn almenni borgari Davíð. Fyrirkomulagið er hins vegar ekki þannig. Davíð getur ekki tjáð sig opinberlega um pólitísk mál sem hinn almenni borgari Davíð. Hann er forsætisráðherra og verður að taka allri ábyrgð sem því fylgir.

Uppskrift dagsins

Efnafræðiprófsundirbúningur Guðmundar
Innihald:
1 og 1/2 bolli rækjur.
2 msk smjörlíki.
Efnafræðibók á stærð við símaskrá.
blaðabunki.
3 grófar brauðsneiðar.
5 bollar kók.

Aðferð:Hrærið öllu saman í graut og látið gerjast í hálfa klukkustund. Setjið síðan í ofninn og látið bakast í fjóra og hálfan til fimm klukkutíma. Verði ykkur að góðu!

laugardagur, 13. desember 2003

Pub quiz á Grandrokk

Ég prófaði pub quiz á Grandrokk í fyrsta sinn í gær. Spurningarnar voru fjári erfiðar. Þrjátíu stykki og mikill meirihluti um landafræði og það var ekki létt landafræði. M.a. var landafræðispurning þar sem svarið var Reykjanestá. Ég og samherji minn, Villi, náðum 10 réttum af 30 en sigurvegararnir 18 af 30.

Ég var að uppgötva hryllilega villu hjá mér á líffræðiprófinu. Það má eiginlega segja að ég hafi ruglað saman húð og laufblaði, því ég sagði að stafvefur og svampvefur væru í húð. Þeir munu hins vegar vera í laufblaði. Ég er létt hræddur um fall á líffræði, sem væri mjög skammarlegt. Ég var bara kominn með svo mikinn skóla- og prófleiða að ég nennti nánast ekkert að læra fyrir líffræðina. Líffræðibókin er líka hundleiðinleg, og enn leiðinlegri í annað skipti. En ég læt þetta ekki koma fyrir aftur og ætla að læra mjög vel fyrir efnafræðina á mánudag.

Eigendur Mama's Tacos eru ekki allir þar sem þeir eru séðir ef marka má Frikka. Ég hvet alla til að lesa þetta.

föstudagur, 12. desember 2003

Litli surtur - "svo mörg voru þau orð"

Ég fór í líffræðipróf í dag. Gekk sæmilega. Síðan fór ég ásamt Pjakki og Garcia á Alþingi og fylgdist með. Þar var einhver gaur sem blaðraði í tæpan klukkutíma og var alveg komið að því að forseti Alþingis, Halldór Blöndal, segði honum að þegja. Það hefði verið ærin ástæða til. Maðurinn röflaði og röflaði og vitnaði í Fréttablaðið fram og aftur. Þingfundur hófst á því að atkvæði voru greidd um ýmis frumvörp. Svo tilkynnti Blöndal að komið væri að umræðu um sjávarútvegsmál og þá fækkaði um næstum fimmtíu manns í salnum. Svo byrjaði karlinn að röfla og við skildum hvers vegna allir fóru. Hressandi. Þegar karlinn var rúmlega hálfnaður með ræðuna sagði hann "svo mörg voru þau orð" en ræðan var aldeilis ekki búin, hún var í korter í viðbót. Annars verð ég að játa það að Alþingi er alls ekki jafn leiðinlegt þegar maður sér það á staðnum eins og það virðist í Sjónvarpinu, en það var samt nokkuð leiðinlegt. Maður missir af hressilegum framíköllum og hinu og þessu smálegu sem maður tekur eftir á staðnum. Gunnar Birgisson sá sér meira að segja fært að mæta seint og um síðir.

Í spænskubók sem kennd er við MR er þýðing á einhverju spænsku orði: indjánastrákur, litli surtur.

Spurning hvort þar séu fordómar á ferð.

fimmtudagur, 11. desember 2003

Öryrki hlunnfarinn af Strætó bs.

Það er frétt í Fréttablaðinu í dag um öryrkja sem telur sig hafa verið hlunnfarinn um þúsund kall af Strætó bs. Maðurinn, sem greindist nýlega með alvarlegan sjúkdóm, framvísaði bráðabirgðaskírteini frá Tryggingastofnun er hann hugðist kaupa afsláttarmiða fyrir öryrkja í strætó. Honum var sagt að ekki væri hægt að veita afslátt út á skírteini án myndar. Maðurinn borgaði því fullt verð. Hann sendi forsvarsmönnum strætó tölvupóst og vildi fá sinn þúsundkall endurgreiddan þegar hann yrði kominn með skírteini með mynd. Einnig kemur fram að maðurinn telur sig sannanlega eiga rétt á endurgreiðslu en fær ekki. Hann segir það sýna helst hversu miklum fjárhagskröggum Strætó bs. sé í.

Er þetta ekki aðeins yfir strikið, að hlaupa í blöðin út af skitnum þúsundkalli, sem maðurinn telur sig eiga rétt á? Reglurnar um öryrkjamiða voru hertar vegna þess að algengt var að fólk svindlaði á þessu. Getur maðurinn ekki bara sætt sig við það. Sýnir þetta ekki bara hvað þessi maður er smásmugulegur? Kannski er hann sjálfur í svo miklum fjárhagskröggum að hann getur ekki séð af þúsundkalli.

Fréttablaðið hefði mátt sjá sóma sinn í því að birta ekki svona lélega frétt.

miðvikudagur, 10. desember 2003

Tónleikar Muse

Tónleikarnir voru fínir. Lítið súrefni og mikið af skrýtnu fólki.

Veðurfræðingagrín eins og það gerist best í Kastljósinu á RÚV

Í gær var besti Kastljósþáttur í manna minnum eins og maðurinn sagði. Þar voru saman komnir tveir leikandi hressir veðurfræðingar, þeir Haraldur Ólafsson, veðurfréttamaður á RÚV og Sigurður Þ. Ragnarsson eða Siggi stormur af Stöð 2. Fóru þeir með gamanmál eins og veðurfræðingum einum er lagið og veðurfræðihúmor fékk að njóta sín. Haraldur sagði t.d. hlæjandi frá því hvað hann segði við útlendinga sem hringdu í hann til að fá vitneskju um veður í Bláa lóninu 10. júní. Hann sagði að staðlað svar við þeirri spurningu væri "tíu stiga hiti og skúrir" og svo hlógu þeir félagarnir allhressilega að þessu frábæra veðurfræðigríni. Áhorfendur heima í stofu hafa ekki getað annað en haft gaman að þessu, slík snilld var þetta. Það er ekki spurning að það ætti að fá þessa menn í að halda veðpurfræðiuppistandsþætti í hverri viku. Besta Kastljós frá upphafi, segi og skrifa. Meira svona.

Hressandi Muse á eftir. Vonandi verður það ekki til þess að ég skíti upp á bak í frönskuprófinu á morgun.

þriðjudagur, 9. desember 2003

Kínverski bardagalistar- og veðmálaþátturinn Banzai

Það er þáttur á Skjá Einum þessa dagana sem heitir Banzai. Kínverjar sem telja sig mjög sniðuga sjá um þáttinn. Gallinn er sá að þeir eru ekkert sniðugir. Í þættinum er áhorfendum uppálagt að veðja á einhverja heimskulega hluti sem þáttastjórnendur skipuleggja. Þessi þáttur er eins og lélegt gamanefni frá fæðingarári mínu, 1985. Ég vona að fólk almennt hafi aldrei skemmt sig með því að horfa á þetta fjárans sorp.

Uss, ólesin stærðfræði

Uss, ólesin stæ. gekk verr en sú lesna. En ég hlýt nú samt að ná, ha? Ég byrjaði illa og stressaðist við það en ég vonast til að skella fimmu á þetta kvikindi. Allt undir því væri ótækt. Prófið var ekki alveg jafn svínslegt og jólaprófið í fyrra sem felldi 60% nemenda 4.bekkjar á jólum, sem er mikið.

mánudagur, 8. desember 2003

Lesið stærðfræðijólapróf

Í dag fór ég í lesið stærðfræðipróf. Ég rúllaði því inn um hægri nösina og snýtti því út um þá vinstri.

laugardagur, 6. desember 2003

Ummæli Guðna Ágústssonar

Ég er ekki frá því að Guðni Ágústsson ætti að segja af sér eftir vægast sagt fáránleg ummæli hans til öryrkja úr ræðustól á Alþingi.

fimmtudagur, 4. desember 2003

Skotárás

Það ætti að skjóta þetta lið sem er að skjóta upp flugeldum núna eða bara höggva af því hendur og fætur eða hálshöggva það með bitlausri öxi eða láta varða skóggang og útskúfa því ævilangt úr samfélaginu (afsakið svæsnar hugmyndir, ég var í söguprófi og dettur þess vegna ekkert í hug nema gamaldags refsingaraðferðir). Það eru ekki komin áramót. Það ætti endilega að finna sér eitthvað betra að gera, þetta lið, blogga eða læra fyrir próf eða drekka kakó. Hljómar vel.

Dönskupróf eru fyrir aumingja

þriðjudagur, 2. desember 2003

Ól

Ari sá sól. Lási á lás. Sísí saumar húfu. Lóa sá Ása í rólu. Haltu kjafti.

Nú er hafið upplestrarfrí hjá mér. Þess vegna ætla ég að taka mér frí í viku og vera fullur. Nei. Sögupróf er fyrsta prófið. Ég stefni á átta í meðaleinkunn núna. Kannski ekki raunhæft markmið en það er alveg sama.

mánudagur, 1. desember 2003

Sækið þetta lag

Sækið lagið Damage the Dark með Moonstyx. Annars eruð þið hrímþursar. Hægrismellið og veljið Save Target As...

Draumadeildin.is. Ég er með 3 lið þar, tvö sem ég uppfæri, eitt liðið heitir Danmörk og það er alveg í skítnum í 1184. sæti með 83 stig. Síðan er ég með lið sem heitir Ipraks og er í 531. sæti með 106 stig. Þriðja liðið er Leifur heppni sem er í 1346. sæti með 76 stig. Þetta voru gagnslausar upplýsingar dagsins. Ég þakka þeim sem hlýddu.

sunnudagur, 30. nóvember 2003

Tilmæli til Sjónvarpsins

Ég beini þessum tilmælum til Sjónvarpsins:
Hættið að sýna Spaugstofuna. Hættið að sýna þátt Gísla Marteins eða fáið nýjan umsjónarmann.

Það vill svo til að þessir tveir grátlegu þættir mældust þeir áhorfshæstu í nýjustu fjölmiðlakönnun Gallup. Ég held að ástæðan fyrir áhorfinu á Spaugstofuna sé sú að fólk sest niður við skjáinn að horfa á hana af gömlum vana, ekki er það vegna þess að hún sé skemmtileg eða frumleg á nokkurn hátt. Þetta er orðinn algjör hryllingur á að horfa, allt er fyrirsjáanlegt og ófrumlegt sem þeir gera. Hér með er ég hættur að horfa á þáttinn þrátt fyrir að það sé gamall vani.

laugardagur, 29. nóvember 2003

Mystic River

Ég sá Mystic River í Háskólabíói í gær. Það er hörkumynd sem Clint Eastwood leikstýrir. Ummæli úr myndinni: "...scarier than a glass of milk". Góð ummæli.
Einkunn:fjórar stjörnur af fimm.

föstudagur, 28. nóvember 2003

Peningar vaxa ekki á trjám, þeir liggja í bönkum

Í dag var ég í skólanum. Jósep var líka mættur, ferskur. En í dag var Jósep blankur og gat ekki keypt neitt að éta. Hann sagðist ekki eiga eyri. En þó ákvað hann að gá í Íslandsbanka hvort hann ætti ekki eitthvað. Hann fór til gjaldkerans og kom síðan skælbrosandi til baka með 200 krónur og hafði tæmt reikninginn. Það þótti mér skemmtilegt. Svo sagði hann "Komdu í Landsbankann, ég ætla að athuga hvort ég eigi ekki fyrir kóki líka". Við héldum í Landsbankann og Jósep var orðinn aldeilis vongóður eftir happafundinn í Íslandsbanka. Viti menn! Hann tæmdi reikning númer tvö þennan daginn og þar var að finna tíu sinnum meira en í Íslandsbanka, 2000 kall. Nú átti Jósep allt í einu fyrir hamborgara og að minnsta kosti tíu kókdósum. Hann á reikning í öllum bönkunum. Það finnst mér afar hressandi. Gott að geta fundið 20 kalla eða jafnvel 2000 kalla svona hér og þar.

fimmtudagur, 27. nóvember 2003

Sacha Baron Cohen

Ótrúlegur snillingur, hann Sacha. Fyrsti þátturinn í nýrri seríu af Ali G var í Sjónvarpinu í kvöld. Besta persónan í þættinum er Borat frá austurlöndum fjær. Mig verkjaði í magann af hlátri þegar ég sá Borat-hornið núna þar sem hann skellti sér í stefnumótaþjónustu í Bandaríkjunum. Ali G er mögnuð persóna, líka nýjasta persónan, þýski hominn, en það toppar engin Borat hinn austurlenska. Sacha er aldeilis að gera góða hluti.

Fyrst ég er að tala um snillinga er ekki úr vegi að nefna það að Hallgrímur Helgason er líka snillingur.

Jóladagatalið Klængur sniðugi

Mér líst aldeilis vel á jóladagatal Sjónvarpsins þetta árið, Klængur sniðugi verður endursýndur. Þá get ég rifjað upp bæinn þar sem hjól atvinnulífsins höfðu stövast og ódauðlegar persónur eins og kærustu Klængs, Lovísu með lærin þykku. Þetta er frábært jóladagatal og ekki síður fyrir fullorðna en börn.

miðvikudagur, 26. nóvember 2003

Hungrið sækir að

Ég var rosalega svangur áðan. Ég opnaði ísskápinn. Þar var að finna risastóran, hálfan lauk í skál, tvo eða þrjá ostenda, feta-ost í krukku, grænt fóður í poka og fullt af döllum með afgöngum sem enginn kunni skil á. Ég var þá ekkert svo svangur eftir allt saman.

mánudagur, 24. nóvember 2003

Dyraprangarar og sölumenn

Dyraprangarar er svona lið sem labbar í hús og reynir að selja fólki eitthvað. Þegar jól nálgast fyllist allt af dyrapröngurum, þeir vakna úr dvala. Allt í einu vantar alla pening "Við erum að selja jólakort til styrktar ABC hjálparstarfi", "Fallegir skrautmunir til styrktar Krabbameinsfélaginu", "Ég er hérna frá körfuknattleiksdeild ÍR, við erum að safna fyrir...." "Við erum að selja smákökur til styrktar kvenfélaginu Málfríður". Í guðanna bænum. Það er voðalega vinsælt að senda krakka í svona. Skipuleggjendur safnananna kunna öll brögðin, senda krakkana því fólk á erfiðara með að segja nei við þá. Svo koma þessir safnarar voðalega oft á kvöldmatartíma. Ég man þegar ég var yngri og þurfti að safna fyrir fótboltann, mér var alltaf illa við að fara svona í hús og selja fólki eitthvað drasl. Það eru svo mikil leiðindi, að angra fólk til að reyna að pranga einhverju drasli inn á það.

Það kemur nú samt fyrir að safnanir séu styrktar á mínu heimili.

Símaprangarar fara líka allir á stjá um jólaleytið til að bæta gráu ofan á svart.

Davíð segir, Davíð segir...

Davíð Oddsson er nú varla í stöðu til þess að segja fólki hvar það á að geyma peningana sína og hvar ekki. Þetta er þó að sjálfsögðu ömurlegur samningur sem stjórnendur Búnaðarbankans hafa samið handa sjálfum sér til að gera sig ríkari.

En eru hinir bankarnir nokkuð betri? Á ekki bara eftir að koma upp um þá?

sunnudagur, 23. nóvember 2003

Greinilega gaman í Fólk með Sirrý

Myndirnar bera það með sér að það hefur verið fjör í MR hópferð í Fólk með Sirý.

Sjitt hvað Bachelor er lélegur þáttur.

laugardagur, 22. nóvember 2003

Rauðhært fólk í útrýmingarhættu!

Nú voru vísindamenn að gera uppgötvun og það enga smá uppgötvun; rauðhært fólk er í útrýmingarhættu! Það stóð í Fréttablaðinu í dag. Það verður að grípa til aðgerða til að vernda rauðhærðu tegundina, ekki má hún deyja út eins og geirfuglinn. Það ætti að búa til rauðhærðranýlendur og láta rauðhærða kynstofninn fjölga sér rækilega, svo hann geti tekið yfir heiminn að lokum. Rauðhærðir geta ekki setið undir slíku. Allir rauðhærðir sameinist og nái alheimsvöldum. Það er verðugt markmið.

Þess má til gamans geta að ég er ekki rauðhærður svo mín tegund er ekki í útrýmingarhættu.

Gaman að því hvað vísindamenn eru oft að rannsaka mekilega hluti og gera merkilegar uppgötvanir. Ég sá um daginn að nýjar rannsóknir sýna að einn kakóbolli á dag er hollur því hann inniheldur svo mikið af andoxunarefnum. Já, já.

Kýpur eða Króatía

Menn eru ekki á eitt sammála um hvert skuli fara í útskriftarferð 5. bekkinga næsta sumar. Það er búið að kjósa. Kýpur hafði betur en Króatía. Mikilla fordóma gætir hjá sumu fólki varðandi Króatíuhugmyndina og er það í flestum tilfellum vegna fáfræði. Mörgum finnst hallærislegt að fara í útskriftarferð til Króatíu. Þó eru ótvíræðir kostir við það, t.d. hagstæðara verðlag og minni hiti (25 stig að meðaltali) auk þess sem ferðin þangað kostar 80 þúsund en Kýpurferðin 105 þúsund og munar um minna. Hins vegar hef ég heyrt frá fylgismönnum Kýpur að í smábænum sem stendur til boða í Króatíu þurfi allt að vera með kyrrum kjörum eftir miðnætti, annars grípi lögreglan inn í. Ef það er rétt er það verulegur galli á Króatíuferðinni. Í Kýpurferðinni fylgir ferð til Egyptalands sem hljómar afar spennandi.

Ég mætti ekki á fund um ferðina en er svona á báðum áttum. Eitt er þó alveg á hreinu, það eru voðalegir fordómar um Króatíuferðina sem ég efast um að eigi rétt á sér. Annars fer ég, fallisitinn, væntanlega aftur í útskriftarferð að ári, kannski verður þá farið til Króatíu.

fimmtudagur, 20. nóvember 2003

Oxidation reduction reaction

Frekar leiðinlegt að vera með efnafræðibók á stærð við símaskrá. Ekki bætir úr skák að kvikindið er á ensku, með fræðiheitum flæðandi um allt. Með bókinni fylgir "gagnvirka efnið", ýmsar skýringarmyndir á ensku auðvitað og leyfi ég mér að efast um gæði þess. Skýringamyndir í bókinni eru þó góðar.

Uppistand á Nasa

Fór á Nasa í gær á uppistand. 6 menn héldu uppistand og voru þeir misgóðir eins og augljóst má vera:
Fyrsti, minnir að hann hafi heitið Guðjón var ágætur, átti góða spretti en datt líka niður í rugl.
Einkunn:þrjár og hálf stjarna af fimm.

Annar var Haukur í horni eða Haukur Sig. sem var á Skjá einum. Ég bjóst alls ekki við miklu af þeim manni. Hann stóð sig hins vegar svona þokkalega, en datt niður í óttalega meðalmennsku á köflum.
Einkunn:þrjár stjörnur.

Þriðji var Böðvar Bergsson. Ég hafði aldrei heyrt um hann áður og vissi því ekkert við hverju skyldi búast. Hann kom virkilega ferskur inn, var góð eftirherma og var hnyttinn. Hann var hins vegar með slappt lokaatriði.
Einkunn:fjórar stjörnur.

Fjórði var Bjarni töframaður. Hann var bara alveg helvíti þéttur og kom mjög sterkur inn. Sýndi töfrabrögð og náði bullandi stemningu í salinn þegar hann dró upp gítarinn og spilaði ýmis lög. Ég sprakk úr hlátri þegar hann dró upp pirrandi ýluflautu sem hann líkti við fyrrum konu sína og drekkti síðan flautunni í vatnskönnu. Hljómar kannski kvikindislegt en þetta var drepfyndið.
Einkunn:fjórar og hálf stjarna af fimm.

Fimmti var Sveinn Waage. Hann er á rangri hillu, það er ljóst. Ekki var hann beinlínis frumlegur þegar hann hóf að leika norðmenn og svía og síðan skota. Alltaf þessi smáborgaraháttur íslendinga að gera grín að tungumálum annara þjóða, hafandi ekkert efni á því. Það er pottþétt skellihlegið að íslensku í Japan, vinsælt að leika íslending á uppistöndum þar í landi. Svo tók hann Árna Johnsen fyrir og lýsti öllum hörmungum sem höfðu dunið yfir Vestmannaeyjar í gegnum tíðina. Eins og ég segi, maðurinn er á rangri hillu, ætti að fara að syngja í einhverri hnakkahljómsveit eða eitthvað.
Einkunn:Tvær stjörnur.

Uppistandarinn 2003, Steinn Ármann Magnússon, olli vonbrigðum. Tók gamlan mann úti í sal fyrir sem var ekkert fyndið. Átti þó góðar rispur. Gerði grín að Sveini Waage og Bjarna töframanni. Sveinn átti það alveg skilið en ekki töframaðurinn.
Einkunn:þrjár og hálf stjarna af fimm.

þriðjudagur, 18. nóvember 2003

101 Reykjavík og Spaugstofan

Ég horfði á 101 Reykjavík á sunnudaginn í annað skipti. Ég er ekki frá því að það sé næstbesta íslenska kvikmynd sem gerð hefur verið. Góðar vangaveltur hjá aðalpersónunni.
***
Það virðist vera í tísku að segja að Spaugstofan sé ömurleg. Samt held ég að það sé ennþá sá þáttur sem flestir horfa á skv. könnunum. Mér fannst Spaugstofumenn koma mjög ferskir inn með tvo fyrstu þætti sína þennan veturinn. Síðan er eins og allt hafi bara fjarað út. Síðasti þáttur var t.d. alveg glataður. Það voru tvö, þrjú atriði með ágætis ádeilu en ég hló ekki í eitt einasta skipti að þessum þætti. Það er eins og þeir séu bara alveg útbrunnir, grey karlarnir. Þeir hafa oft sýnt það að þeir geta gert gott grín. Þessi karlakórsatriði þeirra hafa alltaf verið hundleiðinleg og svo eru þessi nýju læknastofuatriði alltaf alveg drulluslöpp. Svo ekki sé minnst á gaurinn sem kemur alltaf í öryggismyndavélar og talar um samsæri hér og þar. En ekki er allt slæmt. Ég hló til dæmis að því um daginn þegar Dabbi kóngur, Halldór Ásgrímsson og Björn Bjarna komu eins og hálfvitar baulandi Muuu! eins og í mjólkurauglýsingunni og síðan kom "mu-mu-mu-mundu ekki eftir kosningaloforðunum!". Það var þokkalegt. En þegar á heildina er litið er þátturinn slappur. Þeir piltar ættu að fara að rífa sig upp á rassgatinu og gera eitthvað almennilegt og hætta í meðalmennsku og leiðindum sem þeir hafa færst í á síðari árum.

mánudagur, 17. nóvember 2003

Jólaafurðir og listsköpun Árna Johnsen

Það er strax búið að skreyta miðbæinn, Kringluna, Smáralind og fleiri staði með jólaskreytingum. Ótímabær jólaasi er óþolandi. Engin ástæða að huga að jólum fyrr en í fyrsta lagi í byrjun desember. Réttast væri að safna liði og rífa þetta allt saman niður. En nóg um það. Um hver jól fer Mjólkursamsalan í jólaskapið. Þá er hægt að kaupa Jólajógúrt, Jóla-Engjaþykkni, Jólaskyr og annan varning af sama tagi. Þá er hins vegar ekki hægt að kaupa bara venjulega Engjaþykknið og skyrið. Það sem þessar jólavörur eiga sameiginlegt er að það er búið að bæta sykri í þær. Namm! Venjulegt skyr sem búið er að bæta sykri, sultu og karamellubragði við. Hver fúlsar við því? Eða Engjaþykkni með súkkulaðihrískúlum og hnausæþykkri marsípanbráð. Þið getið ekki sagt nei. Mamma keypti mjólk áðan, léttmGLEÐILEGjólk. Það stóð í alvöru utan á mjólkinni. Ég vona að það sé ekki búið að hræra sultu og flórsykri út í léttmjólkina mína út af jólunum. SKO! Það eru jól, þá verður allt að vera "jóla" og með viðbótarskammti af sætindum. En það eru fleiri sem fylgja fordæmi Mjólkursamsölunnar og hafa vörur sínar sykurbættar í tilefni jólanna, jólakex með auka súkkulaðimolum og svona hitt og þetta. Ég bíð spenntur eftir stökkum frískandi jólasveppum, húðuðum með karamellu og kókosmjöli og hunangsfylltum jólapaprikum skreyttum með glassúr og marengs í verslunum. Mamma mia! Ég fæ vatn í munninn við tilhugsunina. Eða þannig. Þótt jólin séu að ganga í garð þurfa matvælaframleiðendur ekki að sleppa sér alveg í sykurbættum jólavörum. Ég vil bara mitt venjulega skyr og daglega brauð.
***
Árni Johnsen er bara kominn út af Kvíabryggju og farinn að afhjúpa listaverk. Það sem er svo skemmtilegt við þetta er að fólk kaupir eflaust listaverk eftir Árna dýrum dómum bara af því að þau eru eftir hann, frægan manninn. Það er alveg stórmerkilegt að hann sé strax kominn út, eftir eitt ár í fangelsi, miðað við brot hans. En hann fer reyndar á eitthvað áfangaheimili til að byrja með.

Leiðrétting

Það var misskilningur að bannað væri að diffra fasta eins og sagði í færslu hér frá 15. nóvember 2004. Darri mun hins vegar hafa fullyrt að bannað væri að diffra fasta einhvern tímann og það er ástæða þess að hann átti að verða lukkudýr félagsins og fá bol með setningunni "Það er bannað að diffra fasta". Diffrun er grafalvarlegt mál og harma ég þessi mistök. Það skal því vera ljóst hér eftir að öllum er heimilt að diffra fasta.
***
Í dag skrópaði ég í tíma til að spila Catan landnemaspilið. Annað skróp mitt það sem af er skólaárinu. "Þetta gengur ekki, Guðmundur minn!" segir amma og hlær hrossahlátri.
***
Sólbjartskeppni áðan þar sem 5.X mætti 4.S. Ég var tímavörður. 5.X marði sigur í keppni þar sem rúm 80 refsistig voru gefin. Dregið var á aðra umferð, minn bekkur, 4.R mætir 4.Z. Ég er ekkert of bjartsýnn á þá keppni því 4.Z teflir fram mönnum á borð við Ragnar Jón og Helga Egils sem eru alls ekki af verri endanum. Lið 4.R er aftur á móti skipað óttalegum nýgræðingum þótt einn liðsmaður hafi keppt í Sólbjarti í fyrra.

sunnudagur, 16. nóvember 2003

Karlinn

Bara ferskur eins og alltaf:

Stofnfundur diffurfélagsins Fasta

Diffurfélagið Fasti hélt stofnfund sinn á föstudaginn á heimili Ásgeirs Birkissonar. Þar voru mættir Ásgeir, Darri, Grettir, Villi Alvar, Tomasz, Henriqe og svo mætti ég líka. Vonbrigði fundarins voru að heiðursforsetinn sjálfur, Höskuldur diffurmeistari, mætti ekki. Það sem ég lærði á þessum fyrsta fundi var að það er bannað að diffra fasta. Reglur diffurfélagsins voru samdar og ritaðar á fundinum þegar menn höfðu drukkið næglegt magn af öli. Mig minnir að ein reglan hafi fjallað um að engir máladeildarþursar væru leyfðir í félaginu. En margar reglurnar voru mjög skemmtilegar. Írskir drykkjusöngvar voru í hávegum hafðir og einhverjir spiluðu Catan. Uss.

Svo var bjórkvöld MH á la Café. Ýmsir voru hressir. Já, hvað þykist þessi trúbador sem spilar í Austurstræti um hverja helgi vera? Hann spilar næstum alltaf sama lagið og ég held að hann kunni bara eina línu í því lagi. Við höfum nokkrum sinnum beðið hann að spila einhver önnur lög, eitthvað með Megasi eða einhverja aðra þekkta gítarslagara en hann reynir alltaf bara að snúa því upp í grín "Ha? Það kostar að minnsta kosti 35 þúsund kall". Alveg svakalegur, karlinn.

Í gær var síðan bjórkvöld MR í Hafnarfirði og þar var ekki alveg nógu góð stemning. Hefði mátt vera betra. En maður spyr sig; má þetta?

laugardagur, 15. nóvember 2003

Faxe ekki lengur ódýrasti bjórinn

Þessi nýi Egils Pilsner 4,5% er ódýrasti bjórinn í ÁTVR núna, 900 kall kippan. Ég fékk mér slíkan í gær og bragðið var alls ekki svo slæmt.

föstudagur, 14. nóvember 2003

Gat farið á ball en fór á bingó

Ég var fram úr hófi sorglegur í gær, gat farið á ball en fór á bingó. Ég er bara að verða eins og versti gamlingi. Ég var búinn að ákveða fyrir löngu að fara á '85-ball MS en nei, nei, ég fékk ekki miða, þeir voru akkúrat nýbúnir þannig að ég fór á bingó í MR í staðinn. Sorglegt. Svo vann ég ekki rassgat. Ég vann hvorki eitt eða neitt en sóaði 300 kalli. Í dag var ég síðan bara ferskur á meðan bekkjarsystur mínar sem fóru á ballið mættu í skólann í tómu tjóni.
***
Nokkrir hlutir fara ósegjanlega í taugarnar á mér þessa dagana, m.a:
-Á hverjum einasta degi er fólk í skólanum að flauta lagið úr Kill Bill og er það vægast sagt orðið þreytandi. Það var flott tónlist í þessari mynd og allt það en í guðanna bænum ekki nauðga þessu flautlagi svona rosalega. Næst þegar ég heyri einhvern flauta þetta fer ég að beita Gestapo aðferðum á viðkomandi eða bara bít hann á barkann. Já, já, maður er nú úr Breiðholtinu, kann öll bolabrögðin. Maður mætir á æfingar niðri á Select í hverri viku og fagmenn kenna manni að slást. Er það ekki? Nei, kannski er ég eitthvað að rugla.
-Það er búið að ofspila lagið Stockholm Syndrome með Muse. Óþolandi þegar góð lög eru ofspiluð og skemmd þannig.
***
Ha ha ha! Ég fékk miða á Muse. Ég og Sepinn mættum blindfullir niður í Skífuna á Laugavegi klukkan að verða ellefu í morgun. Þar mætti okkur skilti sem á stóð "UPPSELT". Þar mætti okkur líka maður sem sagði "uppselt". Við dóum ekki ráðalausir og Jósep reddaði miðum með símtali við systur sína í Smáralind. Þannig að ég fer á Muse sem er mjög gott. Frönskupróf daginn eftir en maður skallar það bara.
...og nei við vorum ekki blindfullir klukkan ellefu í morgun í alvöru. Þetta var plat.
***

Þetta var föstudagsfærslan. Þær verða stundum ansi flippaðar.

fimmtudagur, 13. nóvember 2003

Hver samdi handritið að þessum draumi?

Mig dreymdi verulega súran draum um daginn. Ég sagði Haraldi frá honum og þótti honum draumurinn ansi forvitnilegur og hvatti mig til að birta hann á veraladarvefnum. Ég birti því þennan draum þrátt fyrir að hann hafi verið absúrd:
"Draumurinn"/martröðin byrjaði þannig að ég var staddur í Bláa sal Verzlunarskóla Íslands og var að keppa í MORFÍS á móti MH held ég. Það var komið vel fram í miðja keppni og einn ræðumanna MH var næstur í pontu. Ég tók eftir því að um leið og hún steig í pontu steig einhver gaur úti í sal upp. Svo hófst ræðan. Ræðan var flutt á táknmáli og gaurinn úti í sal var túlkurinn. Þessi túlkur leit út alveg eins og Herbert Guðmundsson. Ég vissi ekki neitt hvert umræðuefnið var og var engu nær um það eftir að hafa hlustað á gervi-Herbert Guðmundsson túlka ræðu heyrnarlausu stelpunnar úr MH. Liðsfélagar mínir voru bara tveir, það vantaði liðsstjóra í liðið. Ég hafði aldrei séð þessa blessuðu liðsfélaga (strák og stelpu) áður. Strákurinn boraði stanslaust í nefið og ruggaði stólnum sínum til hliðanna ótt og títt. Svo datt hann á gólfið. Stelpan virtist líka vera snarbrengluð í hausnum. En þetta var ekki allt því allt í einu kom Steindór Grétar Jónsson og afhenti mér blað fullt af staðreyndum um Halldór Laxness. Hann sagði mér að nota það í ræðuna og bæta einhverju inn í hér og þar. "Hvaða andskotans bull er þetta?" sagði ég og svo endaði draumurinn.

Já, ef þetta var ekki súr draumur í meira lagi skal ég hundur heita. Ég veit ekki hver semur handritið að svona vitleysu. Það þarf að fara að finna manninn sem semur handritið að þessum súru draumum og martröðum fólks. Hann verður aldeilis buffaður þegar hann finnst. Ég hvet fólk til að reyna að ráða þennan draum.

miðvikudagur, 12. nóvember 2003

Forsýning á Finding Nemo

Áðan fór ég í Háskólabíó á teiknimyndina Leitin að Núma eða Finding Nemo. Var þetta liður í Megaviku Framtíðarinnar og kostaði 500 kall. Þetta var mjög skemmtileg mynd. Mönsaði ég á poppi yfir henni. Sérstaklega gaman að 150 ára gamalli skjaldböku í myndinni sem leit út fyrir að hafa reykt hass í 100 ár að minnsta kosti. Skemmtileg hugdetta, 150 ára hassskjaldbaka. Líka gaman að mávum í myndinni. Segi ekki meir.

Einkunn: Fjórar stjörnur af fimm mögulegum

þriðjudagur, 11. nóvember 2003

Ummæli dagsins

Ummæli dagsins átti bekkjarbróðir minn. Hann sagði við mig, Jósep og Trausta:"Hey, strákar, ég var að fá pening í gær. Þið viljið ekki kíkja heim í vínarbrauð eða eitthvað eftir skóla?". Þetta þótti skondin fyrirspurn og hlegið var að.

DV og Norðurljós

Hvaða vitleysa er þetta að endurreisa DV? Það liggur alveg ljóst fyrir að það er ekki pláss fyrir þrjú dagblöð á Íslandi. Hver á að kaupa þetta? Amma? Nei. Eiga nýir ritstjórar að lokka nógu marga nýja áskrifendur að blaðinu til þess að það gangi? Af hverju fór DV á hausinn? Vegna þess að það var orðið algjört rusl og tætaramatur. DV var á svipuðu verði og Mogginn en miklu þynnra og innihaldsminna. Auðvitað verður slíkt blað undir í samkeppni. Hið endurreista DV mun kosta tæpar 2000 krónur á mánuði. Sjáum til hvort það gengur.

Svo er það Norðurljós. Það hlaut að koma að því að lánadrottnar þeirra misstu þolinmæðina. Fyrirtækið gæti endað í gjaldþrotaskiptum fyrir áramót. Það hefur gengið árum saman á allskonar bókhaldsfixi. Keyptu enska boltann líklega án þess að hafa innistæðu fyrir honum. Svo núna þegar allt er að koma í ljós varðandi Norðurljós ákváðu þeir að skella nýrri stöð í loftið, Stöð 3. Ber það glögg merki um óráðsíu í fjármálum þegar þörf var á aðhaldi. Norðurljós er fyrirtæki sem á skilið að fara á hausinn. Þó er ekki loku fyrir það skotið að nýir eigendur taki við Norðurljósum. Ef nýir eigendur taka við og koma rekstrinum á skikkanlegt form er hugsanlegt að dæmið gangi upp.

mánudagur, 10. nóvember 2003

Frí úr vinnunni í viku fyrir fyllerí

Ónefndur maður á ónefndum vinnustað sagði eitt sinn:"Jæja, ég er að hugsa um að taka mér frí í eina viku og vera fullur, ég á inni tvo veikindadaga sko. Það munar ekkert um hina þrjá vikudagana". Síðan var maðurinn fjarverandi í eina viku.

Nú er ég að hugsa um að taka þennan mann mér til fyrirmyndar og fara eftir lífsspeki hans. Eftir MR held ég að ég taki mér bara ársfrí og verði fullur. Ég held ég eigi nefnilega alveg góða 300 uppsafnaða veikindaga eftir árin átján, þannig að þetta verður allt á launum er það ekki? Ég held ég kýli bara á þetta.

Gaman að því þegar fólk talar um að "eiga inni" veikindadaga og "nýta" veikindadagana. Ég hélt að veikindadagar væru fyrir fólk ef það yrði veikt en ekki eitthvað sjálfgefið tveggja daga frí á launum í hverjum mánuði. Nei, nei, ekki á Íslandi. "We always do this in Iceland, sko!" getum við síðan sagt við grandalausa útlendinga ef þetta kemur þeim spánskt fyrir sjónir. "You know, we always use our illness days. We get drunk and have party sko, maybe for a week"

Burt með Houllier!

Hvað á að gefa manninum séns oft?

Svo kemur hann með eitthvað svona. Hann á bara að halda kjafti og taka pokann sinn. Ef hann verður mikið lengur þarna fellur Liverpool. Það er nóg komið af innantómum loforðum og kjaftæði frá þessum manni.

fimmtudagur, 6. nóvember 2003

Sjónvarpslæknirinn Dr Phil

Rosalegur þessi Dr. Phil á SkjáEinum. Ég var að sjá þátt hans í fyrsta skipti í gær. Þetta er einhver læknasálfræðiþáttur þar sem doktorinn fær geðsjúklinga í heimsókn. Þeir eru ekki kallaðir geðsjúklingar í þættinum en eru það þó. Í gær kom akfeit blökkukerling sem þorði ekki út af heimilinu af ótta við dauðann. "AFRAID OF DEATH-PHOBIA". Hún sagði að þegar hún gengi niður götur væri hún heltekin af ótta við að fá píanó í hausinn og deyja. Svo var hvít kerling sem vissi alltaf að þetta væri hennar síðasta þegar hún var úti að keyra. "We´re all gonna die" var tilfinningin sem hún fékk í hvert sinn sem hún keyrði eða var farþegi í bíl eins og hún orðaði það. "DRIVING PHOBIA". Svo var það kerlingin með óstjórnlega flughræðslu. Alltaf þegar hún fór í flug skraufþornaði hún í munninum og hélt að vélin mundi hrapa. Dr. Phil gerði nú bara grín að þessu fólki enda ástæða til. Svo kom hann með einhvers konar sálfræðigreiningu og góð ráð handa því. Þegar þátturinn var búinn fékk ég skyndilega sjónvarpsfóbíu, þornaði allur upp og skrapp saman og tók síðan sjónvarpið og henti því út í næsta ruslagám.

Dauðafóbía, akstursfóbía...hvað er þetta lið annað en geðsjúklingar? Ég var reyndar sjálfur með sprautufóbíu þegar ég var yngri og það leið alltaf næstum því yfir mig eftir bólusetningar og þess háttar. En ég sigraðist á minni fóbíu. Hann Dr. Phil reddaði því. Hann bara smellti fingrum og ég læknaðist. Nei, en ég hef þó aldrei haft akstursfóbíu. Feitu heimsku kanar.

mánudagur, 3. nóvember 2003

Hoppandi nef í Freschetta auglýsingu

Eitt hefur lengi valdið mér hugarangri. Hvað á þetta hoppandi nef í sjónvarpsauglýsingunni um Freschetta pizzur að þýða? Í auglýsingunni les einhver karl inn á og segir eitthvað á þessa leið:"...bragðlaukarnir hoppa af kæti því Freschetta pizzur eru ekki forbakaðar, þær lyfta sér í ofninum...." Um leið og karlinn segir "bragðlaukarnir hoppa af kæti" birtist mynd af risastóru nefi hoppandi úti á túni og allt í kring eru blóm og þess háttar. Ég fæ ekki neitt mikið vatn í munninn við að sjá tröllvaxið hoppandi nef. Hvað á maður að halda? Er hor úr stóru nefi á Freschetta pizzum? Á að taka Freschetta pizzur í nefið? Er nef það sama og bragðlaukar?

Ég veit ekki með aðra en ég tengi að minnsta kosti stór nef ekki við girnilegar pizzur.

sunnudagur, 2. nóvember 2003

Ég er 18 ára í dag og Morgunblaðið 90 ára

Í dag á ég 18 ára afmæli og Morgunblaðið 90 ára afmæli. Ég mun borða eitthvað almennilegt í tilefni dagsins en Morgunblaðið mun ekki borða eitt eða neitt. Kannski fer ég á veitingastað, maður veit aldrei.

Fróðleiksmoli dagsins: Þegar Morgunblaðið verður 100 ára verð ég 28 ára.

laugardagur, 1. nóvember 2003

Góð mynd í Ríkissjónvarpinu

Það gerist nánast aldrei að maður góni á bíómynd sem sýnd er í Ríkissjónvarpinu og það á laugardagskvöldi. Það gerði ég samt núna. Horfði á K-PAX. Það er frábær mynd sem óhætt er að mæla með. Vekur til umhugsunar. Svo er hún mjög vel leikin. Kevin Spacey og Jeff Bridges fara kostum. Söguþráðurinn er mjög vandaður og vel útfærður. Um að gera að kíkja á þetta ef fólk er ekki búið að því nú þegar.

Ég breytti aðeins bakgrunninum þannig að minna þarf að skrolla en áður (tók út dálkinn hægra megin).

Nokkrir góðir mánuðir án klippingar

Það eru núna komnir rúmir þrír mánuðir síðan ég fór síðast í klippingu en þá lét ég einmitt snoða mig. Ansi góður árangur. En ég keppi ekki við Pjakkinn í löngum tíma milli klippinga. Hann fór ekkert í klippingu í heilt ár og vel það. Pabbi nefndi við mig um daginn að ég þyrfti nú að fara að drífa mig í klippingu, þetta væri ekki hægt og samt kemst ég ekki með tærnar þar sem Pjakkurinn hefur hælana í faxi.

Snoðun? Hanakambur? Hárkolla? Afró? Sítt að aftan? Beckham klipping (aldrei)?
Spurning hvað maður á að taka.

Ég skellti mér á Ísland-Pólland í handbolta í gær í Kaplakrika en Björn Friðrik frændi var með boðsmiða sem hann lét mér í té. Leikurinn byrjaði rólega og leiðinlega en hresstist svo. Íslendingar unnu. Skemmtilegast var þegar Pólverjarnir ætluðu að taka Óla Stefáns úr umferð og létu mesta tittinn í liðinu sínu fara út á móti honum.

Helgi Hós í bíó verður að bíða betri tíma.

föstudagur, 31. október 2003

Hænublundur

Fokk, ég missti af Sólbjartsopnunarkeppninni niðri í skóla í dag. Steingleymdi henni. Ég lagði mig fljótlega eftir að ég kom úr skólanum, vaknaði síðan við símann, síhringjandi núna rétt fyrir sjö. Ég var búinn að berja vekjaraklukkuna sem átti að vekja mig eftir klukkutímablund tvisvar sinnum niður. Gott að það er sterkt í þessu. Síðan er ég allur hálfruglaður núna. Einhvern veginn þarf ég að reyna að koma mér almennilega á lappir. Ég er handónýtur núna. Voðalegt að lenda í svona.

Helgi Hós í bíó á eftir. Ég mæti þangað.

fimmtudagur, 30. október 2003

Ferð til fjár

Fór í MR í kvöld. Hlustaði á karl. Fékk pitsu. Tók próf. Fékk tíu. Varð dómari.

Óhugnanleg lífsreynsla í strætó

Það eru síst ýkjur þegar ég segist hafa óttast um líf mitt í strætó í dag. Ég settist inn í strætóinn á Lækjartorgi sallarólegur. Vagninn ók af stað og allt var í lagi. Svo á stoppistöðinni við Kringluna kom einhver snargeðveikur maður inn í strætó og settist við hliðina á mér. Hann var alltaf að kippa til löppinni og að gefa mér hnésskot (olnbogaskot nema að þetta var með hnénu). Hann kippti löppinni til á fimm sekúndna fresti. Ég var alveg að trompast á þessum manni og að því kominn að segja honum að "andskotast til að sitja kyrr!" en þá leit ég á manninn og sá að hann ríghélt í sætið fyrir framan með samanbitnar tennur og starði fram fyrir sig, svo andaði hann mjög djúpt svo allir heyrðu. Ekki hegðun sem algengt er að sjá. Ég hætti snarlega við að gera athugasemd við framferði mannsins því þetta virtist vera svona maður sem hefði ekki vílað fyrir sér að bíta af mér höfuðið eða steindrepa mig á einhvern annan hátt af minnsta tilefni. Ég yrði ekkert hissa ef einhver segði mér að þessi maður væri fjöldamorðingi. Ekki er allt búið því maðurinn fór loksins út úr strætó rétt á undan mér. Hann gekk út eins og vélmenni og starði beint fram fyrir sig. Frekar vafasamur tappi. Enginn vill mæta þessum manni í dimmu húsasundi. Nei, ónei.

þriðjudagur, 28. október 2003

Snilldarfrétt á Baggalúti

Maður hló nú dátt að þessu enda mjög sniðugt. Ódámarnir að sulla gosi á atkvæðagreiðsluhnappana hjá drengnum. Þetta er bara alveg eins og að stela sleikjó frá smábarni.

Ís og popp

Það er orðið hart þegar menn eru orðnir háðir Maxi poppkorninu sem fæst í Hallanum og éta poka á dag hið minnsta. Það gildir einmitt um mig. Rosalega gott popp. Og svo er það líka gott fyrir heilann. Svo sullar maður þessu um allt í tímum, sjálfsagt við lítinn fögnuð skúringakonunnar sem þrífur bekkjarstofuna mína. Hún hefur örugglega blótað þessu helvítis andskotans popphænsni oft og lengi. Einnig vekur slíkur sóðaskapur og popppokaskrjáfur lítinn fögnuð hjá Önnu Arinbjarnar enskukennara, mjög lítinn fögnuð. En ég er farinn að bæta mig og sulla minna poppi. Það er bara svo gaman í tímum í MR, bara eins og bíó þannig að popp er nauðsynlegt. HA! Kennararnir endalaus uppspretta skemmtunar. Segðu.

Jájá. Svo er ég síétandi ís þessa dagana, ekki þó í MR. Súkkulaðiís og vannuiluís eru vinsælir. Þessu verður að linna. Það vantar meðferðarúrræði fyrir svona menn.

Ég skelli í mig tveimur pokum af poppi á morgun.

Bíóferð

Fór á þessa Kill Bill sem allir eru að tala um um síðustu helgi. Ágæt mynd. Mjög flott (leikmynd og uppsetning) en handrit ekki alveg að dansa. Tæmdu alla blóðbanka í austurlöndum fjær væntanlega fyrir myndina. Boðskapur myndarinnar: ofbeldi leysir engan vanda.

Svo verður maður að skella sér á Mótmælandann um Helga Hós. á næstunni.

mánudagur, 27. október 2003

Sunnudagssveiflan

Það virðist hafa verið ákveðið af æðri máttarvöldum að sunnudagar ættu að vera leiðinlegir dagar. Allir hjálpast að við að gera sunnudaga leiðinlega. Það er alltaf á sunnudögum sem fólk uppgötvar heimalærdóminn. "Obbobobb, nú er kominn sunnudagur, ég á eftir að læra". Flestir ætla alltaf að vera duglegir um helgar en það klikkar alltaf. Sunnudagurinn fer í lærdóminn og önnur leiðindi. Oftast endar á því að lærdómurinn er unninn seinnipartinn á sunnudögum. En ekki halda að það sé ekki hægt að gera gott úr sunnudögum. Boðið er upp á alls konar dægradvöl. Það er hægt að skella sér í messu og brjóta þannig upp daginn á skemmtilegan hátt. "Hvaða sögur ætli presturinn segi í dag, ég iða í skinninu!". Messurnar keppa við sunnudagsmorgunleiki í enska boltanum og rúlla samkeppninni upp. Svo er hægt að heimsækja gamlar frænkur á sunnudögum og fá kaffi og með því hugsanlega og skeggræða um daginn og veginn. Aldrei er neitt í sjónvarpinu á sunnudögum. Eins og ég segi, allir taka sig saman í að gera leiðinlegan dag að veruleika: afi, amma, pabbi, mamma og líka þú. Allir leggja sitt af mörkum til sunnudagsleiðinda.

En í gær gerðist það undarlega. Það var ágætis sjónvarpsdagskrá á Skjá einum. Ég horfði á þrjá þætti í röð og slíkt hefur ekki gerst í háa herrans tíð. Þetta voru þættirnir Popppunktur, Family Guy og Atvinnumaðurinn. Allt mjög frambærilegir þættir og til yndisauka. Reyndar er sumt í Atvinnumanninum aðeins of mikil steik en á heildina er hann hressandi. Family Guy er leiðinlega teiknað en gott handrit bætir það upp.

laugardagur, 25. október 2003

blessadurkarlinn.blogspot.com eins árs

Nú er liðið nákvæmlega eitt ár frá því að hér var ritað fyrst. Kransar afþakkaðir.

föstudagur, 24. október 2003

Breytingar enn og aftur

Nýr bakgrunnur. Endilega segið skoðun ykkar á þessum nýja bakgrunni í "Shout out". Hvað er besta litasamsetningin(bakgrunnur-texti)?Ég var að uppgötva núna að það er skítlétt að breyta litasamsetningu á þessu.
***
Í dag fékk ég hæstu einkunn á lesnu stærðfræðiprófi á ferli mínum í MR, 9,0 sem er mjög gott.

fimmtudagur, 23. október 2003

Heimspeki

Hvers vegna?
Til hvers að sofa? Maður vaknar hvort sem er aftur.
Til hvers að vakna? Maður fer hvort sem er að sofa aftur.
Til hvers að borða? Maður verður hvort sem er svangur aftur.
Til hvers að taka til? Það þarf hvort sem er að taka til aftur.
Til hvers að fara í sturtu? Maður verður hvort sem er skítugur aftur.
Til hvers að fara í skólann? Maður fer hvort sem er heim aftur.
Til hvers að fara úr skólanum? Maður fer hvort sem er aftur í skólann.
Til hvers að fara í frí? Maður þarf hvort sem er að vinna aftur.

Hver veit? Það veit enginn.
***
Já, ég veit að þetta er steikt færsla. Þetta er nýja heimspekiljóðið mitt. Ég er kannski eitthvað illa að mér í líffræði og almennri skynsemi.

Lenging framhaldsskóla

Mikið hefur verið þusað og þrasað um styttingu framhaldsskóla á alþingi. Tómas Ingi Olrich styður það og fleiri þingmenn því það virðist vanta herslumuninn upp á að þetta gangi í gegn. Þetta er á þeim forsendum að það vanti fólk fyrr út í háskóla og þannig fyrr út í atvinnulífið til þess að auka framleiðni. Þeir ætla að ná fram sparnaði með því að þjappa námsefninu niður á þrjú ár í stað fjögurra. En vantar fólk í atvinnulífið einu ári fyrr? Nei, ég hef ekki heyrt um verulegan skort á fólki í vinnu undanfarin ár. Atvinnuleysi hefur hins vegar verið nokkuð. Það virðist vera tilhneiging hjá stjórnendum fyrirtækja til að ráða alltaf ungt fólk í vinnu frekar en eldra þrátt fyrir að sama menntun sé til staðar hjá báðum. Þeir eldri hafa líka oftast meiri reynslu en yngri. Talað er um að nágrannaþjóðirnar hafi þetta bara þrjú ár og þess vegna eigum við líka að stytta hjá okkur. Svo halda þeir því fram að brottfall nemenda minnki nái tillögurnar fram að ganga. Ég sé ekki alveg hvernig það getur staðist. Það féllu líkast til bara fleiri einhvern tímann í framhaldsskóla þar sem meira námsefni væri kennt á hverju skólaári en nú er.

Það er mikil tilhneiging til að vilja gera eitthvað af því að nágrannaþjóðir hafa gert það "með góðum árangri". Hvað með að leita nýrra leiða? Mætti ekki alveg láta grunnskóla byrja við fimm ára aldur í stað 6 ára eða jafnvel stytta grunnskólann um ár. Þar er miklu betra tækifæri til styttingar og hagræðingar en á framhaldsskólastigi því námið er miklum mun léttara. Þar er voðalegt dúll í gangi og 1.bekkur grunnskóla er t.d. mikið til bara leikur "út að sippa" "allir í beina röð" "nú er litatími" og "nú er tannburstamánuðurinn og allir eiga að koma með tannbursta og tannkrem í skólann". Það var rosalegt rugl þetta með tannburstana og að tannbursta í skólanum þegar ég lít til baka. Það er alveg á hreinu að krakkar gætu lært meira í 1.bekk. Ég er viss um að flestir gætu vel hoppað yfir eitt ár á fyrstu árum grunnskólans.

Ef framhaldsskólinn verður styttur legg ég til að allir nemendur falli í mótmælaskini og lengi þannig námið aftur upp í fjögur ár.

miðvikudagur, 22. október 2003

Johnny karlinn

Hann Johnny Cash er rosalega góður. Ég held að ég verði að fá mér munnhörpu, gítar og kúrekahatt og setjast að í villta vestrinu.

Slordónar og hyski

Alls konar slordónar og hyski virðast flækjast inn á þessa síðu ef marka má teljari.is. Ég var að kíkja á teljarann minn á teljari.is. Það er einhver fítus þarna sem gerði mér kleyft að sjá hvaðan fólk hafði komið inn á þessa síðu (af hvaða síðum) með því að smella á tengla. Einnig var hægt að sjá þegar fólk hafði villst inn á síðuna eftir að hafa slegið orð eða setningar inn í leitarvélar. Þá var unnt að sjá hverju hafði verið flett upp á leitarvélunum. Meðal annars höfðu einhverjir flett upp "allsber sturtu", "sigurður kári keyrir fullur", "hemmi gunn dáinn" og "davíð oddsson lag" og allir höfðu þeir flækst inn á mína síðu eftir slíka leit. Svo var mjög algengt að fólk hafði slegið inn "kebab" á franska leitarvél og lent á mína síðu eftir það.

Það er greinilega rannsóknarefni hvað fólk slær inn í leitarvélar.

þriðjudagur, 21. október 2003

Plötugagnrýni

Í plötugagnrýni í dag er nýjasta plata rokkbandsins Muse, Absolution, til umfjöllunar. Um er að ræða hagleikssmíð frá piltunum. Platan rúllar hnökralaust í spilaranum. Ef ekki, er spilarinn bilaður. Melódískir rokkslagarar prýða diskinn. Ein af fáum plötum sem ég kann að meta strax við fyrstu hlustun og er það ekki amalegt. Ef þessi diskur er ekki snilldarverk, skal ég hundur heita.

Mæli sérstaklega með lagi nr. 8, Hysteria, rosalegt kvikindi. Alveg svakalegt félagi.

Einkunn:fjórar og hálf stjarna af fimm að minnsta kosti. Rokkar á bilinu fjórar og hálf til fimm.

Á að reka Gerard Houllier?

Já, nú er mælirinn fullur.

laugardagur, 18. október 2003

Fórnarlamb tannlæknagríns

Ég hugsa að flestir hafi einhvern tímann orðið fórnarlömb tannlæknagríns. Ég lenti einmitt í því um daginn. Tannlæknagrín á sér mismunandi birtingarmyndir og virðist vera í sífelldri þróun. Tannlæknar verða að passa að fólk sjái ekki við gríninu. Þá fer allt fútt úr því. Tannlæknirinn minn beitti einmitt nýrri, byltingarkenndri grínaðferð á mig um daginn og kom mér gjörsamlega í opna skjöldu. Það var þannig að tannsi byrjaði á að skoða kjaft minn vel og vandlega og sá þá eitt sem honum fannst rosalega fyndið: "Heyrðu, það er byrjaður að vaxa endajaxl og það bara hægra megin!" og svo hló hann dátt. Það er greinilega rosalega fyndið í tannlæknaheiminum þegar endajaxlarnir vaxa ekki samtaka. En einmitt um leið og hann skellihló að fáránlegum endajaxlavexti fór hann að krukka í tannholdinu og hreinsa einhvern fokkin tannstein sem hafði grasserað í neðri gómi. Á meðan á því stóð upplifði ég vítiskvalir og öskraði af lífs og sálarkröftum en tannlæknirinn hélt áfram að skellihlæja að litla, heimska, hægri endajaxlinum, sem hafði tekið vaxtarkipp. Hann hélt líka áfram að tala um hvað þetta væri fyndið og spurði mig hvort mér fyndist þetta ekki fyndið líka. Ég gat því miður ekki samsinnt því, þótt ótrúlegt megi virðast. En þarna var ég greinilega fórnarlamb tannlæknagríns af skæðustu gerð.

Svo mun tannlæknirinn minn væntanlega mæta vígreifur og sigri hrósandi á aðalþing Tannlæknafélagsins í næstu viku. Hann getur þá aldeilis komið með góða sögu úr bransanum. "Ja, ég skal segja ykkur frá fíflinu sem kom til mín í síðustu viku, með hraðsprottinn hægri endajaxl. Hann fékk nú að kenna á því, ha....".

En eins og áður kom fram á tannlæknagrín sér margar birtingarmyndir. Algengasta tegundin af því er sjálfsagt þegar tannlæknar ákveða að fara að spjalla við viðskiptavininn/fórnarlambið. Gjarnan koma spurningar á borð við "Ertu í skóla?" eða "Fórstu eitthvað í sumarfríinu?". En þeir hafa engan áhuga á að vita svör við þessu þótt þeir spyrji. Um leið og þeir hafa varpað fram spurningu byrja þeir með spúlarana og ryksugurnar upp í manni svo það er ekki nokkur leið að svara. "Fórstu eitthvert um verslunarmannahelgina?" Vrrrúúúmmmm. Borinn settur í gang og þeir byrja að bora sem óðir væru. Engin leið að svara. Tannlæknagrín eins og það gerist verst.

Varist tannlækna.

föstudagur, 17. október 2003

Árshátíð Skólafélagsins

Árshátíðin í gær var sú allrabesta á ferli mínum í MR. Papar léku fyrir dansi og það var snilld."Við drekkum Jameson" og fleiri stuðlög voru leikin í rífandi stemningu.

Ég byrjaði á því að mæta í mat hjá Óla þar sem slatti af fólki var saman kominn. Étnar voru pizzur undir dúndrandi dinnermúsík og spjalli og drukkinn var bjór með. Síðan var ætlunin að skella sér í partí hjá Gretti og þaðan í mitt bekkjarpartí sem var í Stúdentakjallaranum með tveimur öðrum bekkjum. En áætlanir breyttust eitthvað og endaði þannig að ég fór í partí hjá Tinnu en hvorki til Grettis né í Stúdentakjallarann. Það var mjög gott partí og á Tinna hrós skilið fyrir viðvikið. Þar slurkaði ég í mig lítersFaxe og nokkrum litlum Föxum (500mL bjórar heita núna "litlir" síðan ég uppgötvaði lítersFaxann). Allir voru hressir og kátir. Svo var ferðinni heitið á Broadway á ballið. Þar var mjög leiðinleg dyragæsla sem spurði alla um skilríki (í fyrsta sinn sem það er gert) og orsakaði teppu og algjört öngþveiti fyrir utan. Ég komst inn bara rétt áður en hætt var að hleypa fólki inn klukkan eitt. Loksins þegar inn var komið tók frábær stemning við sem Papar héldu uppi. Sungið var og dansað og fólk lék á als oddi eins og við var að búast. Besta árshátíð sem ég hef komið á. Ballið var búið klukkan að verða þrjú. Þá var Taxi tekinn upp á Select í Breiðholti þar sem ég, Tómas og Grettir áttum óuppgerð mál við einhverja meli (segi svona). Sko, þegar Gummi skalli, Tómas tönn og Grettir sterki mæta á Select í gettóinu skal fólk vara sig. Grillaðar pylsur með kartöflusalati eru alveg nauðsynlegar eftir svona skrall. Síðan kom ég heim klukkan rúmlega fimm eftir frábærlega heppnað kvöld. Konungsins sveifla! Setning kvöldsins hjá mér var "Hvaða siðferði hefur þú?" en hún er fengin frá Árna Johnsen úr frægu Kastljósviðtali við hann sem ég sá á spólu um daginn. Hann sagði reyndar "Hvaða siðfræði hefur þú?" en hverjum er ekki sama. Ég gat augljóslega ekki notað nákvæmlega sömu setningu, það hefði verið heimildastuldur. Setninguna notaði ég við hvert tækifæri en hún naut mismikillar hylli og var t.d. ekki vinsæl hjá dyravörðunum. Maður var svolítið laminn og svona. Nei,nei.

Að lokum vil ég þakka öllum þeim sem gerðu magnað kvöld að veruleika: Óli fyrir matinn, Tinna fyrir partíið, Papar fyrir músík, Skólafélagið fyrir vel skipulagða árshátíð, Árni Johnsen fyrir setningu kvöldsins og Select fyrir pylsur. Sjálfsagt gleymi ég einhverjum en ekki er hægt að nefna alla í stuttri samantekt sem þessari.

Myndir af árshátíðinni má finna á eftirfarandi stöðum:
Heilabú.net
Rugl.is
flass.net

miðvikudagur, 15. október 2003

Kakóland í beinni

Mæli með vefmyndavél Kakólands fyrir hressa krakka.

þriðjudagur, 14. október 2003

HGH PRO FORMULA

* Look and Feel 20 Years Younger
* Reduce Body ft by 82%
* Wrinkle Reduction by 62%
* Increase Energy Level by 84%
* Increase Sexual Potency by 75%
* Increase Memory by 62%
* Increase Muscular Strength by 88%
* Increase Emotional Stability by 67%

Click Here to Learn More About HGH


Fékk þetta á Hotmail áðan. Sko, mig langar ekki að líta út fyrir að vera 20 árum yngri en ég er og því síður að upplifa það. Ég er ekki einu sinni orðinn 20 ára. Þá liti ég væntanlega út fyrir að vera okfruma og upplifði mig sem slíka. Ég segi Nei, takk. Íslenskt Já takk.

Leikjanámskeið MR

Ekki hugðist ég blogga í dag en get ekki á mér setið. Þannig er mál með vexti að ákveðið málefni hefur legið á mér eins og mara og þjakað mig mjög. Og nú verð ég einfaldlega að láta þetta gossa. Það er þannig að ég sit í kennslustundum í stofu 10 í Casa Christi í Menntaskólnum í Reykjavík. Sú stofa er bekkjarstofan mín. Á sama gangi eru tveir máladeildarbekkir, annar að nafni 5.A og er sá bekkur einmitt ástæða skrifa minna nú. Nú hef ég haldið síðan ég byrjaði í MR að þar ætti fólk að læra og þroskast og jafnvel komast til vits og ára. En ég er farinn að efast svolítið um þetta því alltaf þegar ég sit í tíma óma hlátrasköll og dólgslæti inn í stofu mína. Þar eru á ferðinni nemendur, ekki kennarar. Ekki vil ég bendla kennara við svo ósæmilega hegðun. Nemendurnir koma undantekningalaust úr máladeildarbekknum 5.A sem hefur stofu þarna á ganginum. Alltaf þegar ég kem fram á gang sé ég stóð nemenda úr 5.A með ólæti. Þar má finna Harald, Frikka, Andrés, Gulla, Hemma og stundum fleiri. Þessir menn virðast aldrei þurfa að sækja kennslustundir eins og aðrir siðprúðir skólafélagar þeirra. Oft má sjá Frikka grýta "hacky sack"-bolta í Halla og undantekningalaust er allur hópurinn skellihlæjandi. Mætti ætla að þar væri á ferðinni einhvurskonar leikjanámskeið eða jafnvel fjöllistarhópur en ekki skólapiltar úr Menntaskólanum. Í dag var annað uppi á teningnum þegar ég gekk út úr stofu minni. Engin óhljóð eða hlátrasköll bárust mér til eyrna. Allt var með kyrrum kjörum. "Ha?" hugsaði ég, "5.A í tíma?". Það gat ekki verið að ærslabelgirnir væru farnir að læra eitthvað. Ég leit inn í stofuna þeirra og það var eins og fyrri daginn, enginn þar, 5.A í fríi. En þeir höfðu þó farið eitthvað annað með sín ólæti. Og ég ætla ekkert að afsaka það að ég er oft í fríi, enda fallisti, útskrifaður úr einhverjum fögum og með a.m.k eina eyðu á dag og þess vegna tek ég betur eftir máladeildarskæruliðunum.
Um daginn lagði ég mig niðri í Cösu í einni af mínum fallistaeyðum. Vaknaði ég skyndilega við hávaða mikinn. Viti menn,fjöllistarhópurinn úr 5.A mættur, Frikki með hakkíboltann, Halli með drumbur sem hann barði á, Andrés með banjó, Steindór með munnhörpu, Gulli syngjandi með og hinir í hópnum með afmælisflautur, og allir skellihlæjandi og með afmælishatta. "hrmpf...fjöllistarhópurinn enn eina ferðina" hugsaði ég. Síðan fór ég í hakkí með þeim.

Það hefur alltaf verið svona léttur rígur milli máladeildar og náttúrufræðideildar. Ég hef aldrei haft neina ástæðu til að halda að máladeildin sé eitthvað miklu auðveldari fyrr en núna. Síðustu vikur hef ég orðið vitni að þessu öllu saman. Maður hefur heyrt að þau séu í strembinni latínu en það er án efa bara þjóðsaga. Einu tímarnir sem ég hef séð 5.A mæta í er líffræði. Því hef ég tvisvar orðið vitni að.

Í skáletruðu efnisgreininni er aðeins farið frjálslega með staðreyndir en þó er hún byggð á raunverulegum atburði og lýsir hún máladeild mjög vel.

Ég íhugaði að senda þessa grein í Velvakanda en það hefði verið aðeins of kreisí.

mánudagur, 13. október 2003

Johnny Cash og Muse

Mér áskotnuðust tveir geisladiskar í dag. Muse-Absolution og Johnny Cash-Johnny Cash's Greatest Hits Volume 1.
.

Það eru komnar glæsilegar skreytingar niðri í Cösu fyrir árshátíðina næsta fimmtudag. Þemað er Heimur Faraós þannig að allt er skreytt í Egypskum stíl. Það sem mér finnst verst við þetta er að skreytingarnar eru alltaf teknar niður strax eftir árshátíð. Þær kosta nú ekki lítið þessar skreytingar þannig að það mætti alveg leyfa þessu að tóra lengur en gert er. Fólk verður nú ekki þreytt á þessu alveg strax. Það ætti frekar að láta þetta hanga, þangað til einn mánudagsmorguninn að nokkrir nemendur eru handónýtir eftir helgi og fúlir og leiðir á öllu, þá berja þeir í einhverja mynd af Faraó tautandi "Fokking Faraó" og hrifsa þetta niður af veggjunum. Það væri mun skynsamlegra og náttúrulegra en að láta fólkið sem skreytti svona vel rífa afraksturinn niður eftir eina viku. Það er sóun.

Ný síða hefur litið dagsins ljós úr smiðju Ólafs Þórissonar og félaga. Hitti ég pilt í strætó 111 áðan og var hann hress að vanda og mælti m.a. með nýrri síðu og slíku.

laugardagur, 11. október 2003

Punggrip og stærðfræðikeppni

Íslendingar töpuðu leiknum gegn Þjóðverjum og eru dottnir út. Dæmt var af þeim mark sem virtist löglegt sem Hermann Hreiðars skoraði, smá tog, en aðallega bara barátta um boltann. Hermann sagði eftir leikinn að Þjóðverjinn hefði líka gripið í punginn á honum þegar hann skoraði. Helvítis melurinn. Svo var þessi Hinkel melur líka. Braut illa á Indriða. Fuss!

Ég mætti í stærðfræðikeppni niðri í MR í morgun. Maður þarf að vera eitthvað andlega vanheill til þess að láta hafa sig í að keppa í stærðfræði klukkan 10 á laugardagsmorgni. En hitt er annað mál að mér gekk bara sæmilega, enda tók ég neðra stig. En það er ekki spurning að þetta er ágætis þjálfun og það er fyrir öllu. Veitir ekki af enda ætla ég að ná 4.bekk núna, helst með þokkalegar einkunnir.

Nói albínói rakaði að sér Edduverðlaunum. Ekki að undra. Ég held svei mér þá að það sé besta mynd sem ég hef séð. Ég vona að hún verði tilnefnd til Óskarsverðlauna líka.

föstudagur, 10. október 2003

Málefnadagar Samfylkingarinnar og bleikt Stjórnarráð

Ég rak upp stór augu þegar ég sá í Mogganum í dag auglýsingu: "Málefnadagar Samfylkingarinnar, 11. og 12. október" ég nennti ekki að lesa meira af þeirri auglýsingu en geri fastlega ráð fyrir því að nú ætli Samfylkingin aldeilis að ferskja sig upp og vera með einhver málefni í tvo daga. Fyrir kosningarnar í vor voru þeir svona eitthvað tvístígandi varðandi það að finna sér málefni og fóru svolítið mikið eftir því sem kom út úr könnunum. Svona "60% þjóðarinnar eru hlynnt aðild að myntbandalagi Evrópu" og þá stendur Össur upp á fundi hjá flokknum og segir: "Já, Samfylkingin er greinilega með myntbandalagsaðild. Sáuð þið ekki könnunina maður, JÖSS!" Og svo var ekkert mál að breyta því ef næsta könnun sýndi eitthvað annað. Bara skútsa þessu til og frá. Mér finnst mjög gott hjá Samfylkingunni að ákveða að brydda upp á einhverjum málefnum, og þótt það sé ekki nema í tvo daga, það er þó byrjunin. Laglegt þetta. "Málefnadagar", þetta mun slá í gegn. Össur, ég kýs ykkur næst. Það er gefið. Ég mæli með að flokkurinn bryddi upp á tveggja daga "Málefnadögum" á hverju ári hér eftir. Djöfull verður það vinsælt. Já,já,já.

Ef ekið er framhjá Stjórnarráðinu í myrkri má sjá fagurbleika lýsingu sem varpast upp á það. Mun það vera til að vekja athygli á brjóstakrabbameini. Nú hef ég fengið aldeilis góða afsökun fyrir að ganga í bleiku sokkunum mínum (sem áður voru hvítir) sem pabbi litaði óvart í þvottavélinni um daginn. Ég er augljóslega bara að vekja athygli á brjóstakrabbameini.

Brjótum það sem brotnar, skiptir engu hvað það er!

200.000 Naglbítar héldu útgáfutónleika á Nasa í gærkvöldi og kíkti ég á herlegheitin. Þeir ollu smá vonbrigðum. Öll lögin á nýrri plötu, Hjartagull, voru spiluð. Inn á milli slæddust nokkuð þéttir slagarar. Upphaf tónleikanna og endir var það besta. Þar á milli var hálfgert miðjumoð. Titillagið, Hjartagull, er til dæmis ekki alveg að dansa. En lög á borð við "Láttu mig vera" og "Sól gleypir sæ" eru nokkuð öflug. Svo tóku þeir bestu gömlu lögin "Stopp nr. 7" og "Brjótum það sem brotnar" og það síðarnefnda var hápunktur tónleikanna, enda lokalagið. En eins og ég segi, smá vonbrigði.
Einkunn: þrjár og hálf stjarna af fimm

fimmtudagur, 9. október 2003

Með tossastimpil á rassgatinu

Haraldur veðurfræðingur hefur verið í fréttum síðustu daga eftir að hann gagnrýndi harðlega stærðfræðikennslu í grunnskólum landsins. Hann sagði að stór hluti nemenda útskrifaðist úr grunnskóla með "tossastimpil á rassgatinu". Ég held að hann hafi bara blússandi rétt fyrir sér og kerfið sé gagnrýnisvert að þessu leyti. Það þarf að endurskoða námsskrána. Meiri reikningsþjálfun og minna rugl.

En svo má líka benda á það að stór hluti nemenda eru hreinlega húðlatir og nenna ekki að læra og eiga ekkert heima í bóknámi. Þetta spilar allt saman.

Fullt af sjónvarpsstöðvum á Íslandi

Voru Norðurljós ekki að skera niður og segja upp fólki fyrir mjög stuttu? Núna eru þeir bara að fara að skella upp nýrri sjónvarpsstöð eins og ekkert sé sjálfsagðara. Stöð 3 er nýja trompið frá fyrirtækinu. Svo er nýbúið að hefja útsendingar á Skjá 2. Stöð 3 verður grínstöð, einhver grínarinn hefur uppgötvað að það vantaði grínstöð á Íslandi. Skjár 2 tekur "bestu" þættina af Skjá Einum og sýnir: Will & Grace og eitthvað í bland við "sígildar og góðar" kvikmyndir. Gott að þeir fá ekki talsettan Malcolm In The Middle. Þá get ég haldið ró minni. Fíflagangur? Já. Hver á að kaupa þessar stöðvar? Veit það ekki.

Um daginn horfði ég á Joyce Meyer á Omega í mótmælaskini. Þannig mótmælti ég nýjum stöðvum.

þriðjudagur, 7. október 2003

Fyrsti haustdagur í dag

Í dag er fyrsti haustdagur. Skítakuldi og bandbrjálað rok. Stinningskaldi væri það sjálfsagt kallað á veðurmáli. Þegar ég var í skólanum áðan féllu fyrstu þrjú snjókornin þetta haustið sem þýðir að veturinn er á næstu grösum. Þegar ég kom heim óð ég í nýföllnum laufum framan við húsið. Þau þyrluðust um í hringi og settu stein í götu mína á leið minni að húsinu. Skömmu eftir að ég kom inn heyrði ég háværan skell á rúðunni:"BAMM!". Garðhúsgögnin höfðu fokið í allar áttir og skellurinn kom þegar garðborðið skall á rúðuna. Svo lá það eftir á hvolfi og sömuleiðis allir garðstólarnir. Einn þeirra hafði meira að segja fokið einhvert lengst inn í garð og lá illa leikinn í trjánum. Plastbrot voru um allt. Þetta er dagurinn sem markar endalok sumars og upphaf hausts.

laugardagur, 4. október 2003

Liverpool-Arsenal

Liverpool tapaði fyrir Arsenal í dag 1-2. Ég sá tvö fyrstu mörkin í leiknum. Liverpool virtust mun sókndjarfari. Fyrra mark Arsenal kom upp úr aukaspyrnu sem var ranglega dæmd. Þetta eykur pressuna á Houllier. Tveir tapleikir í röð. En ég er algjörlega á því að Libbar hefðu átt að vinna þennan leik en þeir nýttu ekki sín færi og því fór sem fór.

MR-ví dagur og ræðukeppni

MR vann vesló þriðja árið í röð á MR-ví deginum. Sjaldan hefur munurinn verið meiri en núna. Þetta var burst. Í Hljómskálagarðinum var mexíkanahlaup og langhlaup og hitt og þetta.

Ræðukeppnin í verstló vannst um kvöldið en það var tæpt. Munaði 16 stigum á liðunum sem var nokkuð undarlegt miðað við hvernig keppnin var. Af verslingum bar Björn Bragi af að mínu mati. Einn keppandi versló bar líka af í lélegri ræðumennsku, Hildur frummælandi þeirra. Báðar ræðurnar hennar voru svona "Ha?Loftbor?"-ræður eins og Stefán Pálsson talaði um á ræðunámskeiðinu um daginn. En það eru ræður sem ná engan veginn að fanga athygli áhorfenda og athygli þeirra fer að beinast að einhverju allt öðru. Henni tókst frekar illa að halda áhorfendum við efnið og þrátt fyrir að enginn væri með loftbor fyrir utan húsið fór ég óneitanlega samt að hugsa "Ha?Loftbor?". Það voru svona einn til tveir ágætis punktar í hvorri ræðu hjá henni en ekkert meira. Hjá MR-liðinu voru menn jafnari en vil ég þó nefna að Ásgeir Pétur kom mér á óvart og var betri en ég bjóst við. Hilmir var líka nokkuð góður og Frikki stóð sig vel sem liðsstjóri. Jói var ræðumaður kvöldsins og vel að því kominn.

Klappliðsfólk verslinga veifaði rauðum spjöldum að okkar klappliði og setti einhverja viðvörunarbjöllu í gang um leið og endurtók það nokkrum sinnum. Það fannst mér ósköp smánarlegt.

Ekki má gleyma því að sýndar voru MR-ví-myndir skólanna. Myndin frá versló var lélegasta og metnaðarlausasta MR-VÍ mynd sem ég hef séð. Algjört bull. Myndin frá MR byrjaði illa en skánaði svo þegar á leið og var bara nokkuð fín þegar upp var staðið.

MR-ví sigur þriðja árið í röð og það þýðir bikar til eignar sem er mjög gott.

föstudagur, 3. október 2003

Hvaða siðferði hefur þú?

MR-víííí dagurinn er í dag. Gaman að því. Þar mun MR keppa við west-low í ýmsum greinum. Sigur er viðbúinn. Það verða væntanlega fréttir um það á morgun eða hinn.

Hvaða fífli datt í hug að láta talsetja þáttinn Malcolm in The Middle? Ég horfi reyndar aldrei á það hvort sem er. En þvílík leiðindi. Steinn Ármann talar fyrir pabbann. Hann var miklu betri sem Keli köttur í Stundinni okkar. Ég held að hann ætti bara að halda sig við það. Annars liggur leiðin bara beint niður á við hjá honum.

fimmtudagur, 2. október 2003

Morgunmatur

Þetta nýja morgunkorn frá Kellog's, Just Right er besta morgunkorn sem ég hef smakkað. Já, það er líka betra en Cocoa Puffs.

þriðjudagur, 30. september 2003

Mús

Muse, er það málið í dag?

mánudagur, 29. september 2003

HALLÓ SULTUHEILI!

Það kom ekki alveg nógu vel út hjá mér á bikarúrslitaleiknum á laugardaginn þegar ég ætlaði að taka fótboltaspekúlantinn Elvar mér til fyrirmyndar og öskra "HALLÓ SULTUHEILI!" á dómarann þegar hann dæmdi eins og fífl. Ég var nefnilega búinn að vera með hálsbólgu og röddin bara brast alveg við að öskra þetta. En hún er smám saman að koma aftur.

Annars ætlaði ég að nefna mjög góðan díl sem ég var að gera. Ég droppaði við hjá lakkrísmangaranum í MR og seldi honum útkrotaða Danmarks Mosaik verkefnabók fyrir tvo lakkríspoka. Geri aðrir betur. Lakkrísmangarar virðast vera ört vaxandi starfsstétt í MR.

Bleikir sokkar

Nú á ég fimm pör af bleikum sokkum. BÍDDU, BÍDDU, BÍDDU! Leyfið mér að útskýra áður en þið farið að bendla mig við einhvern helvítis hommaskap. Pabbi var að þvo þvott og bara skellti hvítu sokkunum með rauðu handklæðunum og þetta varð útkoman. Já, og ég vil geta gengið í mínum bleiku sokkum óáreittur. Ég er búinn að hefna mín á karlinum. Ég litaði allar spariskyrturnar hans bleikar. Nú munu allir halda að hann sé Páll Óskar þegar hann mætir á mannfögnuði og slíkt í skyrtunum. Hahahahhahhahahhahhaha. Hvílík geðveiki.

sunnudagur, 28. september 2003

Top Gangsta' boss in da hood

Breiðholtið hefur látið að sér kveða í glæpamenningunni undanfarið. Átök hafa blossað upp milli hópa við bensínstöðina Select, sjoppuna King Kong og víðar og ekki sér fyrir endann á brjálæðinu. Búið að rústa einni íbúð. Maður opnar blaðið og sér fyrirsagnirnar: "Hnífsstunga í Breiðholti", "Datt á línuskautum í Breiðholti og fékk tönn í vör", "Skemmdarverk á íbúð í Breiðholti", "Enginn verður óbarinn biskup á planinu fyrir framan King Kong", "Skotárás í Seljahverfi", "Handónýtur hasshaus úr Hólunum brýst inn í sjoppu" og svo mætti áfram telja.

Einhverjir komu á Select á föstudagskvöld með íslenska fánann, sjálfsagt er það hluti af átökum kynþátta sem hafa grasserað í gettóinu undanfarið. Afi segir mér frá Gúttóslagnum '34 en þegar ég verð afi mun ég væntanlega segja barnabörnunum frá Gettóslagnum '03. Svona breytast tímarnir.

Mér finnst mjög lélegt á bensínstöðinni Select hérna í Breiðholtinu hvað starfsfólkið er illa upplýst. Til dæmis ef fólk kemur þarna inn og spyr:"Hvenær byrja slagsmálin?". Að geta ekki svarað því er frekar slappt. Fólk fer bara að beina viðskiptum sínum annað ef starfsfólkið getur ekki haft svona grundvallaratriði á hreinu. Svo finnst mér að þeir hjá Select gætu nú staðið ögn betur að kynningarmálum og hugsanlega sett smáauglýsingu í Fréttablaðið svo hljóðandi:
SLAGSMÁL-SLAGSMÁL!
Allir sem vettlingi geta valdið mæti framan við Select, Breiðholti. Mæting stundvíslega klukkan 24:00 föstudagskvöld. Samkvæmisklæðnaður ekki áskilinn. Eggvopn áskilin. Frítt inn og opið öllum aldurshópum. Gos og SS-pylsur í boði fyrir alla.

Select gæti grætt á því. Já, maður.

...nah.

laugardagur, 27. september 2003

Harlem og Knattspyrna

Ég fékk sex boðsmiða á Harlem Ambassadors í Laugardalshöll í gær. Hóaði ég saman liði og héldum við á staðinn. Við vissum lítið um það hvað var í vændum. Hver miði var að andvirði 1500 kr. svo eitthvað hlaut nú að vera í þetta spunnið. Þetta var á við tvo bíómiða.

En að sýningunni sjálfri;
Um er að ræða skemmtikrafta alla leið frá henni stóru Ameríku. Skemmtikraftar þessir gefa sig út fyrir að sýna körfubolta. Ég veit ekki hvort það er hægt að tala um körfuboltasýningu. Ég hefði frekar kallað þetta: "Blökkukona með fíflalæti og leikið við krakkana". Það er ekki að ástæðulausu sem ég hefði kosið það nafn. Það var fátt um fína drætti. Fyrst var rosalega tilþrifamikil kynning á erlendu risunum. Vallarþulurinn lýsti hvernig meistararnir höfðu lagt heiminn að fótum sér og núna væri komið að norðurhjara veraldar "Iceland". Og vallarþulurinn virtist vera einhver svona bandarískur háskólastrákur og hann var alveg ömurlegur þulur. Hann sá um alla "sound effectana" á sýningunni. Fyrst spiluðu Ambassadors við Reykjavíkurúrvalið. Guðlaugur Þór þingmaður og borgarfulltrúi var í Reykjavíkurúrvalinu. Ég held að það séu næg orð um styrkleika úrvalsins. Menn reiknuðu því með að Bandaríkjamennirnir ættu auðveldan leik í vændum. En nei, nei, Ambassadors svona rétt mörðu "úrvalið" og lítið var um sérstök tilþrif eða knattleikni að þeira hálfu. Svo var leikurinn alltaf stoppaður inn á milli svo blökkukonan (Lady Majic) gæti verið með fíflalæti, dansað hænsnadansa og farið með gamanmál eins og henni einni er lagið undir dynjandi danstónlist frá bandaríska háskólastráknum DJ. Whatever. Svo var nú alveg fokið í flest skjól þegar dómari leiksins dansaði hænsnadans í einu stoppinu. Ekki má gleyma því að snillingarnir fóru í sætaleik með nokkrum krökkum úr áhorfendaskaranum. Krakkinn sem vann sætaleikinn fékk stórkostleg verðlaun: Kennslu í fíflalátum að hætti Lady Majic. JEI!....

Það kom að því á endanum að við kumpánarnir létum ekki bjóða okkur meira af bullinu og strunsuðum út og kippti ég einhverri rafleiðslu úr sambandi á leiðinni. Það var reyndar óviljaverk en hverjum er ekki sama. Ég er mjög feginn að hafa ekki borgað mig inn á þetta. Reyndar hefði ég varla farið nema út af boðsmiðunum. En þetta var vissulega lífsreynsla.

Einkunn:uhm...krakkarnir höfðu gaman að þessu og það er fyrir öllu.


Í dag hélt ég síðan á Laugardalsvöll að sjá mitt lið, ÍA, etja kappi við FH í úrslitum bikarkeppninnar í fótbolta. Það var gaman og myndaðist bara nokkuð góð stemning á pöllunum. Skagamenn unnu 1-0 og ég er sáttur. Ég borgaði 1500 kall inn á þetta. Jafn mikils virði og Harlem Ambassadors?

fimmtudagur, 25. september 2003

Hlandbrunnið braggabarn í barnavagni (vælir úti í veðri og vindum)

Já, ég ætti kannski að nefna það að titillinn er fenginn úr textabrunni Megasar.

Gunnar í Krossinum var á Stöð 2 áðan og fór mikinn. Mætti hann Þórhalli nokkrum miðli í kappræðum. Gunnar þóttist vita allt um það hvað væri Guði þóknanlegt og hvað ekki. Hann gekk meira að segja svo langt að kalla Þórhall útsendara djöfulsins þar sem Þórhallur teldi sig ná sambandi við æðri öfl. Gunnar þykist vera mjög heilagur og á Guðs vegum. Ég held að hann ætti þá ekkert að vera að dæma einhverja menn útsendara djöfulsins bara si svona. Gunnar var á því að það sem Þórhallur gerði væri Guði ekki þóknanlegt. Ég spyr: Er það sem Gunnar gerir eitthvað frekar Guði þóknanlegt?

Svo talaði hann um það að ef Þórhallur hætti í sínu starfi og iðraðist fyrirgæfi Guð honum. Það var nú aldeilis munur fyrir Þórhall.

Einhvurn tímann sá ég Gunnar í Krossinum á bensínstöð á Hvolsvelli með fjölskyldu sinni á stórum jeppa. Eru Guðs vegir kannski ekki færir nema á stórum jeppum? Gunnar ætti kannski að svara því. Gunnar ætti nú að geta lesið það út úr Biblíunni því flest virðist hann geta túlkað með henni. Já, ég reikna alveg eins með því að greinin um að Guðs vegir séu bara færir jeppum og að Þórhallur sé útsendari djöfulsins sökum starfa síns sé í Matt. 4:2, en ég þori ekki alveg að fara með það. Gunnar veit sjálfsagt meira um það.

miðvikudagur, 24. september 2003

Guð býr í garðslöngunni Amma

Ótrúlega magnaðir textar hjá Megasi: "...og á sunnudögum þegar kristur kaupir, sér kúmenbrennivín á leyndum stað"-"Ragnheiður biskups dóttir brókar var með sótt" Ég veit ekki hvaðan maðurinn fær allar þessar hugmyndir en mér segir svo hugur að hann fái eitthvað af þeim hjá Bakkusi.

Sjónvarpsefni nú til dags er gjarnan mjög þunnt og leiðinlegt. Það er nýbúið að birta áhorfskönnun Gallup og kemur í ljós að Skjár Einn hefur hrapað í áhorfi. Það hlaut að koma að því að fólk yrði leitt á þessum amerísku "gaman"þáttum sem eru allir eins og ekki snefill af skemmtun í þeim. Ameríska tilgerðargrínið höfðar ekki til mín, það er víst. Aldrei hef ég heldur skilið hvað er skemmtilegt við sápuóperuna Friends. Sömu brandararnir aftur og aftur þátt eftir þátt. Dósahláturinn svokallaði er ríkjandi í þessum þáttum. Er fólk orðið svo heimskt að það þurfa einhverjir að hlæja á bak við í þáttunum til þess að fólk heima í stofu viti hvenær það á að hlæja? "Ha? Þetta er fyndið, nú á ég að hlæja: HAHAHAHAHAHAh". Ef dósahláturinn yrði fjarlægður úr Friends yrði eflaust minna um hlátur hjá fólki af því það bara einfaldlega vissi ekkert að hverju það ætti að hlæja. Allt í einu væri Friends bara orðinn drepleiðinlegur grafalvarlegur þáttur. Ég er farinn að stunda það mikið að horfa ekki á sjónvarpið, hlusta bara. Þetta hefur gefist mjög vel hingað til. Ég veit ekkert um hvað þættirnir snúast en heyri alltaf blússandi dósahlátrasköll í sjónvarpinu annað slagið, og þá hlæ ég hrossahlátri og veltist um af kátínu. Því hverjum er svosum ekki drullusama um hvað brandararnir snúast eða hvort þetta var sami brandari og oft áður, eða hvort Phoebe var að gera eitthvað ljóskulegt? Mér er svo andskotans sama. Ég heyri bara að dósahláturinn byrjar og þá get ég sko hlegið. Ég veit eins og er að það eru frískir og frumlegir Bandaríkjamenn sem semja sprenghlægilegt handrit fyrir þættina. Ég sit jafnvel við borðið mitt og læri heima, heyri dósahlátur, og hneggja af hlátri svo glymur í öllu Breiðholtinu og öskra: "BANDARÍKJAMENN ERU SVO FYNDNIR OG FRUMLEGIR!". Svo held ég bara áfram þar sem frá var horfið við lærdóminn.

Ég held að Bandaríkjamenn ættu bara að einbeita sér að því að borða hamborgara og fat free-franskar á Mc'donalds eins og þeir eru svo góðir í. Þeir mættu alveg sleppa því að framleiða meira af tilgerðardósahlátursgamanþáttum. Svo mættu þeir alveg sleppa því að bomba Írak. En það verður ekki á allt kosið.

Það eina sem horfandi er á á Skjá Einum er Jay Leno, hann er stundum ágætur. Hann sér líka heimskuna í eigin þjóðfélagi og gerir gys að. Hins vegar er annar spjallþáttastjórnandi sem sýndur var á Skjá Einum sem var mjög góður: Conan O'Brien. Ég vil gjarnan fá hann aftur á skjáinn. Svo ekki er allt sjónvarpsefni frá Bandaríkjunum alslæmt. Simpsons er líka alltaf klassískt.

Annað sem ég vil sjá meira af í sjónvarpi eru breskir gamanþættir. Þeir slá Bandaríkjamönnunum alltaf rækilega við í góðu gríni og kaldhæðni.

Fleira var það ekki.

sunnudagur, 21. september 2003

FRAM - Þróttur í lokaumferð Landsbankadeildar karla

Ég fór á leik FRAM og Þróttar á Laugardalsvelli í gær. Ekki get ég státað mig af því að styðja annað liðanna, en ég gerðist þó hálfur FRAMari á þessum leik. Óneitanlega var gleðiefni fyrir mig, hálfan Framarann, að þeir unnu og sendu Þrótt niður um deild. Hins vegar var leikurinn ekki sérstaklega skemmtilegur og Framarar áttu engan veginn skilið að vinna. Þróttarar voru betri á heildina og hefðu alveg getað unnið. Svo í lok leiksins fagnaði ég sem óður væri með Frömurum og stemningin meðal áhorfenda þegar þeir voru að fagna Fram var á þessa leið:"Jú,jú, það var ágætt hjá ykkur að vinna en þið áttuð það ekki skilið því þið spiluðuð ömurlegan bolta og voruð lélegir". En gott hjá Fram að halda sér uppi hvað sem öðru líður.

Stefnan er síðan að fara að sjá leik Skagamanna gegn FH-ingum í úrslitum bikarkeppninnar eftir rúma viku. Þar má búast við alvöru leik og má geta þess að ég er heill Skagamaður

laugardagur, 20. september 2003

Kemur síðan á rss.molar.is núna?

Alltaf eitthvað rugl. Allt í einu hættu fyrirsagnirnar að birtast á þessum fyrirsagnalista

föstudagur, 19. september 2003

Busaball MR

Sofnaði í Cösu í dag með úlpu yfir hausnum. Það hef ég aldrei gert áður. Ástæðan: Busaball í gær. Þetta var taumlaus skemmtun. Ljóst er að það er nokkuð vafasamt að biðja Jósep um reddingu á öli til drykkju. Bað ég pilt um Faxe bjórkippu, en fékk þess í stað þrjár lítersdósir (kúta?) af Faxe og fékk Tómas það sama. Síðan skemmti umræddur Jósep sér við að henda gaman að okkur drekkandi úr ferlíkjunum og vöktu dósir þessar víða athygli. Þess ber að geta að bekkjarpartý hjá nafna mínum var að minnsta kosti fimm sinnum betra en partý á sama stað um daginn og fær þetta kjallarapartý góða dóma almennt. Fyrst var haldið í teiti hjá 5.X en staldrað stutt við og þaðan í mitt bekkjarpartý. Síðan var það bara blússandi ballið á NASA. Í einhverju óðagoti fór ég með óupptekinn vodkapela í vasanum á NASA en dyravarðaómyndirnar gerðu hann upptækann. Ég áttaði mig ekki á því fyrr en ballið var búið að pelinn var horfinn úr vasanum. Fór ég þá umsvifalaust að ræða við dyravörð. Sagði hann að þeir hefðu hellt úr pelanum og höfðu hvorki spurt kóng né prest. Ég lét ekki bjóða mér þess háttar bull og steinrotaði dyravörðinn án tafar.

Já, síðasta línan var kannski aðeins ýkt.

Konungsins sveifla!

Ég mætti síðan að sjálfsögðu á tilsettum tíma í skólann í morgun því annað hefði verið löðurmannlegt. Í síðustu tímunum var aðeins farið að draga af mér og var ég farinn að stara hreyfingarlaus út í loftið í enskutíma, sem var næstsíðasti tími. Síðasti tíminn var íþróttatími og tók ég Tjarnarhringinn engum vettlingatökum í dag frekar en fyrri daginn og kom bara helvíti vel út. Síðan lagði ég mig að sjálfsögðu þegar heim var komið eftir langan og strangan dag.

Það munar ekki um það

Spjallborðið komið aftur (neðst). Nýr bakgrunnur hefur einnig skotið upp kollinum. Síðan nenni ég ekki að breyta þessu drasli oftar, nema þetta fari eitthvað að bila enn eina ferðina.

fimmtudagur, 18. september 2003

Sauður

Karlinn eyddi bara síðustu helgi með rollum og ættingjum norður í Kelduhverfi. Þar gerðist ég smali, en göngur í Kelduhverfi eru árviss viðburður hjá mér. Ég fór ekki í réttir. Ég læt ekki hafa mig að fífli við svoleiðis bull. Réttir nú til dags eru mjög heimskulegar því sauðfé hefur fækkað svo mikið og fólki í réttunum að sama skapi fjölgað. Þannig að venjan núna er að fólk sé fleira í réttum en fé. Þannig að það er orðið rökréttara að kindurnar dragi fólkið í dilka í stað þess að fólk dragi þær í dilka. Fólk af sama sauðahúsi færi þá í sama dilk. Til hvers að fara í réttir til að draga eina rollu í dilk? Eða 1/3 rollu, það er örugglega u.þ.b. meðaltalið á mann. Svo var líka engin rétt að kvöldi til, bara að morgni og miðjum degi og þá er augljóslega minna fútt í þessu.

Göngurnar sjálfar gengu bara ágætlega. Það versta sem getur komið fyrir í göngum er að gleyma kindum. Þær eiga það til að vera lúmskar og fela sig bakvið hóla eða að þykjast vera snjóskaflar eða því um líkt. Fátt er leiðinlegra en að líta aftur á bak í göngum og sjá rollu fyrir aftan sig. Hún stendur þá og glottir og kjamsar á ljúffengu grasi. Þá á maður að segja við rolluna eitthvað á þessa leið:
"Jæja, þú heldur að þú sért sniðug. Þú munt ekki glotta svona þegar hausinn á þér verður orðinn að sviði og búkurinn á þér að lambahrygg.". Þá segir rollan:"Heyrðu, á ég að stanga þig, melurinn (meee-lurrh) þinn?" Þá segir maður "Bíddu, ertu að reyna að stofna til vandræða hérna" og sendir hund á eftir rollunni til að sækja hana. Þá segir rollan "Bíddu bara, ég mun hefna mín" og það þýðir að hún getur orðið enn erfiðari viðureignar í næstu göngum og á jafnvel eftir að stanga mann niður síðar. Ég var einmitt einu sinni þegar ég var yngri stangaður niður af hrút og það var alls ekki gaman.

Ég vil endilega geit á skólalóðina framan við MR eins og Tomasz P. Jack lagði fram tillögu um á skólafundi í fyrra. "Betra er geit en Gádinn" eins og Ari Eldjárn sagði á ræðunámskeiðinu. Og þetta er ekkert andskotans grín. Vonandi kemur tillagan aftur á næsta skólafundi og verður þá samþykkt og ekki væri ónýtt ef rektor samþykkti slíkt. Svo í frosthörkum og hríðarbyljum á veturna mætti geyma geitina í kjallaranum undir Gamla skóla. Og þessi 6500 kall sem maður borgar í Skólafélagið, ég held að eitthvað af honum mætti fara í fóður handa geitinni.

mánudagur, 15. september 2003

Hvað á þetta að þýða?

Johnny Cash er dáinn. Ég ætla að kaupa mér disk með karli á næstunni og heiðra þannig minningu hans. Það er gefnara en allt gefið. Í dag fór ég í Skífuna og splæsti í þrjár plötur: Megas 1972-2002 (þrír diskar í pakka), Ensími-Ensími og Nýdönsk - Húsmæðragarðurinn. Þarna þekki ég mig. Ég keypti reyndar Nýdönsk diskinn aðallega út af því að hann var á hundrað kall. Kaupæði, ef þú veist hvað ég meina félagi.

Ég var að koma af ræðunámskeiði Framtíðarinnar sem var alveg þrælmagnað. Stefán Pálsson var lærimeistari ásamt Ara Eldjárn og stóðu þeir piltar sig bara andskoti vel. Pizzur voru étnar.

Væntanleg er umfjöllun um göngur og sauðfé í Kelduhverfi á næstunni, en þar var ég einmitt um helgina.

fimmtudagur, 11. september 2003

Hemmi Gunn - Frískur fjörugur

Viti borið fólk ætti að útvega sér disk Hemma Gunn hið allra fyrsta og þótt fyrr hefði verið. Ég get ábyrgst það að hann hressir, bætir og kætir.

miðvikudagur, 10. september 2003

Könnunin

Á að skipta um bakgrunn? (svör í kommentakerfið)

1. Já, þetta er verra en ógeð
2. Nei, þetta er einfaldur og skemmtilegur bakgrunnur
3. Hverjum er ekki drullusama?
4. Æ,veru ekki að masa

Veljið 1,2,3 eða 4.

Feitt

Nú þarf ég hvorki að mæta í dönsku né tölvufræði það sem eftir er skólaársins.

mánudagur, 8. september 2003

Krakkaóféti og skitið í sandkassa

Þessir krakkar nú til dags. Áðan kom eitthvað stórt sendibréf inn um bréfalúguna, fullt af mold og laufblöðum. Á bréfinu stóð skrifað með krakkaskrift Gudmundur. Prakkarastrik? Þessi krakkar halda að þeir séu svo sniðugir. En þeir eru ekkert sniðugir. Það er ekkert gaman að lenda í svona prakkarastrikum. En ég var hins vegar sniðugur þegar ég var lítill og gerði prakkarstrik. Gömlu tímarnir. Ég man nú þegar við krakkarnir tróðum heyi inn um gluggana á húsinu hjá Guðlaugi og Höllu og þegar við rifum upp hríslur í garði hjá einhverju fólki og hentum inn í annan garð. Svo ekki sé minnst á þegar við fengum lánaða tómatsósu hjá Möggu og Jobba og egg hjá Guðlaugi og Höllu og lugum því að þeim að mömmur okkar vantaði efni í baksturinn. Síðan drullumölluðum við úr öllu klabbinu. Best af öllu var samt þegar ég var þriggja ára og fór á leikvöllinn og skeit í sandkassann. Ég sá að kettirnir voru oft að skíta þarna og hugsaði: "Af hverju ekki ég?" og svo skeit ég. Þarna erum við að tala um fyndin og skemmtileg prakkarastrik. Mömmu fannst hins vegar ekki fyndið þegar ég skeit í sandkassann og þreif skítinn upp. En það er bara af því að hana skortir alla kímnigáfu.

En þessi börn nú til dags eru bara illa upp alin óféti. Minnstu ekki á það ógrátandi.

sunnudagur, 7. september 2003

Grúskað

Ég er farinn að grúska í Mars Volta disknum mínum sem ég keypti fyrir 2 mánuðum. Þetta er fínasta kvikindi. Best er að blasta kvikindið á gettóblasternum á hæsta styrk við heimalærdóminn, sérstaklega í stærðfræði. Það er miklu auðveldara að hugsa þannig. Reyndar er þetta líka auðveldari stærðfræði, svona í annað sinn.

laugardagur, 6. september 2003

Ég fæ mér einn og öskra mö: Þreföld menningargagnrýni

Ég er búinn að að verða mér úti um disk með Hemma Gunn, Frískur fjörugur. Þessi diskur er helvíti magnaður og artí fartí. "Einn dans við mig" er mesta sveiflulagið, þar er Hemmi í "full swing" ef svo mætti segja (eins og Guðmundur J. sögukennari mundi orða það). Textasmíðar á disknum eru vel ígrundaðar og hnitmiðaðar eins og dæmin sanna: "Ég fæ mér einn og öskra mö", "Á mig sveif, lallala. Sigga, Magga, Rut og Ragga Stína og Gudda runnu um allan sal. ", "...og Jósafat það matargat" og "Markmiðið er, að fá píu heim með sér" . Þvílík gríðarleg sveifla. Hemmi kann ýmislegt fyrir sér.
Einkunn: Þrjár og hálf stjarna af fimm.

Freddy vs. Jason er mynd sem ég borgaði mig inn á um daginn og skammast mín fyrir það. Maður sat þarna í bíóinu á þessari mynd og hugsaði "uh, söguþráður?" Ekki fór mikið fyrir honum í myndinni. Söguþráðurinn hefur alveg gleymst í öllu amstrinu við gerð myndarinnar. Illa leikið. Fór ekki út í hléi. Fór út eftir 20 mínútur. Það segir ýmislegt.
Einkunn: Feitur mínus.

Fór á eðalleikrit í gær í Loftkastalanum, ókeypis. (Þetta var general-prufaeða eitthvað slíkt). Það hét Erling og var gert eftir norsku myndinni Elling. Það fjallar um tvo geðveika kumpána sem útskrifast af geðveikraheimili á Kjalarnesi (allt staðfært á íslenskar aðstæður). Kumpánarnir fá félagslega íbúð í Reykjavík og gengur erfiðlega að fóta sig í nýju umhvefi. Gott grín. Jón Gnarr fer á kostum í leikritinu sem annar félaganna og smellpassar í sitt hlutverk. Aðrir leikarar stóðu sig ágætlega en Gnarrinn stóð upp úr. Jón Gnarr er maður sem hefur bara alveg horfið en nú er ég sem sagt búinn að finna hann. Hann er í Loftkastalanum, að leika.
Einkunn:Fjórar og hálf stjarna af fimm mögulegum.

fimmtudagur, 4. september 2003

Til gamans má geta þess að nú er komið nýtt og ferskt kommentakerfi á síðuna

Helvítis gamla kommentakerfið er farið og nýtt og ferskt komið í staðinn. Þá getur fólk komið sínum athugasemdum á framfæri á ný.

Skólaráð er lengi að afgreiða umsóknir mínar um að sleppa tölvufræði, verklegri efnafræði og dönsku. ég er í tölvufræði núna sem er rassgat. Annars er fínt að vera fallisti og má geta þess að ég reiknaði lengsta stærðfræðidæmi sem um getur á töfluna um daginn.

miðvikudagur, 3. september 2003

Fokið í flest skjól

Reyndasti starfsmaður bæjarvinnunnar, Haukur að nafni, hokinn af reynslu eftir þrotlausa vinnu í sjö sumur á hverfisbækistöð fjögur heimtar nú link. Þá er fokið í flest skjól. Hann fær link með því skilyrði að hann linki á mig. Hér gilda lögmál náttúrunnar:auga fyrir auga, tönn fyrir tönn, linkur fyrir link. Drengurinn er 24 ára viðskiptafræðingur en verkamaður á sumrin eins og áður hefur komið fram. Það væri ekki úr vegi að fólk liti á blogg hans sem á það til að vera hressandi.

Það verður enginn hagnaður af þessu hjá honum, bara skipt á sléttu.

þriðjudagur, 2. september 2003

Nú fá hausar að fjúka

Ég fór í strætó í morgun niður í MR úr Seljahverfinu og þurfti að standa allan tímann. Það er síður en svo vinsælt. Strætóinn var vel pakkaður eins og hann hefur verið síðustu daga og margir stóðu því. Þetta er orðið það slæmt að bílstjórinn er farinn að segja fólki að koma inn að aftan svo það komist fyrir. Allir sem stóðu þurftu að stíga trylltan dans til að halda jafnvægi því bílstjórinn var versti ökuníðingur gaf alltaf vel í rétt áður en hann kom að ljósum og negldi svo niður á rauðu þannig að menn duttu hver um annan þveran. Ég veit ekki hvort það er svona leiðinlegt að vera strætóbílstjóri að þeir reyni að fá eitthvað kikk út úr því að keyra eins og vitleysingar. Ég bíð eftir því að Auðunn Blöndal á Popptíví komi inn í pakkaðann strætóinn og segi fólki að þetta sé falin myndavél og hafi bara verið grín í strætó síðustu daga. Ef það gerist verður hann kýldur í rot samstundis því troðningurinn í strætó er síður en svo eitthvað grín.

Mikið er um lélegar og jafnvel ógeðslegar auglýsingar þessa dagana. Sérstaklega má nefna Cheerios auglýsingar sem eru bara viðbjóður. Svo er það Íslandsbanki sem er búinn að hrinda af stað rándýrri auglýsingaherferð sem á að lokka námsmenn til þeirra. Flettarinn, Skemmtarinn, Vekjarinn o.s.frv. eru með því lélegra sem sést hefur í auglýsingum og það er ljóst að ég hef ekki viðskipti við Íslandsbanka á næstunni. Þessar auglýsingar eru ekkert nema fjáraustur og sóun í vitleysu. Ég veit a.m.k. ekki um neinn sem finnst þessar auglýsingar sniðugar eða skemmtilegar.

Einhver má kenna mér að laga enetation kommentakerfi eða finna kommentakerfi frá einhverri annarri síðu (Haloscan virkar ekki).

föstudagur, 29. ágúst 2003

Nýnemar

Nú eru skólarnir byrjaðir og svokallaðir nýnemar eða busar mæta í skólana ásamt öðrum nemendum. Þetta er ekki eins og þegar beljunum er hleypt út á vorin og þær sletta úr klaufunum. Þetta er eins og þegar lömbin fara í sláturhúsið á haustin. Annars hef ég aldrei haft neitt á móti nýnemum fyrr en núna. Nú hef ég fengið ærna ástæðu til að fordæma þá. Það er þannig að ég tek strætó í skólann á morgnana eins og margir aðrir. Núna fyrstu skólavikuna hef ég oftast ekki fengið sæti í strætónum sem ég tek í skólann, 111. Það virðist vera rosalega mikið af nýnemum hérna í Seljahverfinu sem þurfa endilega að taka strætó 111. Það er alls ekki vinsælt að koma inn í strætó á morgnana og sjá öll sætin upptekin og í helmingnum af þeim sitja nýnemar. Svona nýnemar eru bara litlir og ljótir og vita ekkert. Það var samt ekki þannig þegar ég var nýnemi, þá voru allir bara stórir, myndarlegir og vissu mikið. En árgangurinn sem er að byrja núna virðist vera óvenju slæmur að þessu leyti. Reyndar er sökin á þessu með leið 111 ekki alfarið nýnemanna, Strætó bs. á nefnilega sína sök líka. Þeir eru hættir með langa harmonikkustrætóinn á morgnanna og nota bara svona lítinn, venjulegan strætó (sem er að minnsta kosti tvöfalt minni en harmonikkan) . Ég veit ekki hvað er að þeim sem stjórna því fyrirtæki, en eitthvað virðist það vera. Svo spurði einhver kona bílstjórann um daginn af hverju stóri strætó væri ekki lengur. Hún fékk svarið: "Þetta hefur alltaf verið svona" frá bílstjóranum. Það er bölvuð lygi. Ég tók alltaf 111 nikkuna í fyrra.

fimmtudagur, 28. ágúst 2003

Survivor Stöð 2

Ég hef ansi gaman að þessum nýja raunveruleikaþætti: Survivor Stöð 2. Hann kemur virkilega ferskur inn. Þorsteinn Joð farinn, Árni Snævarr o.fl. og nú síðast Snorri Már Skúlason. Það sem er svo magnað við þennan raunveruleikaþátt er að hann er blákaldur raunveruleuikinn. Það er svona "The Tribe"(ættflokkur) og hann er í þessu tilfelli bara skipaður yfirmönnum Norðurljósa og kannski gjaldkera og bókhöldurum, varla fleiri en 5-6 manns. Svo eru allir starfsmenn Norðurljósa drullustressaðir yfir því að kannski verða þeir kosnir burt næst. Þegar The Tribe hefur kosið verður ekki aftur snúið. Og þegar menn er kosnir burt þýðir ekkert að væla og segja "elsku mamma" eða "elsku Jón Ól." við yfirmennina því þá fá þeir bara svör eins og: "Hvurn andskotann varðar mig um það hvort þú heitir Þorsteinn Joð eða Árni Snævarr. Mér er alveg sama. THE TRIBE HAS SPOKEN, félagi!". Svo er bara slökkt á þeirra kyndlum og þeir segja sín lokaorð, ekki þó á Stöð 2. Lokaorðin geta þeir sagt á öðrum fjölmiðlum.

Svo er bara spurningin hver vinnur Survivor Stöð 2. Kannski verður það Valtýr Björn sem er núna með sportþáttinn á Útvarpi Sögu. Þá fær hann pottþétt langan sportþátt á Stöð 2 í verðlaun. Þar getur hann spurt fótboltamenn og fótboltaþjálfar hvernig þeim gangi í golfinu og spilað lög með Hemma Gunn, eins og hann er svo duglegur að gera í þættinum sem hann er í núna.

Vesen

Sá sem kann að laga kommentakerfið hérna má endilega láta mig vita. Það er víst ekki hægt í comments þannig að leiðbeiningar væru vel þegnar í tölvupósti:gummifm@hotmail.com. Andrés Þorleifsson hefur oft vitað sitthvað um svona lagað. Ef hann veit þetta má hann láta vita.

þriðjudagur, 26. ágúst 2003

Slappt

Liverpool liðið byrjar leiktíðina afar illa. Það er alveg ljóst að Gerard Houllier á að reka og ekki hefði sakað þótt það hefði gerst í gær. Liðið lék við Aston Villa á sunnudaginn og sá leikur var hörmung á að horfa. Liverpool voru drullulélegir. Þeir spiluðu ekkert betri bolta en miðlungslið Aston Villa. Mér sýnist að það þurfi rússneska byltingu til að bjarga liðinu. Svoleiðis byltingar virðast vera að koma sterkar inn á Englandi. Liðið mun ekki vinna deildina þetta árið ef Houllier fær að stjórna áfram. Hann er gjörsamlega að skíta á sig núna. Vissulega tókst honum að vinna þrjá titla þarna eitt árið, UEFA cup og báðar ensku bikarkeppnirnar en síðan þá hefur liðinu bara farið aftur. Ég vil að Phil Thompson taki við liðinu til bráðabirgða og síðan verði fenginn einhver sóknarsinnaður stjóri til liðsins og að liðið fari að leika sambabolta og kannski spila aðeins upp kantana ef það er ekki til of mikils mælst. Svo vil ég að Sami Hyypia og Stephane Henchoz, sem hafa verið sterkasta miðvarðapar deildarinnar undanfarnar leiktíðir, verði seldir. Þeir virðast gjörsamlega heillum horfnir svo það á hiklaust að selja þá áður en þeir hríðfalla í verði. Svo má kaupa tvo sókndjarfa svarta Sambóa í vörnina í staðinn til að hjálpa til við sambaboltann. Þá má finna með því að senda njósnara á vegum liðsins til S-Ameríku og Afríku. Harry Kewell gat ekki rassgat í leiknum á móti Aston Villa. Þess vegna á að taka hann út úr liðinu í næsta leik og gefa öðrum tækifæri. Svo vantar einhvern svakalegan á miðjuna með Hamann og Gerrard. Það þarf mikið að hreinsa til í liðinu.

Ef þessari uppskrift verður fylgt ætti Liverpool liðið að verða enskur meistari næsta vor.

föstudagur, 22. ágúst 2003

Castro kvaddur

Síðasti vinnudagurinn minn var í dag og hætti ég á hádegi. Tók ég í spaðann á Castro og kvaddi hann með virktum og þakkaði honum sumarið. Það endar sjálfsagt á því að ég verð þarna næsta sumar líka.

Algjör hársbreidd og taka tvö

Skólasetning var í MR í dag. Ég mætti. Sá nýja bekkinn sem er þó í raun gamli bekkurinn, þ.e. ég er í fjórða R annað árið í röð. Það er stemning. Kona hringdi í Suigurð G. Tómasson á Útvarpi sögu um daginn og sagði "algjör hársbreidd". Hún var rugluð. Hvalveiðar hafnar við Ísland á ný. Ég er alfarið hlynntur hvalveiðum. Þvílíkur lúxus að hafa fallið á önn. Nánast engin bókakaup. Ég verð hvorki í tölvufræði né dönsku. Þannig að það verður ekkert "elsku Þyrí". Ég er nú bara aldeilis hræddur um ekki. Verklegri efnafræði sleppi ég líka. Þetta verður líklega bara létt og löðurmannlegt verk, fjórði bekkur í annað sinn.

Sorgarfréttir dagsins komu í Dómkirkjunni við skólasetninguna. Skarphéðinn Pálmason stærðfræðikennari til "ég veit ekki hvað" margra ára lætur nú af störfum eftir dygga þjónustu við skólann í áraraðir. Haldinn var vænn pistill um störf hans og frama í MR og má geta þess að það var eiginlega það eina sem ég hlustaði á í kirkjunni. Annað sem sagt var í kirkjunni lét ég sem vind um eyru þjóta enda eru þessar skólasetningarræður alltaf eins eða mjög keimlíkar. Svo þegar minnst var á Konunginn, þá lagði ég aldeilis við hlustir. Hans verður minnst með ekka og trega og öllum pakkanum.

Svo komu líka gleðifréttir. Arnbjörn Jóhannesson íslenskukennari snýr aftur eftir eins árs námsleyfi sprækur sem aldrei fyrr. Hann mun einmitt kenna mínum bekk. Í heildina leist mér bara nokuð vel á kennarana mína þetta árið. Nauðsynlegt að hafa góða kennara.

Svo kom Hannes portner að máli við okkur og skaut inn nokkrum bröndurum eins og honum einum er lagið. Hann hefur sjálfsagt verið að undirbúa slatta af smellnum bröndurum í sumar til að kasta fram núna í vetur. Kennararnir hafa sjálfsagt líka fengið innblástur í sumar og bætt við brandarabankann. Það mætti einhver kennari mér og Pjakk á göngunum og gaukaði að okkur einum brandara í teilefni af því að við vorum á stuttbuxum: "Hvað, eruð þið enn þá úti á Krít?". Við ákváðum að segja henni ekkert að við hefðum ekki verið í útskriftarferð í sumar til að eyðileggja ekki fyrir henni brandarann. En þessi var mun síðri en Portnersbrandararnir, sem voru vel ígrundaðir að venju.

miðvikudagur, 20. ágúst 2003

Gerard Houllier, Gunni gír og fleira

Ekki hefur verið ritað reglulega hér upp á síðkastið. Því er ýmislegt sem vert er að nefna:

1. Gerard Houllier á að reka umsvifalaust ef Liverpool vinnur ekki næsta leik, gegn Aston Villa. Igor Biscan er í miklu uppáhaldi hjá Húlla og þegar menn hafa svoleiðis viðhorf getur ekki farið nema á einn veg: illa. Sá maður er allt of grófur og er mjög iðinn við það að brjóta mjög hemskulega á andstæðingunum. Í leiknum á móti Chelsea fylgdist ég vel með Biscan. Hann gerði eitthvað gott en mun meira slæmt. Selja þennan mann. Liverpool þarf alls ekki á honum að halda. Ég er fullviss um að bæði Salif Diao og John Welsh hefðu verið betri kostir en Biscan í stöðuna. Þegar Houllier er ekki fær um að stilla upp sterkasta byrjunarliði, þá á að fara að láta hann taka pokann sinn. Le Tallec og Milan Baros hefðu átt að byrja inni á í sókninni. Ef þeir hefðu ekki staðið sig, þá hefði hann átt að setja Owen og Heskey inn á í hálfleik. Svo er ég mjög ósáttur við að Húlli karlinn vilji leyfa Markus Babbel að fara. Hann á hiklaust að vera áfram hjá liðinu. Stuðningsmenn Liverpool krefjast titils núna og þótt fyrr hefði verið. Annars bara bless, bless Houllier.

2.Morgunþáttur Freysa á X-inu er oft góður þótt hann sé nú oft kominn á ansi hálan ís í skítkasti á ýmsa þjóðþekkta menn. Mesta snilld sem ég man eftir hafa heyrt í útvarpi er Gunni gír, en hann er einn af kynlegum kvistum sem eru reglulega teknir tali í þættinum. Gunni fylgist af áhuga með umferðinni og er sá alhressasti í bænum. Hann kemur alltaf með skemmtilegar sögur úr umferðinni. "Ha! Félagi!". Snilld.

3.Ég var að "uppgötva" hljómsveitina The Proclaimers. Lagið I'm Gonna Be (500 miles) með þeirri hljómsveit er gargandi snilld. Ég heyrði það í útvarpinu um daginn og mundi þá eftir að hafa oft heyrt það þegar ég var lítill þegar pabbi og mamma voru að spila plötu þeirra sem heitir Sunshine On Leith. Ég hef ekki verið nema 4-5 ára þegar ég heyrði lagið og hugsaði þá strax "hevví smellur". Ég man það. Svo í gær ákvað ég að dusta rykið af plötunni og það er ekki laust við að þetta sé alvöru "oldschool hardcore record" eins og kaninn segir. Nei, þetta er ekkert harðkjarna en mjög gott engu að síður. Rétt er að geta þess að ég hlustaði bara á hlið A á plötunni og veit ekkert um B hliðina. En A lofar góðu. Ef þessi hljómsveit tveggja skoskra bræðra væri ekki hætt fyrir löngu mundi ég segja að þeir ættu framtíðina fyrir sér, piltarnir. Kannski eru þeir bara gamlir karlar á elliheimili í dag. Enginn veit.

4. Allt er gott sem kemur frá Húsavík. Ég er búinn að komast að því. Þar sem ég fæddist í þessum litla bæ hef ég sterkar taugar til hans. Það síðasta sem ég var að uppgötva þaðan er hljómsveitin Innvortis. Ég var eitthvað að þvælast á netinu, fór inn á rokk.is og sótti mér lagið Andrea sem er með þeim Það er magnað. Líklega finnst mér það samt mun magnaðara en ella af því að það er frá Húsavík. Svo klikkar Húsavíkurjógúrt ekki.

5. Ég sofnaði yfir leik Íslands og Færeyja. Hann var leiðinlegur. Ég er ekki vanur að sofna yfir sjónvarpi.

6. Vinna er mikil þessa dagana og ofan á hana bætist yfirvinna. Uss.

7. Eina bók þurfti ég að kaupa fyrir skólann. Efnafræðibók var það en ég kýs að kalla hana símaskrá, slík er stærð hennar.

Fleira var það ekki.